Úr stjórn stíga - útsýni til Hvalfjörðs og Skarðsheiðina - Frakkland bauð afhroð

Orðlof

Eykt

Orðið eykt merkir meðal annars: þrjár klukkustundir. 

Í sólarhringnum eru því átta eyktir. Skil milli þessara átta eykta kallast eyktamörk. 

Þau eru: 

ótta (kl. 3)
miður morgunn (kl. 6)
dagmál (kl. 9)
hádegi (kl. 12)
nón (kl. 15)
miðaftann (kl. 18)
náttmál (kl. 21)
miðnætti (kl. 24)

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Úr stjórn fé­lags­ins stíga

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Þegar einhver hættir í stjórn félags er venjulega sagt að hann gangi úr stjórn eða beinlínis að hann hætti.

Stjórn félags er hvorki farartæki né hús og því er ekki rétt að segja að maður „stígi úr stjórninni“ í þeirri merkingu að hann hætti. 

Hefur einhver heyrt dæmi um að maður „stígi inn í“ stjórn félags“, það er taki þar sæti? 

Tillaga: Úr stjórn fé­lags­ins ganga

2.

Tekur einhverja daga í vinnslu.“

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 12.5.23.

Athugasemd: Margir tala um „einhverja daga“. Aðrir myndu frekar orða þetta eins og segir í tillögunni. 

Ljóðabók Einars Más Guðmundssonar heitir „Er nokkur í Kórónafötum hér inni?“ 

Eru einhverjir á móti tillögunni? spyr fundarstjórinn. Nokkrir réttu upp hönd.

Á veður.is segir:

Voraðstæður og almennt lítill snjór á svæðinu en þó einhver snjór efst í fjöllum sem …

„Einhver snjór“ er flatt og ómarkvisst, jafnvel rangt, enda segir orðalagið ekkert. Höfundurinn hefði átt að segja að þarna sé dálítill snjór eða nota önnur lýsingarorð.

Furðuleg notkun á fornöfnunum einhver og nokkur er hægt að finna víða á vefnum. Á auðlindin.is segir:

Okkur finnst að við eigum ekki að þurfa að kljást við stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi um einhver nokkur tonn sem munar þá engu.

Þarna er orðinu einhver ofaukið. Engu að síður er svona orðalag víða á netinu. Svona hef ég aldrei séð áður.

Tillaga: Tekur nokkra daga í vinnslu. 

3.

„Útsýnið er virkilega fallegt og næst til Snæfellsjökuls, Hvalfjörðs, Akrafjalls og Skarðsheiðina.

Fasteignaauglýsing á mbl.is.

Athugasemd: Hér er illa skrifað og fullt af villum. „Útsýnið næst til“ er ókunnuglegt. „Nær það til“ þessara fjalla? 

Ekki er flókið að beygja örnefnið Hvalfjörður, eignarfallið er Hvalfjarðar. Villan er eiginlega ófyrirgefnleg.

Yfirleitt er ekki ákveðinn greinir hafður með örnefnum. Betur fer á því að tala um Skarðsheiði, ekki „Skarðsheiðina“.

Textahöfundur hefur örnefnin í eignarfalli, þó ekki Skarðsheiði. Hann fullyrðir að útsýni sé „til Skarðsheiðina“. Örnefnið Skarðsheiði beygist eins í öllum föllum nema í eignarfalli; Skarðsheiðar.

Skelfing er það nú flatt að segja að frá húsi við Hvalfjörð sé útsýni yfir hann.

Snæfellsjökull sést lengst í fjarska og varla að taki því að nefna hann.

Tillaga: Útsýnið er virkilega fallegt. Frá húsinu sést vítt yfir nágrenni Hvalfjarðar, allt frá Akrafjalli í vestri og að Þyrli í austri. Á björtum degi sést Snæfellsjökull.

4.

Í sprækri sparkelli.“

Frétt á blaðsíðu 20 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 14.5.23.

Athugasemd: Margt er ungs manns gaman. Einn snjallasti og orðfimasti blaðamaður Moggans leikur sér hér með tungumálið og býr til nýyrðið sparkelli. 

Orðið á ekki við um kellingu (kelli) sem sparar, spar-kelli. Það á við fótboltamann sem er orðinn „aldraður“ og þjáist af spark-elli. 

Merkilegast við umfjöllunina er að ellismellirnir eru allir undir fertugu og því varla ellimóðir en gætu verið komnir að fótum fram í sparkinu.

Árið 961 er allir voru að heyverkum í Tungu í Saurbæ í Dölum nema Hólmgöngu-Bersi sem lá veikur heima, samkvæmt því sem segir í Laxdælu. Með honum var veturgamall drengur í vöggu, Halldór Ólafssonar páa, fóstursonur Bersa, bróðir Kjartans Ólafssonar, söguhetjunnar í Laxdælu. Svo óheppilega vildi þá til að vagga Halldórs veltur og hann lendir á gólfinu. Gat Bersi ekki komist til hans. Orti hann þá:

Liggjum báðir í lamasessi
Halldórr ok ek
höfum engi þrek
veldur elli mér
en æska þér
þess batnar þér
en þeygi mér.

Þetta er ein svo óskaplega mörgum fögrum vísum sem eru í íslenskum fornbókmenntum. Halldór nær sér af æsku sinni en Bersi ekki af elli.

Eftir sparkelli fótboltamanns líður væntanlega langur tími þar til Elli kerling birtist.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Frakkland bauð afhroð.

Frétt á dv.is.

Athugasemd: Þetta er rangt. Afhroð getur merkt ósigur, tjón, tap eða skaði. Enginn býður afhroð, ekki frekar en að á boðstólum séu ólán af ýmsu tagi. Hins vegar er hægt að bíða afhroð eða gjalda afhroð.

Fréttin fjallar um Eurovision og lélegt gengi franska lagsins, það beið afhroð. 

Merkilegt er að síðar í fréttinni segir „… beið enn og aftur afhroð.“ Þá er farið rétt með. Þetta gæti bent til þess að blaðamaðurinn hafi ekki skrifað í fyrirsögn „bauð afhroð“ heldur einhver annar; hönnuður blaðsins eða ritstjóri. Í sjálfu sér skiptir engu hver ber ábyrgð, fréttin er skemmd rétt eins og þegar salmonella finnst í matvælum.

Á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran prófessor:

Orðasambandið að gjalda afhroð ’verða fyrir miklu tjóni’ var vel þekkt í fornu máli. Fræðimaðurinn A.M. Sturtevant taldi upprunalega mynd orðtaksins gjalda afráð, sem einnig er þekkt í fornu máli, og eru þeir Ásgeir því sammála um það. Halldór Halldórsson (1968:4) segir afráð merkja 'afgjald’ og að frummerking orðtaksins hafi verið ’greiða afgjald’.

Afhroð er einnig notað með sögnunum gera og bíða. 

Elst dæmi um að bíða afhroð í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er frá 1941:

hlaut bleikjustofninn að bíða ógurlegt afhroð við slíka rányrkju.

Dæmi um gera afhroð er:

Hitt er víst, að Plágan gerði mikið afhroð í mannfalli.

Hér er merkingin ’valda tjóni’.

Óvanir blaðamenn freistast til að nota orðasambönd, málshætti og orðtök sem þeir skilja ekki til fullnustu en láta slag standa og birta. Afleiðingin verður oft tómt bull rétt eins og hér. Enginn flettir upp í orðabók og er þó málið.is afar handhægt verkfæri. Skemmd frétt bitnar eingöngu á lesendum.

Tillaga: Frakkland beið afhroð.

6.

„Hvað ef það er afi sem bjáni?

Frétt á dv.is.

Athugasemd: Í setninguna vantar sögnina að vera. Mistök geta hent en að láta þau standa fram eftir öllum degi bendir til annars af tvennu: Blaðamenn og þar með talinn ritstjóri lesa ekki eigin fjölmiðil eða að þeir bera ekki skynbragð á eðlilegt mál. Hvort tveggja er afar slæmt.

Heimildin er frétt á TV2 í Danmörku, þar stendur:

Hvad nu, hvis det er bedstefar, der er et røvhul?

Danskan skilst en ekki íslenskan.

Tillaga: Er það afi sem er bjáni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband