Ganga burt frá borðinu - aðalfundur Festi - um er að ræða

Orðlof

Staðaldur

Orðið staðaldur merkir ’varanleiki’. Það er talið samsett úr lýsingarorðinu staður ’kyrrstæður, þrár’ og nafnorðinu aldur í merkingunni ’tími’. 

Samsetta orðið er nær eingöngu notað í föstum orðasamböndum, einkum sambandinu að staðaldri, en einnig er til orðasambandið til staðaldurs sem merkir ’til frambúðar’. Aðrar orðmyndir eru kunnar úr ritmáli en eru mjög sjaldgæfar.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Í gær tilkynntu læknar Sizemore fjölskyldu hans að hann væri ekki að fara að vakna aftur úr dái og mældu með því að slökkt yrði á vélunum sem halda honum á lífi.

Frétt á vísi.is.

Athugasemd: Þetta er hræðilega illa skrifað. „Læknar mældu með því“ Munur er á því að mæla, það er tala, og mæla til dæmis vegalengd. Heimildin er breski vefmiðillinn Guardian. Þar stendur:

Today doctors informed his family that there is no further hope and have recommended end of life decision.

Þetta þýðir að læknar hafi sagt að staðan væri vonlaus og mæltu með lífslokameðferð.

Í fréttinni er talað um maka mannsins en vefmiðillinn nefnir kærustu („girlfriend“).

Í fréttinni er talað um heilablóðfall sem þýðingu á „brain aneurysm“. Þetta þýðir æðagúlpur í heila en það segir hinum almenna lesanda ekkert nema læknisfræðileg skýring fylgi.

Tillaga: Í gær tilkynntu læknar Sizemore fjölskyldu hans að hann myndi ekki vakna aftur úr dái og mæltu með því að slökkt yrði á vélunum sem halda honum á lífi.

2.

„… hefur hótað Glazer fjölskyldunni að ef hann fær ekki að kaupa allt félagið þá gangi hann burt frá borðinu.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Fréttin er varla skiljanleg svo illa er hún skrifuð. Blaðamaðurinn er greinilega óvanur skrifum og enginn hjálpar honum eða leiðbeinir.

Í fréttinni segir:

Glazer fjölskyldan er nefnilega byrjuð að skoða það að selja aðeins minnihluta í félaginu frekar en allt félagið.

Atviksorðið „nefnilega“ gegnir þarna engu hlutverki, hjálpar lesandanum ekkert til skilnings. 

Orðalagið „er byrjuð að skoða“ er barnalega orðað. Flestir myndu nota sögnina að íhuga í staðinn.

Þar af leiðandi væri eftirfarandi skárra:

Glazer fjölskyldan íhugar að selja aðeins minnihlutann í félaginu.

Mikilvægt er að blaðamaðurinn fá góða tilsögn í fréttaskrifum. Hann virðist ekki hafa fengið neina.

Tillaga: … hefur hótað Glacer fjölskyldunni að hann hætti við fái hann ekki að kaupa meirihlutann í félaginu.“

3.

Aðalfundur Festi hf. 2023.“

Auglýsing á blaðsíðu 5 í Morgunbaðinu 1.3.23

Athugasemd: Festi getur merkt stöðugleiki, staðfesta, einnig keðja, lína og fleira. Það er til í samsetningum eins og hálsfesti og landfesti.

Kvenkynsnafnorðið festi og örnefnið Festi beygist eins:

festi
festi
festi
festar

Í auglýsingunni segir:

Stjórn Festi hf. boðar til aðalfundar sem …

Neðst í auglýsingunni stendur staður og dagsetning og undir því „Stjórn Festi hf.“ Í bæði skiptin á að beygja nafn fyrirtækisins og nota eignarfallið Festar.

Skammt austan við Grindavík er Festarfjall. Samkvæmt landakorti er í því klettabelti sem nefnist Festi. Þar er bratt ofan í fjöru. Fyrir mörgum árum var kaðall frá bjargbrún og niður í fjöru og gat maður þar handstyrkt sig eftir honum upp og niður.

Stundum ber á því að nöfn fyrirtækja eru ekki fallbeygð. Fólk kaupir í „Hagkaup“ en ætti að vera í Hagkaupi eða Hagkaupum eftir því hvort nafnið eigi að vera í eintölu eða fleirtölu. Heyrst hefur: Ég fór í „Krónan“, „Kringlan“ og svo framvegis.

Tillaga: Aðalfundur Festar hf. 2023

4.

„Neyt­enda­stofa hef­ur úr­sk­urðað að Sam­kaup braut lög vegna …

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Samkaup braut lög en stofnunin úrskurðaði að fyrirtækið hafi brotið lög. Hjálparsögnin þarf að fylgja.

Tillaga: Neyt­enda­stofa hef­ur úr­sk­urðað að Sam­kaup hafi brotið lög vegna …

5.

„… var sömuleiðis frestað í kjölfar þess að ríkissáttasemjari kynnti nýja miðlunartillögu í kjaradeilunni í gærmorgun.

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 2.3.23.

Athugasemd: Þarna segir að aðgerðum hafi verið frestað og á eftir kemur „í kjölfar þess“ sem er ofnotað og skelfilega tilgerðalegt orðalag. 

Aðgerðum var frestað þegar ríkissáttasemjari kynnti nýja miðlunartillögu. Hér má líka nota af því að, því, eftir að og fleira.

Ábendingafornafnið þess er hræðilega ofnotað og í mörgum tilvikum má sleppa því. Dæmi um ofnotkunina eru mörg: „í kjölfar þess“, „mikilvægi þess“ …

Tillaga: … var sömuleiðis frestað þegar ríkissáttasemjari kynnti nýja miðlunartillögu í kjaradeilunni í gærmorgun.

6.

Um er að ræða 35.000 fermetra af húsnæði sem …“

Auglýsing á blaðsíðu 45 í Morgunblaðinu 2.2.23

Athugasemd: Orðalagið „um er að ræða“ er óskaplega vinsælt hjá blaðamönnum, því er það ofnotað og botnfrosið. 

Í auglýsingunni liggur allt ljóst fyrir lesandanum en skrifarinn virðist ekki viss og til að hnykkja á því segir hann „um er að ræða“. Tillagan er margfalt skárri.

Tillaga: Húsið er 35.000 fermetrar sem …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband