Orðlof
Brjóstsyk
Þegar ég var barn var stundum keyptur brjóstsykur. Maður fékk einn mola í senn og beiðni um brjóstsyk var svarað með vangaveltum um uppruna orðsins og tilraunum til að telja strásykur og hveiti. Það þótti mér skemmtilegt.
Nú orðið tala fáir um mola heldur biður fólk um einn brjóstsyk eða marga brjóstsyka. Ekki get ég sagt að þessi meðferð á ágætu orði gleðji mig en þegar margir sameinast um vitleysuna málfarsbreytingu verður hún rétt. Við sitjum því uppi með þennan hroða þessa málnotkun, eins og hvert annað náttúrulögmál.
Ég hélt þó lengi að nefnifall eintölu væri brjóstsykur en það er engan veginn á hreinu sbr þennan tengil.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Dregið var úr honum blóðsýni
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er úr alræmdri dagbók löggunnar. Í mörgum tilvikum er dregið blóð úr fólki, oftast til að hægt sé að rannsaka það. Blóð sem þannig er tekið nefnist blóðsýni.
Ekki er hægt að taka draga blóðsýni úr manni vegna þess að blóð verður ekki að sýni fyrr en það hefur verið tekið. Enginn er með blóðsýni í sér.
Blaðamaður Moggans endurtekur það sem segir í dagbók löggunnar og skrifar hverfi 104. Báðir klikka, löggan og blaðamaðurinn. Póstnúmer eru ekki heiti hverfa. Ekkert í fréttinni er tilefni til birtingar.
Á ruv.is bergmálar blaðamaðurinn það sem segir í dagbók löggunnar að dregið hafi verið blóðsýni úr manni.Í fréttinni er talað um hverfi 200. Skelfing er þetta.
Skásta fréttin sem byggð er á dagbók löggunnar er á fréttablaðinu.is. Blaðamaðurinn velur punkta sem honum finnast fréttnæmastir og lætur svo við sitja.
Tillaga: Honum var dregið blóð
2.
Higuain gerði frábæra hluti með stórliðum í evrópskri knattspyrnu
Frétt á fréttablaðið.is.
Athugasemd: Hafi fótboltamaðurinn skorið út, smíðað, stundað leirlist eða eitthvað álíka kann að vera að út úr því hafi komið hlutir, jafnvel frábærir hlutir.
Óskiljanlegt hvaðan íþróttamenn hafa svona talsmáta. Er þeim útilokað að flytja fréttir að hætti vandaðra blaðamanna?
Tillaga: Higuain stóð sig frábærlega vel með stórliðum í evrópskri knattspyrnu
3.
Bifreið var stöðvuð í hverfi 108.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Skelfing er löggan vitlaus. Enn og aftur skrifar hún í svokallaða dagbók sína að póstnúmer séu heiti á hverfum. Ekki er blaðamaður Moggans skárri, heldur að þetta sé heilagur sannleikur.
Í fréttinni er sagt frá ölvuðum manni sem fór húsavillt. Þetta er auðvitað agalegt og því tíundað vel og vandlega. Loks er klykkt út með því að segja að löggan hafi hjálpað manninum að komast til síns heima. Ó, hvað löggan er nú góð (að eigin mati). Og engin skýrsla var gerð og vistfangaklefinn stendur tómur.
Sömu fréttir eru birtar á Vísi og fréttablaðinu.is. Á báðum fjölmiðlum höfðu blaðamennirnir vit á að sleppa póstnúmerstölunni. Þeir mátu það þó sem svo að dagbókin væri fréttaefni en þar skjátlaðist þeim.
Blaðamenn á rúv.is virðast hafa vit á því að sleppa því í þetta skipti að vitna í dæmalausa frásagnir úr dagbók löggunnar. Þeir eiga hrós skilið.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
F1 heimurinn nötrar fyrir uppljóstrun dagsins.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Skrýtið að nota forsetninguna fyrir í stað vegna.
Í fréttinni segir:
Síðasta tímabil í Formúlu 1 fer í sögubækurnar sem eitt mest spennandi, ef ekki mest spennandi tímabil í sögu mótaraðarinnar.
Ekki er mikil reisn yfir þessu. Klisjan um sögubækurnar er orðin afskaplega þreytandi. Hægt er að orða þetta á þennan hátt:
Síðasta tímabil í Formúlu 1 verður minnst sem eitt ef ekki það mest spennandi í sögu mótaraðarinnar.
Hér eru fleiri dæmi um slæm skrif:
- Að sama skapi hlaut tímabilið mjög umdeildan endi sem varð til þess
- tryggði sér heimsmeistaratitil ökumanna á síðasta hringnum í síðustu keppni tímabilsins með framúrakstri á Sir Lewis Hamilton
- segir að Formúla 1 standi nú á krossgötum sem getur haft miklar afleiðingar fyrir langtímaframtíð mótaraðarinnar.
- Aðal rökin fyrir kostnaðarþakinu voru þau að með því að setja þak á eyðslu liðanna stæðu þau á jafnari grunni sem ætti síðan að skila sér í jafnari bílum og keppnum.
Fleira mætti nefna. Nýliðar fá að skrifa að vild, enginn leiðbeinir þeim. Allt er birt og ekkert tillit tekið til lesenda. Svona blaðamennska er ekki bjóðandi og stendur varla undir nafni.
Tillaga: F1 heimurinn nötrar vegna uppljóstrun dagsins.
5.
Öll komið við sögu dómstóla.
Frétt á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu 7.10.22.
Athugasemd: Hafi einhver komið við sögu dómstóla hefur sá verið dæmdur. Kjánalegt að segja þetta ekki beinum orðum.
Tillaga: Öll hafa verið dæmd.
6.
Formaður skýrsluhópsins reif enga þögn.
Aðsend grein á blaðsíðu 13 í Fréttablaðinu 7.10.22.
Athugasemd: Óheppilegt er að rugla saman sögunum að rífa og rjúfa. Enginn rífur þögn. Algengt er að þögnin sé rofin.
Samt er undarlegt hversu lengi ég var að koma fyrir mig hvaða sögn ætti heima í þessa setningu í stað rífa.
Aftur á móti rífa margir kjaft, sumir með hávaða og látum, aðrir hæglátlega.
Tillaga: Formaður skýrsluhópsins rauf enga þögn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.