Rúta innihélt barnafjölskyldur - sigra stríðið - 800 milljónir

Orðlof

Komma

Komma er notuð þegar setningar koma hver á eftir annarri í sömu málsgrein án þess að þær séu tengdar með samtengingu. 

Setningar eru því annaðhvort aðgreindar með kommum eða tengdar með samtengingum.  

Sumir fengu ís ,  aðrir vildu frekar köku.

Sumir fengu ís en aðrir vildu frekar köku.

Rúna vann fyrstu skákina ,  gerði tvö jafntefli en tapaði fjórðu skákinni.

Rúna vann fyrstu skákina og gerði tvö jafntefli en tapaði fjórðu skákinni.

Mér leiddist inni ,  gat ekki fest hugann við neitt ,  fór út og gekk dálitla stund.

Íslensk réttritun eftir Jóhannes B. Sigtryggsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Réðust á rútu sem innihélt barnafjölskyldur.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Í sjálfu sér er þetta ekki rangt en telst einstaklega kjánalegt orðalag og bendir til að blaðamaðurinn sé ekki vanur skrifum. Varla þarf að útskýra þetta nánar. 

Tillaga: Réðust á rútu sem í voru barnafjölskyldur.

2.

Liðið spilaði áferðafallegan og sókndjarfan fótbolta en það dugði ekki til sigurs.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Hvernig getur það gerst að svo fallega rituð málsgrein sé í fjölmiðlinum DV sem síst af öllu er þekktur fyrir vandað málfar. Ofangreind málsgrein glitrar sem perla í xxx. Meira að segja öll fréttin er vel skrifuð.

Ekki þekki ég blaðamanninn, hvorki persónulega né af afspurn. Myndi ráðleggja ritstjóra DV að fá hann til að kenna öðrum blaðamönnun að skrifa á góðri íslensku og vanda stílinn.

Öðrum fjölmiðlum ráðlegg ég að reyna að bera víurnar í blaðamanninn. Hann væri alls staðar happafengur. Tek það fram að þessi umsögn er ekki og á ekki að vera oflof.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„… en vildi ekki svara því hver hann vildi að sigri stríðið né …

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Útilokað er að „sigra stríð“ vegna þess að stríð er ástand en ekki þátttakandi. Þar af leiðir að hægt er að sigra í stríði og í keppni.

Fréttin er ekki vel skrifuð. Í henni stendur til dæmis:

Rússar og Úkraínumenn eru að deyja. Ég vil að þeir hætti því og því get ég bjargað á sólarhring.

Seinni málsgreinin er óskiljanleg en höfð eftir fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og blaðamaðurinn hefði átt að benda á hversu órökrétt tal hans er.

Í fréttinni stendur:

Hann sagði að ef Demókratar samþykki ekki stórfelldan niðurskurð á fjárhagsáætlun þyrftu Repúblíkanar að knýja fram vanskil

Hvað merkir að „knýja fram vanskil“? Þeir sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum vita að átt er við skuldaþak bandarískra fjárlaga, sé hámarkið ekki hækkað leiðir það til vanskila ríkissjóðs. Óljóst er hins vegar hvort blaðamaðurinn viti það því hann gerir ekki neina tilraun til að skýra orðalagið út fyrir lesendum sem margir vita ekki.

Tillaga: … en vildi ekki svara því hver hann vildi að sigri í stríðinu né …

4.

„Sagði stofnunin að fyrirhugaður brottflutningur myndi skilja eftir sig stórt og hættulegt skarð fyrir starfsemi versins.

Frétt á blaðsíðu 42 í Morgunblaðinu 11.5.23.

Athugasemd: Orðalagið er óskiljanlegt. Blaðamaðurinn hefði átt að skýra þetta nánar. 

Í fréttinni stendur:

… og sagði hann að Rússar væru hryggir yfir andláti Soldins, en að það þyrfti að rannsaka betur hvernig andlátið hefði borið að höndum. 

Orðið andlát er þarna í nástöðu sem auðvelt er að komast hjá.

Maðurinn  á vígstöðvunum í Úkraínu, féll. Betur hefði farið á því að tala um dauða hans frekar en andlát.

Að öðru leyti er greinin vel skrifuð og afar fróðleg eins og blaðamanninum er von og vísa.

Tillaga: Engin tillaga

5.

800 milljónum af fjárlögum íslenska ríkisins árið 2023 er …

Aðsend grein á blaðsíðu 45 í Morgunblaðinu 11.5.23. 

Athugasemd: Greinarhöfundur byrjar grein sína á tölustaf sem er furðulegt. Ekki á að setja tölustaf í upphafi málsgreinar. Aldrei. 

Sá sem  skilur ekki regluna ætti að gúgla hana eða spjalla við íslenskukennara.

Tillaga: Átta hundruð milljónum af fjárlögum íslenska ríkisins árið 2023 er …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband