Hávær köll um vopnasölu - Veitur séu að horfa til þess - ýtti konu ofan í holu

Orðlof

Stóra ógnin

Í bili virðist efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði Íslands ekki ógnað. […]Það merkir þó ekki að engar hættur steðji að fullveldi Íslands og mesta hættan felst í því að þrengt er að íslensku af ofurvaldi ensku en Íslendingar hafa verið deigir við að kenna nýjum íbúum íslensku þó að það sé mannekla á landinu eins og bent hefur verið á. 

Auðvitað tala nýir íbúar landsins ekki íslensku frá upphafi og ef ekki verður tekið á er hætt við að litlir hvatar verði til að þeir læri málið. 

Þar með er sjálfstæði Íslands auðvitað ógnað því að ef íslensk tunga og íslensk menning hverfur fækkar mjög rökunum fyrir því að þessi fámenna þjóð sé sjálfstæð. 

Hér fer því ótvírætt mesta ógn sem hefur stafað að sjálfstæði Íslands seinustu áratugi.

Sverrir Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar. Grein á vísi.is.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hann segir að í bili sé efnahagslegt og stjórnmálalegt sjálfstæði Íslands ekki ógnað, þar sem ólíkt mörgum ríkjum álfunnar ríki hér ekki …

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Fréttin er endursögn úr grein eftir formann Íslenskrar málnefndar um ógnir sem steðja að íslenskri tungu. Því er afar meinlegt að blaðamaðurinn fallbeygi ekki feitletruðu orðin, þó hlýtur hann að hafa séð að svo er gert í greininni.

Málsgreinin er of löng, Hann hefði átt að setja punkt aftan við orðið ógnað og byrja þá nýja málgrein. Tillagan er mun skárri.

Tillaga: Hann segir að í bili sé efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði Íslands ekki ógnað. Ólíkt mörgum ríkjum álfunnar ríki hér ekki …

2.

„… en hávær köll höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa.

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 20.10.22.

Athugasemd: Tilvitnunin er ekki skiljanleg. Í heild er hún svona:

Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels, lýsti því hins vegar yfir í gær að Ísraelsmenn myndu ekki hefja vopnasölu til Úkraínu, en hávær köll höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa. 

Spurning er sú hvort „köllin“ hafi verið óskir, kröfur, beiðnir eða álíka. Alls ekki er ljóst hvað átt er víð. Af orðalagin má ráða að þessi hluti sé bein þýðing úr ensku en orðið má ekki þýða beint.

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um þetta leiðinda orðalag „kalla eftir“ og nafnorðið „ákall“. Hér er lengri útgáfan:

Enginn veit hvað orðalagið „að kalla eftir“ merkir á íslensku. Allir skilja þó ef smiðurinn kallar eftir hamrinum. Má vera að þetta sé einhvers konar „jæja“, túlkunin velti á tónfalli þess sem mælir og hugsanlega samhenginu. Munurinn er hins vegar sá að hið fyrrnefnda er tóm vitleysa, komin úr ensku „to call for“ sem gæti þýtt að krefjast.

Samkvæmt enskum orðabókum er orðalagið til í fjölbreytilegum samsetningum:

    1. Desperate times call for desperate measures
    2. The report calls for an audit of endangered species
    3. I’ll call for you around seven
    4. The forecast is calling for more rain
    5. This calls for a celebration
    6. The situation calls for prompt action
    7. The opposition have called for him to resign

Ekkert af ofangreindu er hægt að þýða með því að nota orðalagið „að kalla eftir“. Hvað er átt við með eftirfarandi tilbrigðum orðalagsins „kalla eftir“? Hér eru dæmi úr vefnum:

    1. „Kalla eftir afsögn“: Krefjast.
    2. „Kalla eftir skýrslu“: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
    3. „Kalla eftir úrbótum“: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
    4. „Kalla eftir mótmælum“: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
    5. „Kalla eftir svörum“: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
    6. „Kalla eftir lægra verði“: Krefjast.
    7. „Kalla eftir upplýsingum“: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
    8. „Kalla eftir meira frumkvæði“: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
    9. „Kalla eftir umræðu“: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
    10. „Kalla eftir aðstoð“: Biðja um, óska eftir.

Kall/köll er hróp. Ekki samheiti á óskum, kröfum eða beiðnum.

Með pistlinum er ég að biðja um að fólk veiti athygli að orðalagið „kalla eftir“ er allsendis ófullnægjandi á íslensku.

Segi enskumælandi hins vegar: „I call you around seven“ merkir það ekki að hann muni þá hrópa klukkan sjö. Nei, þá hringir hann.

Til að forðast misskilning skal hér tekið fram að greinin í Mogganum er verulega áhugaverð og vel skrifuð.

Tillaga: … en háværar kröfur höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa.

3.

Múlakaffi opnar Intro á Höfðatorgi.“

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 20.10.22.

Athugasemd: Veitingahúsið heitir „Intro“. Hefur fólk heyrt annað eins? Já því miður. Fullt af dæmum eru til um álíka óvirðingu sem margir eigendur fyrirtækja sýna íslenskri tungu. Og hverjir eru viðskiptavinirnir? Þeir eru langflestir Íslendingar. Ekkert er að því að nota íslenskt heiti.

Hefði ég verið spurður um nafn á veitingahús hefði ég, eftir dálitla umhugsun, stungið upp á Beini. Gott orð, jafn mörg atkvæði og bastarðurinn „intro“. Veit lesandinn hvað beini merkir?

Tillaga: Múlakaffi opnar Saura á Höfðatorgi.

4.

„Þar kemur fram að Veitur séu að horfa til þess að tryggja höfuðborgarsvæðinu nægilegt heitt vatn til framtíðar.

Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 21.10.22.

Athugasemd: Í stað ofnotaða orðasambandsins „að Veitur séu að horfa til þess …“ er miklu betra að segja að Veitur vilji 

Tillaga: Þar kemur fram að Veitur vilji tryggja höfuðborgarsvæðinu nægilegt heitt vatn til framtíðar.

5.

„Áður en hann ýtti konunni ofan í holuna segir hún að á hann hafi sagt henni frá því að hann hafi drepið fyrrverandi eiginkonu sína.

Frétt á vísir.is. 

Athugasemd: Talsverður munur er á holu og gryfju. Holur eru á veginum um Vatnsnes og víðar. Golfarar leitast við að koma kúlu ofan í holu. 

Hola er yfirleitt lítil og grunn. Myndirnar sem fylgja fréttinni er af gryfju, djúpu jarðfalli, stórum brunni. Blaðamaðurinn þýðir sænska orðið „gruvhål“ sem hola.

Einnig er nokkur munur á orðunum að ýta og hrinda.

Tillaga: Konan fullyrðir að áður en að hann hrinti henni í gryfjuna hafi hann sagst hafa drepið fyrrverandi eiginkonu sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alfreð K

Er greinin á vef Vísis, sem vitnað er í efst, ekki eftir hinn bróðurinn, Ármann?

Alfreð K, 22.10.2022 kl. 01:21

2 Smámynd: Sigurður Sigurðarson

Greinin er eftir Ármann Jakobsson.

Sigurður Sigurðarson, 25.10.2022 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband