Ilmir prófaðir - löggan með ákveðið viðbragð - fljótandi ammóníak flæðir

Orðlof

Breiða úr sér að fjölga sér

Ýmislegt getur breiðst út, t.d. sjúkdómur, þekking eða kunnátta. Sögnin breiða úr sér er einnig til í íslensku. Í Orðastað Jóns Hilmars Jónssonar er t.d. að finna eftirfarandi dæmi: 

breiddu ekki svona úr þér, ég þarf líka að geta sest. 

Hins vegar er erfitt að ímynda sér að kanínur geti breitt úr sér og því er svolítið spaugilegt að skrifa (eða segja): 

Hvers vegna er það vandamál ef þær [kanínur] breiða úr sér um allt land (Frbl. 5.10.05). 

Það er hins vegar alkunna að kanínum getur fjölgað mjög.

Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þegar ilmir eru prófaðir getur …

Frétt á blaðsíðu 8 í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 14.12.22.

Athugasemd: Nafnorðið ilmur var eintöluorð. Kaupahéðnar hafa búið til fleirtöluorð og auglýsa grimmt „ilmir“.  Prófið að gúggla „ilmir“. Allt sem þar birtist er frá fyrirtækjum.

Lykt er til í eintölu og fleirtölu. Greinarhöfundur myndi aldrei segja:

Þegar lykt er prófuð getur …

Lyktarprófun er áreiðanlega óvinsæl atvinnugrein sé hún á annað borð til.

Ilmur er góður. Lykt er daunn, fýla, óþefur, til dæmis táfýla, andfýla, brennisteinsfnykur. Samt er sagt; góð ilmvatnslykt, blómalykt, matarlykt og jafnvel vindlalykt. 

Þefur er eintöluorð, ekki til í fleirtölu. Hann er á næstu hillu fyrir neðan lykt. Tröllskessan sem fann mannaþef í helli sínum var ekki kát með fnykinn.

Angan er eintöluorð og telst unaðslegur ilmur, ilman. Mörgum hillum fyrir ofan ilmur.

Allt sem nefið greinir heitir nú á alþýðumáli lykt, góð eða slæm. Allt annað virðist vera að hverfa úr daglegu máli nema þegar sölumenn hrópa. Þeir tala óhikað um marga „ilma“ en af fleirtölunni þeirra er skítfýla, að minnsta kosti í óeiginlegri merkingu. Fleirtalan kann engu að síður að vera orðin föst í málinu.

Svo er það hitt. Hvernig er ilmur „prófaður“? Jú, þá er þefað af honum. Hvað annað? En það er ekki nógu fínt. Enginn vill þefa af lykt? Ojj …

Hvað með vín? Er ekki vinsælt að kaupa dýra rauðvínsflösku á veitingahúsi? Þjónninn hellir nokkrum dropum í belgvítt kristalsglas og þá biður maður um korkinn … þefar (hvað annað) vandlega af honum, leyndardómsfullur á svip, tekur svo upp glasið, veltir því um stund svo anganin af víninu streymi upp, og svo … þefar maður (hvað annað). Muldra svo eitthvað fyrir sér og segja síðan svo ósköp gáfulega: 

Hm ... meðalfylling, ósætt, fersk sýra, þurrkandi tannín, og gleymum ekki bláberjunum, plómunni og allt fékk að taka sig í fornri eikartunnu. Já, ég held það bara. Aldeilis afbragð.

Og viðstaddir taka andköf af undrun og aðdáun. Með svona leikrænum tilburðum vex maður að áliti og vinsældum. Það held ég nú, hmm ...

Tillaga: Þegar hnusað er af ilmi …

2.

„Ríkislögreglustjóri er með ákveðið viðbragð í kjölfar þess að tveir karlmenn voru látnir lausir úr haldi vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka.

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Viðbragð merkir ekki viðbúnaður. Samkvæmt orðabókinni merkir viðbragð snöggur kippur, til dæmis tekur sá viðbragð sem fær rafstraum í sig eða brennir sig og svo framvegis. Viðbragð er ávallt hreyfing sem líður hjá.

Löggan getur brugðist við en sé það viðbragð er það ekki endalaust, ekki frekar en hjá þeim sem brennir sig. Kippur hættir yfirleitt jafn snögglega og hann byrjar.

Viðbúnaður er allt annars eðlis. Hann getur merkt ráðagerð, aðgát, skipulag, áætlun og álíka. 

Ef til vill er ofmælt að löggan sé óskrifandi en hún þarfnast hjálpar, ræður varla við íslenskt mál.

Svo er það hitt. Finnst blaðamanni ekki skrýtið að nota orðið viðbragð í þessu sambandi?

Tillaga: Ríkislögreglustjóri er með ákveðinn viðbúnað eftir að tveir karlmenn voru látnir lausir úr haldi vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka.

3.

„Borgin lækkar hámarkshraða á rúmlega 150 götum.

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Hvernig hámarkshraði sé lækkaður? Kemur löggan þar að málum? Það væri nú óskandi.

Í fréttinni eru taldar upp götur sem lækkunin nær til - eftir hverfum. Byrjað er á Kjalarnesi, þá Grafarholti og Úlfarsárdal, Árbæ, Háaleitis- og Bústaðahverfi og svo framvegis.

Löggan þyrfti að lesa þetta um göturnar og hverfin. Í svokallaðri „dagbók lögreglunnar“ og birtist daglega í fjölmiðlum er iðulega talað um hverfi 112, 108, 104, 105 svo dæmi séu tekin. Þetta eru póstnúmer, ekki heiti á hverfum. Getur nokkur maður villst á þessu tvennu?

Stofnun sem á að halda uppi lögum og reglum í landinu heldur að póstnúmer séu heiti á hverfum, sjá til dæmis á fréttablaðið.is. Ekki er það nú traustvekjandi.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

Fljótandi ammoníak flæðir frá geimfari við Alþjóðageimstöðina.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Þarna hefði verið nóg að segja að ammoníak flæði frá geimfarinu. Það sem ekki er fljótandi getur ekki flætt. Lesandinn myndi samstundis skilja að það sé fljótandi, ekki frosið eða í loftkenndu ástandi. Hefði blaðamaðurinn orðað þetta á sama hátt hefði vatn flætt?

Í fréttinni segir:

Rússneskt geimfar tengt Alþjóðlegu geimstöðinni lekur kælivökva …

Betur fer á því að segja kælivökvi leki úr geimfarinu. Þetta er eins og að segja að verslun opni en það getur hún ekki. Mannshöndin hlýtur að stjórna því. Dauð tæki, vélar eða hús gera ekki neitt, það er grundvallaratriði. 

Jú, mótmælir einhver. Sjálfvirk tæki gera margt. Nei, sjálfvirk tæki eru forrituð af mönnum, þau eru dauðir hlutir.

Tillaga: Ammoníak flæðir frá geimfari við Alþjóðageimstöðina

5.

„… og valda henni alvarlegum líkamlegum skaða viðurkenndi hún ekki það sem hann kallar lygavef Demókrata.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Hér er átt við að konan verði pyntuð sem er einfalt og vel skiljanlegt orð.

Í Málfarsbankanum segir Jón G. Friðjónsson:

Sögnin pynta/pynda, þf., er tökuorð úr fornensku pyndan ’loka inni’. Í nútímamáli mun myndin pynta [pynta-pyntaði-pyntað] vera algengust, t.d.: 

Öldungadeildin áréttar bann við að pynta stríðsfanga (Mbl 7.10.05).

Myndin pynda [pynda-pyndaði-pyndað] er einhöfð í fornu máli og henni bregður einnig fyrir í nútímamáli, einnig nafnorðinu pyndingar, t.d.: 

Þeir eigi á hættu að sæta pyndingum (Blaðið 5.11.05);
Með verktaka í pyndingum (Blaðið 5.11.05). 

Báðar myndirnar pynta og pynda eru því í samræmi við málvenju.

Tillaga: … og pynta hana viðurkenndi hún ekki það sem hann kallar lygavef Demókrata.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband