Sýna frammistöðu - hafna manni hæli - markríll sem mætir á Þórshöfn

Orðlof

Vaxa fiskur um hrygg

Fiskar synda jafnan um í sjó eða vötnum og reyni þeir að synda á land verða þeir gjarnan eins og þorskar á þurru landi. 

Ekki eru þó allir fiskar lagardýr því orðið fiskur getur einnig þýtt ’vöðvi’ eða ’þroti undir húð’. 

Þessa merkingu má t.d. sjá í orðunum fjörfiskur ’ósjálfráðir vöðvakippir í andliti’, kinnfiskur (einkum í lýsingarorðinu kinnfiskasoginn) og í orðatiltækinu að vaxa fiskur um hrygg sem merkir ’að eflast, taka framförum’.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„FH-ing­ar sýndu eina af sín­um bestu frammistöðum í sum­ar í fyrri hálfleik …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Frammistaða er eintöluorð, ekki til í fleirtölu. Og þó svo væri er tómt klám að „sýna frammistöðu“, eina eða fleiri. Litla barnið getur sýnt foreldrum sínum teikninguna sína og þau hrósað því fyrir frammistöðuna.

Íþróttalið getur ekki sýnt frammistöðu, það á hana ekki á lager.

Af hverju „sýna“ en ekki nota aðra sögn sem hentar betur tilefninu? Trúlega hefur fyrri hálfleikur fótboltaleiksins verið sá besti hjá FH-ingum í sumar. 

Í fréttinni segir:

Á sama tíma áttu Blikar nokkra spilkafla í fyrri hálfleik , þar sem ekki var að sjá að þeir væru manni færri …

Skrýtið orð „spilkafli“, eiginlega draslorð. Fótboltalið leikur eða spilar fótbolta. Þar af leiðir að forskeytið „spil“ er óþarft og ekkert breytist þó því sé sleppt. Svo er þetta „þar sem“ sem ofnotað er í fréttinni.

Málsgreinina hefði má orða svona:

Á tímabili í fyrri hálfleik var ekki að sjá að Blikar væri væru manni færri …

Blaðamaðurinn skrifar ágætlega en hefði átt að lesa fréttina yfir fyrir birtingu. 

Tillaga: FH-ing­ar hafa ekki leikið betur í sumar en þeir gerðu í fyrri hálfleik …

2.

„… að stjórnvöld hafi sakað skjólstæðing hans um að ljúga til um kynhneigð sína og hafnað honum hæli.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Sagnirnar synja, hafna og neita geta haft svipaða merkingu en eru þó ekki alltaf samhljóma. Í fjölmiðlum er oft misfarið með þær.

Tilvitnunin er ranglega orðuð. Sé hæli skipt út og í staðinn sett tjald, hestur, leiga, sæti eða eitthvað annað sést berlega að orðalagið að hafna um hæli gengur ekki upp, ekki frekar en að hafna um tjald eða hest.  

Honum er „hafnað sæti“ …

Þó er til að manni sé hafnað. Hægt er að hafna umsækjanda hafi hann ekki uppfyllt skilyrði. Tilboði er hægt að hafna eða neita, en varla „synja“.

Í ofangreindu tilviki hefur manninum verið neitað um hæli, umsókninni hefur verið hafnað, hann hefur fengið synjun.

Tillaga: … að stjórnvöld hafi sakað skjólstæðing hans um að ljúga til um kynhneigð sína og neitað honum um hæli.

3.

„Markríllinn mættur á Þórshöfn.

Frétt á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 28.7.22.

Athugasemd: Hvað heitir annars fiskurinn? Jú, makríll, og hann er ekki „mættur“ heldur fluttur dauður á Þórshöfn eftir að hafa verið veiddur úr sjó.

Fram kemur í meginmáli fréttarinnar að hafin sé vinnsla á makríl á Þórshöfn. Þá er réttilega hægt að segja að starfsfólkið sé mætt til vinnu.

Blaðamenn þurfa að hafa tilfinningu fyrir málinu, ekki apa gamalt orðalag, sem einhvern tímann var frumlegt, upp eftir öðrum. Og svo er gott ráð að láta sjálfvirk leiðréttingarforrit lagfæra stafsetningavillurnar. Annað er leti.

Í blaðamennsku er alltaf er best að tala blátt áfram, forðast málskrúð eða orðaprjál af öllu tagi.

Tillaga: Vinnsla á makríl hafin á Þórshöfn.

4.

„Knattspyrnuþjálfarinn Óskar Hrafn Þorvaldsson og lærisveinar hans í Breiðabliki mæta Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi í seinni leik liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu á Podgorica-vellinum í Svartfjallalandi í kvöld.

Frétt á blaðsíðu 54 í Morgunblaðinu 28.7.22.

Athugasemd: Þetta er hræðilega löng og leiðinleg málsgrein.

Blaðamaðurinn þekkir ekki mikilvæga reglu í faginu en hún er sú að í upphafi ætti að koma að meginatriðum fréttarinnar. Ekki rifja upp mannkynssöguna og loksins koma að aðalatriðinu í lokin. Alltof margir blaðamenn gera þessi mistök. 

Blaðamaður á Mogganum er hvorki lærisveinn ritstjórans eða nokkurs annars, jafnvel þó hann taki tilsögn og læri sitt af hverju. Hann er launaður starfsmaður.

Leikmenn Breiðabliks eru ekki lærisveinar heldur fullorðnir menn sem fá laun fyrir vinnu sína rétt eins og blaðamaðurinn. Og vonandi taka þeir tilsögn þjálfarans og fara að fyrirskipunum hans.

Villandi orðalag blaðamanna, ekki síst í íþróttum, er skaðlegt. Verkefni þeirra er ekki að breyta merkingu orða. Er hægt að nota orðið postuli um þann sem afgreiðir í verslun? Eða er „áhrifavaldur“ ekki bara sölumaður?

Viðtalið við þjálfara á íþróttasíðu Moggans er annars vel skrifað. Þar af leiðandi kemur á óvart þetta bögumæli að leikmaður þjálfara sé lærisveinn hans.

TillagaBreiðablik mætir Buducnost Podgorica í seinni leik liðanna á Podgorica-vellinum í Svartfjallalandi í kvöld.

5.

„Þegar loks kom í ljós að Joe Biden hefði sigrað Arizona fylki í for­seta­kosningunum í Banda­ríkjunum árið 2020 …

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Hvernig skyldi Arizona fylki hafa tekið ósigrinum gegn Trump? Eflaust er það vant að tapa fyrir frambjóðendum.

Oft er sagt að einhver hafi sigrað Íslandsmót, sigrað kosningar, sigrað hestakappreiðar. Erfitt er að trúa því. Hins vegar er ljóst að margir sigra í gönguskeiði, frumhlaupi, flani, fljótræði og það jafnvel þó keppandi sé aðeins einn.

Enginn sigrar mót. Það er ekki hægt. Oftast er sigrar einhver í mótinu.

Tillaga: Þegar loks kom í ljós að Joe Biden hafði sigrað í Arizona fylki í forsetakosningunum í Banda­ríkjunum árið 2020 …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband