Sigra Eurovision - sérsveitin með viðveru í miðbænum - skógareldar dreifast

Orðlof

Ávarpa vandamálið

Hvað á þá að gera – hvernig eigum við að orða þessa merkingu á íslensku? 

Það er auðvitað hægt að segja að við þurfum ekkert á sérstakri sögn að halda til þess – við höfum komist af án þess í þúsund ár þótt við höfum allan tímann reynt að greina vandamál og viðfangsefni, ræða þau, skilja þau, ráðast til atlögu við þau, glíma við þau, taka þau til umræðu o.s.frv. 

Það er líka hægt að benda á að það er misskilningur að þótt enska hafi ákveðið orð yfir eitthvert hugtak þurfi íslenska endilega að hafa orð sem samsvarar því nákvæmlega. 

Það sé enginn vandi að orða þessa hugsun á fjölbreyttan hátt, mismunandi eftir aðstæðum.

Eiríkur Rögnvaldsson.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ég vil keppnislag sem sigrar Eurovision.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Maðurinn sem þetta sagði hefur líklega ætlað að segja að hann vildi lag sem gæti sigrað í Eurovision. Munurinn liggur í forsetningunni ’í’. Ekki gleyma henni, þá er illa fyrir manni komið og áhorfendur hlægja.

Allir eiga að vita að nafn eða heiti er ekki keppandi. Útilokað er að „sigra“ þessi:

  • Íslandsmótið í fótbolta
  • Maraþonhlaupið
  • Kosningar
  • Skoðanakönnun
  • Danskeppni
  • Rallí
  • Laugavegshlaupið

Svarið liggur í augum uppi. Hins vegar keppa margir við sjálfan sig, reyna að gera betur í dag en í gær. Fjölmargir sigrast á fíknum af ýmsu tagi og þeir eru til sem komast á efsta fjallstind og telja sig hafa sigrað fjallið en í reynd er hver og einn sigurvegari með sjálfum sér.

Loks er það auglýsandinn sem talar galvaskur um að „sigra sumarið“. Hvernig er sumarið sigrað og hvers vegna er þörf á því?

Tillaga: Ég vil keppnislag sem sigrar í Eurovision.

2.

„Flottur tímapunktur að enda þetta á Evrópumóti.“

Frétt á blaðsíðu 54 í Morgunblaðinu 21.7.22.

Athugasemd: „Tímapunktur“ er draslorð. Miklu betra er að nota tími, augnablik, tímasetning og ábyggilega margt annað. Svo má nota atviksorðið núna eða

Takið eftir tillögunni, ekkert breytist þó orðinu sé sleppt. Hvers vegna? Engin ástæða er til að spyrja, orðið er vita gagnslaust. Það sjá allir.

Tvisvar í fréttinni sagt að „skórnir séu komnir á hilluna“. Einu sinni þótti þetta skemmtilegt og frumlegt orðalag. Nú er það ofnotað og leiðinleg. Eðlilegra og skýrara er að nota sögnina að hætta. Jafnvel börn þekkja nota það.

Tillaga: Flottur tími að hætta á Evrópumótinu.

3.

„En fót­bolt­inn er fljót­ur að bíta í rassgatið á þér ef þú held­ur að þú sért orðinn pró­fesor í fót­bolta­fræðunum

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Líklega á maðurinn við að ýmislegt komi á óvart í fótbolta, jafnvel sérfræðingum.

Engin þörf er á klúryrðum í fréttaskrifum, jafnvel þó þau hrökkvi upp úr viðmælanda. Fréttin batnar ekki fyrir vikið, síður en svo.

Tillaga: Engin tillaga. 

4.

„Segir ekki til­efni til að blása af útihátíðir um Verslunar­manna­helgina.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Sjaldgæft er að í fjölmiðlum sé sagt að hætt hafi verið við eitthvað. Miklu algengara er að fundir eða mót séu „blásin af“ og það skilst svo sem ágætlega. Íslenska er ekki einhæft tungumál og orða má hlutina á margvíslegan hátt. 

Skrifarar, blaðamenn sem aðrir, þurfa samt að kunna að beita tungumálinu, en til þess þarf drjúgan orðaforða svo vel sé, og hann hafa ekki allir. Það fer ekki framhjá lesendum fjölmiðla.

Tillaga: Segir ekki til­efni til að hætta við útihátíðir um verslunar­manna­helgina.

5.

„Sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra er með viðveru við Rauðar­ár­stíg í miðbæ Reykja­vík­ur sem stend­ur.

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Hvað merkir orðalagið „að vera með viðveru“? Þvílíkt dómsdags bull sem þetta er. Örugglega ættað frá löggunni en hún er óskrifandi. Hér þykist hún skrifa virðulegt mál sem á að vera hafið upp yfir gaggið í alþýðu manna.

Síðan hvenær varð Rauðarárstígur í miðbæ Reykjavíkur?  

Berum saman tilvitnunina og tillöguna hér fyrir neðan.

Svona lítur fréttin út:

Sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra er með viðveru við Rauðar­ár­stíg í miðbæ Reykja­vík­ur sem stend­ur

Hið minnsta einn sér­sveita­bíll og ann­ar merkt­ur lög­reglu­bíll er á svæðinu að sögn sjón­ar­votta. 

Bíl­arn­ir eru stadd­ir rétt norðan við Hlemm, ekki svo langt frá lög­reglu­stöð 1 í Reykja­vík.  

Ekki ligg­ur fyr­ir að svo stöddu um hvað aðgerðir sér­sveit­ar­inn­ar snú­ast á svæðinu. 

Þarna teygir og togar blaðamaðurinn bullið frá löggunni svo úr verður tómt bull. Rembst er við að búa til frétt úr engu. Með erfiðismunum er hægt að þýða ósköpin á íslensku:

Bíll sérsveitar ríkislögreglustjóra er nú við Rauðarárstíg í Reykjavík og lögreglan með annan. Ekki er vitað hvað er að gerast.

Blaðamaðurinn skrifar 54 orð þegar 20 hefðu nægt. Hvað er eiginlega að gerast á Mogganum?

Tillaga: Sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra er núna við Rauðar­ár­stíg í Reykja­vík­ur.

6.

„Skógareldar dreifast á Tenerife.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þegar svona stendur á er sagt að eldurinn breiðist út

Í fréttinni segir:

Neyðarsveit­ir á Teneri­fe berj­ast við að ná tök­um á skógar­eld­um á norður­hluta eyj­unn­ar, en eld­ur­inn hef­ur þegar brennt 500 hekt­ara lands á eyj­unni.

Já, „eldurinn hefur brennt …“ Eldurinn hefur líklega brunnið á um 500 hekturum.

Tillaga: Skógareldar breiðast út á Tenerife.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband