Aðili handtekinn - fáklædd mynd - haldlögðu listaverk

Orðlof

Allir saman nú

Þrátt fyrir leit hef ég hvergi séð setningu sem talin er sú stysta með öllum íslenskum bókstöfum. Í henni þurfa að vera:

aá b d ð eé f g h ií j k l m n oó p r s t uú v x yý þ æ ö = 32 stafir.

Það er ágæt þraut fyrir samkvæmi að láta búa til slíkar setningar og alls ekki auðveld. Oftast verður líklega að nota einhverja stafi oftar en einu sinni. Í samkvæmi nokkru urðu þessar tvær setningar til:

Hyldýpi þjóðfélagsins vex úr kærkomnu böli í ást. (42 stafir)

Þá heyrði Pési djöflasöng óma úr uxakví og bæ Týs. (41 stafur)

Nú er sjálfsagt að reyna sig!

Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Aðili var hand­tek­inn …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Á málinu.is sem er nauðsynlegt hjálpargagn fyrir þá sem stunda skriftir, jafnt blaðamenn sem aðra stendur:

Athuga að ofnota ekki orðið aðili. 

„Aðili“ er tvímælalaust ofnotað í löggufréttum og frásögnum af dómsmálum. Þar þykir það fínt. Í fjölmiðlum er orðið notað til að þurfa ekki að kyngreina mann, löggurnar tala líka um „geranda“.

Bæði orðin, „aðili“ og „gerandi“ eru ofnotuð, eru illa lyktandi og fráhrindandi í löggufréttum og jafnvel víðar. 

Orðið „aðili“ er sjaldnast notað um þann sem verður fyrir óhappi, slysi, árás eða þaðan af verra. Hvernig skyldi standa á því?

Tillaga: Maður var handtekinn …

2.

„Til­kynnt var um inn­brot í geymsl­ur í fjöl­býl­is­húsi í hverfi 108.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Löggan virðist óskrifandi og fáfróð. Heldur sem fyrr að póstnúmer séu heiti á hverfum. Svo er hún ekki einu sinni samkvæm sjálfri sér. Ýmist segir hún atburði gerast í póstnúmerum, óskilgreindum umdæmum lögreglunnar í hverfum sem hún nefnir eða þá í nafngreindum hverfum, stundum hvort tveggja í einu.  

Blaðamanni á fréttablaðið.is finnst fréttnæmast að löggan hafi stoppað bíl dópista með naglamottu. Annað vekur ekki athygli hans og bendir til að hann hafi fréttanef, ólíkt þeim á Mogganum.

Blaðamanni á mbl.is gerir það sem honum er sagt, hugsunarlaust. Í frétt hans segir:

  1. Til­kynnt var um inn­brot í geymsl­ur í fjöl­býl­is­húsi í hverfi 108. Búið var að stela úti­vist­ar­búnaði.
  2. Einnig var til­kynnt um rúðubrot í fjöl­býl­is­húsi …
  3. … um inn­brot í ný­bygg­ingu þar sem verk­fær­um var stolið.
  4. … um þjófnað úr versl­un í Reykja­vík.

Stuttlega frá sagt og lesendur eru engu nær og kæra sig kollótta.

Aðrir fjölmiðlar nefna ekki dagbók löggunnar, annað hvort finna blaðamenn ekkert fréttnæmt í henni eða eftir er að semja frétt byggða á henni. Gjörvallt alþýða manna bíður spennt eftir að fá að lesa um dagbók löggunnar í öllum fjölmiðlum með nánast sama orðalagi.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Segir engar raðir verða í Bláfjöllum eftir að nýjar lyftur koma.

Frétt á visir.is.

Athugasemd: Hér er aðeins vísað í útvarpsviðtal, engin er fréttin. Þarna hefði þó átt að nota viðtengingarhátt.

Tillaga: Segir engar raðir verði í Bláfjöllum eftir að nýjar lyftur koma.

4.

„Fyrirsætan setur allt á hliðina með fáklæddri mynd.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Hefur einhver séð „fáklædda mynd“? Hins vegar eru tíðum myndir í fjölmiðlum af fáklæddu fólki. Það er allt annað. Er það einhver nýlunda þó fyriræta sé fáklædd á mynd? 

Svo er það hitt, sem ekki kemur fram í fréttinni: Hvað sé þetta „allt“ sem fór „á hliðina“ vegna myndarinnar?

Tillaga: Fyrirsætan setur allt á hliðina með mynd af sér fáklæddri.

5.

„Stórt safn listaverka varð eftir í París og herma skrár nasista að þeir hafi haldlagt 80 kassa af alls kyns verkum.

Frétt á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 12.10.22.

Athugasemd: Greinin er afar fróðleg og vel skrifuð. Í fjölmiðlum er einatt sagt að löggan hafi „haldlagt“ hitt og þetta. Henni og „bjúrókrötum“ stjórnsýslunnar þykir orðið fínt enda þýðing á enska orðinu „confiscate“ sem tíðum er brúkað í löggumyndum frá enskumælandi löndum. Þess vegna skrifar löggan ekki að þjófstolnir hlutir hafi verið teknir af þjófum. Venjulegt alþýðumál er nokkuð sem er fyrir neðan virðingu hennar.

Smám saman síast svona orðalag inn og við, litlir og óstöðugir smælingjar tökum það ósjálfrátt upp. Þannig breytist málið af völdum gáfumenna í löggunni og stjórnsýslunni, kontóristanna.

„Haldlagning“ og „að haldleggja“ eru ný orð í málinu. Út af fyrir sig ágætlega mynduð en ofnotkunin er hræðilega mikil og nær alltaf í löggumáli.

Enginn haldleggur tíu króna mynt sem hann finnur á gangstétt eða koníakspela sem blasir við göngumanni á milli þúfna á heiðum uppi. Slíkt er tekið, segir alþýðumaðurinn, og allir skilja.

Ekki er heldur sagt að fingralangur hafi haldlagt Prins Póló í verslun og hlaupið út. Ekki frekar en að pörupiltur hafi séð „ökutæki“ í gangi og haldlagt hana. Nei, nei. Bara löggan „haldleggur“ sem er allt annar handleggur.

Þegar misyndismenn „haldleggja“ talar löggan ábúðafull um „nytjastuld“. Alþýða manna kallar svoleiðis þjófnað og telur tilganginn engu skipta. 

Ekki er að undra þó höfundur greinarinnar, sem vitnað er til hér að ofan, skuli hafa sagt að nasistar hafi „haldlagt“ listaverk. Í raun var þetta þjófnaður, þeir stálu þeim.

Tillaga: Stórt safn listaverka varð eftir í París og herma skrár nasista að þeir hafi stolið 80 kössum af alls kyns verkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband