Biðla til stillingar - hvernig fékk liðið ekki víti - magn af skriðdrekum

Orðlof

Senda á einhvern

Enska sækir stöðugt á, oftast með svo áberandi hætti að ágengnin blasir við öllum en stundum nánast smeygir hún sér inn í tunguna. Dæmi af síðarnefnda toganum er að nú hika menn ekki við að senda skeyti eða póst á einhvern, t.d.: 

Við sendum bréf á hundrað stærstu fyrirtækin í landinu.

Hótunarbréf send á einn af meintum gerendum.

Hér gætir augljóslega áhrifa frá ensku (mail on) en fram til þessa höfum við sent eða skrifað einhverjum bréf eða sent skeyti til tiltekins lands. Umsjónarmaður kann þessu illa.

Rétt er að geta þess að sagnarsambandið senda e-ð á e-n er kunnugt í öðru samhengi. Í máli íþróttamanna (boltamanna) mun vera algengt að tala um að senda eða gefa boltann á einhvern (’senda boltann til einhvers’). Þar er merkingin önnur auk þess sem um ’sérmál’ (íþróttamál) er að ræða.

Íslenskt mál – þættir Jóns G. Friðjónssonar, 118 þáttur. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hann hafi aldrei upplifað aðra eins hatursorðræðu og nú og biðlar til stillingar.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Hvað merkir orðalagið „biðla til stillingar“? Þetta er ótrúlega skrýtið og þekkist ekki. Hverja er verið að „biðla til“? 

Í fréttinni segir:

Hann hafi meðal annars fengið símtöl heim til sín með „hálfgerðum hótunum“.

Orðalagið er enskt. Áherslan lögð á að fá símtöl. Flestir hefðu orða þetta svona:

Meðal annars hafi verið hringt heim til hans með „hálfgerðum hótunum“.

Varla er erfitt að skrifa alþýðlegt mál.

Tillaga: Hann hafi aldrei upplifað aðra eins hatursorðræðu og nú og biður fólk að gæta stillingar.

2.

„En menn þorðu ekki að rífa í gikkinn þá og ætluðu ekki að rífa í gikkinn núna.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Ef þetta er orðtak hlýtur það að vera nýtt. Hljómar vel en skilst því miður ekki, hvorki eitt og sér né í samhengi fréttarinnar. Af þessu má draga þá ályktun að þetta sé einhver útlenska sem reynt er að snúa yfir á íslensku. Einkenni orðtaks er að það skilst eitt og sér án samhengis.

Blaðamaðurinn skilur þetta eflaust en áttar sig ekki á nástöðunni sem þó blasir við öllum. Fréttin byggist á ummælum viðmælanda blaðamannsins sem lætur móðan mása en ekki er reynt að færa orðalag hans til betri vegar. Góður einkaritari er ekki endilega góður blaðamaður.

TillagaEngin tillaga.

3.

Það var íbúi sem rakst á kúl­una og gerði hann yf­ir­völd­um viðvart.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Lesandinn rekur upp stór augu þegar hann les þessa málsgrein. Heimildin er vefur BBC. Þar stendur:

It had been found by a local who alerted police after noticing the unusual object on the shore.

Orðið íbúi á ekki við hér þó í fréttinni sé talað um borg í Japan. Nær er að að nota heimamaður.

Tillaga: Heimamaður fann kúl­una og gerði yf­ir­völd­um viðvart.

4.

„Lögðum náttúrlega mikinn metnað í þessa þætti.

Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 23.2.23.

Athugasemd: Orðið „náttúrulega“ er undarlegt í samhenginu. Verið gæti að það merki auðvitað, að sjálfsögðu eða eitthvað álíka. Hins vegar stendur málsgreinin, sem er fyrirsögn, alveg ágætlega án þess, sjá tillöguna.

Óvanur blaðamaður skrifar allt sem hrekkur upp úr viðmælandanum en það er hvorugum til vegsauka. Hvorki yfirmenn né samstarfmenn virðast leiðbeina nýliðanum.

Í talmáli koma iðulega fyrir hikorð eða aukaorð sem hafa litla eða enga þýðingu. Nefna má orð eins og sko, bara, þannig, tja, úbbs og náttúrulega, svo nokkur séu nefnd.

Vanur blaðamaður sleppir svona orðum úr frétt sinni enda eiga þau oftast ekkert erindi þangað.

Tillaga: Lögðum mikinn metnað í þessa þætti.

5.

Hvernig fékk City ekki vítaspyrnu í gær?

Frétt á dv.is.

Athugasemd: Þetta sést og heyrist of í fjölmiðlum en gengur alls ekki upp. Virðist vera einhvers konar barnamál.

Tillaga: Hvers vegna fékk City ekki vítaspyrnu í gær?

6.

„Hlébarðarnir eru framleiddir í Þýskalandi og Úkraínumenn eiga von á umtalsverðu magni af þeim á komandi vikum og mánuðum.

Frétt á vísi.is 

Athugasemd: Réttar er að tala um fjölda bíla, hjóla, strætisvagna og jafnvel skriðdreka en um þá fjallar fréttin.

Enginn segir að mikið „magn“ bíla sé á götunum. Ekki er mikið „magn“ húsa í við götuna. 

Á málinu.is segir:

Orðið magn er oft óþarft. Mikið magn af bensíni merkir það sama og mikið af bensíni.

Þetta er góð regla.

Tillaga: Hlébarðarnir eru framleiddir í Þýskalandi og Úkraínumenn eiga von á fjölda þeirra á komandi vikum og mánuðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband