Björgunaraðilar - gera frábæra hluti - vera búinn að minnka

Orðlof

Kind

Orðið kind merkir upphaflega ’ætt’ eða ’afkvæmi’, en er á síðari tímum venjulega notað um sauðkindur. 

Þetta er tegundarheiti og nær þannig yfir bæði kynin, ær og hrúta, og einnig afkvæmin, lömb. 

Nú er það þó oft notað eingöngu um kvendýrið, og talað um kindur og lömb. 

Tvær hugsanlegar ástæður má nefna fyrir þessari merkingarbreytingu. Orðið kind er kvenkynsorð og því eðlilegt að menn tengi það sérstaklega við kvendýrið. Ær eru líka miklu fleiri og meira áberandi en hrútar.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Tveir aðrir björg­un­araðilar sem voru með Gelle í þyrlunnu komust einnig lífs af.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Málsgreinin er óskiljanleg því hvað þýðir „björgunaraðili“? Stafsetningarvilla er í málgreininni sem er ólíðandi.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Allt sem er fyrir ofan þig, getur dottið ofan á þig.

Frétt á vísi.is.                                      

Athugasemd: Frekar illa samin málsgrein og að auki með nástöðu. 

Hver er þessi „þú“ sem er þarna ávarpaður í þolfalli? Varla lesandinn, þá væri talað um hann.

Tillaga: Allt sem er fyrir ofan fólk getur fallið.

3.

22 ára karlmaður hefur verið dæmdur …

Frétt á vísi.is.                                      

Athugasemd: Svona eiga blaðamenn ekki að skrifa og síst af öllu fréttastjóri. Bölvaður sóðaskapur að byrja málsgrein á tölustöfum.

Tillaga: Tuttugu og tveggja ára karlmaður hefur verið dæmdur …

4.

„Sonur Diego Simeone að gera frábæra hluti í Seríu A.

Fyrirsögn á vísi.is.                                      

Athugasemd: Nei, hann er ekki „að gera hluti“. Hann leikur fótbolta á Ítalíu og stendur sig vel.

Í fréttinni segir:

Simeone er kominn með 12 mörk í fyrstu 17 leikjunum með …

Betur fer á því að segja að maðurinn hafi skorað 12 mörk.

Einnig segir í fréttinni:

Verona liðið er kannski bara í þrettánda sæti en eitt af markahæstu liðum deildarinnar.

Fréttin skilst ekki enda skrifuð í fljótfærni. Orðinu „kannski“ er ofaukið en þrátt fyrir það veit enginn hvað blaðamaðurinn á við.

Tillaga: Sonur Diego Simeone stendur sig vel í Seríu A.

5.

„Sá stærsti varð klukkan 9.23 og mældist 4,9 að stærð.

Frétt á vísi.is.                                    

Athugasemd: Skjálftinn var 4,9 stig. Orðalagið „að stærð“ er frekar leiðigjarnt og passar engan veginn. Þó er eins og blaðamaðurinn hafi áttað sig því hann skrifar:

Næst stærstu skjálftarnir í hrinunni voru 4,2 og 4,1 stig

Gott hjá honum. Sleppa og henda út í ystu myrkur orðalaginu „að stærð“.

Í fréttinni stendur skrifað „skjjálftar“. Stafsetningavillur á að leiðrétta við yfirlestur eða sjálfvirka leiðréttingaforritið á að vekja athygli á því. Hvorki blaðamaðurinn né forritið voru í sambandi.

Tillaga: Sá stærsti varð klukkan 9.23 og mældist 4,9 stig.

6.

„Bjarki Kaldalóns Fri­is, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, seg­ir hrin­una sem nú er í gangi vera búna að minnka ör­lítið frá því í gær …

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Orðalagið er slæmt. Í staðinn ætti að segja að hún hafi minnkað.

Í fréttinni segir:

Von er á niður­stöðum úr henni eft­ir­miðdag­inn eða í kvöld í fyrsta lagi.

Ekki er samræmi í málsgreininni. Forsetninguna ’í’ eða ’um’ vantar í fyrri hlutann en í þeim síðari er hún á réttum stað. Þar að auki er orðaröðin slæm. Málsgreinin er skárri svona:

Varla er von á niður­stöðum fyrr en síðdegis eða í síðasta lagi í kvöld.

Eftirmiðdagur þótti hér áður fyrr vera bölvuð danska og frekar mælt með orðinu síðdegi sem er mjög gott orð og dugar hér ágætlega.

Blaðamaðurinn flýtir sér að ljúka við fréttina, gleymir að lesa yfir og afleiðingin er margföld nástaða:

Eng­inn fund­ur hef­ur verið ákveðinn hjá vís­indaráði al­manna­varna í dag vegna stöðunn­ar sem er uppi en ef ný gögn koma fram mun það hugs­an­lega funda. Í gær voru tveir fund­ir haldn­ir, hefðbund­inn upp­lýs­inga­fund­ur og vís­indaráðsfund­ur.

Blaðamaðurinn hlýtur að geta gert betur enda er í öllum skrifum mikilvægt að gæta að stíl. 

Tillaga: Bjarki Kaldalóns Fri­is, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, seg­ir hrin­una sem nú er í gangi hafi minnkað ör­lítið frá því í gær …

7.

„Alls greind­ust 448 með …

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Hvergi í fréttum fjögurra fjölmiðla um kóvit eru málsgreinar sem hefjast á tölustöfum. Ekki á vísi.is, ekki á fréttablaðinu.is og ekki á DV.is.

Hvað er eiginlega að gerast? Yfir hverju á maður núna að nöldra?

Hins vegar féll ruv.is á prófinu. 

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband