Kvika hefur spúst upp - manns forréttindi - ítrekað ferli kviku
21.12.2023 | 18:51
Orðlof
Forsetningar
Kerfi forsetninga í íslensku er um margt afar nákvæmt. Þar er t.d. ekki aðeins gerður munur á stefnu hreyfingar (hvert — hvaðan) heldur skiptir einnig máli hvort það sem hreyfist var undir einhverju, á einhverju eða í einhverju.
Þessi munur kemur m.a. fram í forsetningapörum (undir — undan; á — af; í — úr) og hann er okkur í blóð borinn. Af þessu leiðir m.a. að mikill munur er á forsetningunum af og undan þótt þær vísi báðar til hreyfingar. Það kemur því á óvart að sjá og heyra þeim ruglað saman, t.d.:
Dekkjum stolið af bíl hreyfihamlaðs manns
Kjölurinn rifnaði af [skútunni] í látunum [í óveðrinu]).
Ætla mætti af fyrra dæminu að dekkin hefðu verið á palli vörubíls en svo var ekki, þau voru undir bílnum og því var þeim stolið undan honum. Umsjónarmanni finnst einnig órökrétt að tala um kjöl á (‘undir’) skútu.
Íslenskt mál – þættir Jóns G. Friðjónssonar, 121. þáttur.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
„Mjög ósátt við samgöngur í Eyjum.“
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Eitt að vera ósáttur við samgöngur til Eyja og annað að vera ósáttur með samgöngur. Blaðamaðurinn áttar sig því miður ekki á þessu.
Í fréttinni segir:
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir Eyjamenn mjög ósátta við samgöngur sínar þessa dagana.
Hér bregst blaðamaðurinn. Skárra hefði verið að orða þetta svona:
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir Eyjamenn nú mjög ósátta með samgöngur til Eyja.
Varla eru Eyjamenn ósáttir við „samgöngur sínar“ og þaðan af síður við „samgöngur annarra“.
Tillaga: Mjög ósátt með samgöngur til Eyja.
2.
„Fyrir dómi sagði árásarmaðurinn að honum hafi staðið ógn af brotaþolanum.“
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Fréttin er klúðursleg og víða illa orðuð. Blaðamaðurinn sækir orðalagið í dómskjöl sem eru, eins og flestir vita, uppfull af lögfræðilegum orðum og orðalagi sem enginn notar dags daglega. Blaðamaðurinn ber óskaplega virðingu fyrir þessu og vogar sér ekki að bregða út af því sem þar stendur.
Furðulegt er að orða það á þá leið að árásarmanni hafi staðið ógn af brotaþola. Svona er aldrei sagt. Tillagan er skárri.
Í fréttinni er sagt að árásarmaður hafi „framið árás“. Þetta er svo vitlaust og bjánalegt að engu tali tekur.
Árásarmaðurinn réðst á annan mann..
Í fréttinni segir:
... og langlíklegast að brotaþolanum myndi hljótast bani af.
Þetta er furðulegt. Eðlilegra orðalag er að segja myndi hljóta bana af.
Tillaga: Fyrir dómi sagðist árásamaðurinn hafa hræðst þann sem hann stakk.
3.
„… en hann var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar gegn 14 ára stúlku og …“
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Maðurinn var ákærður fyrir að reyna að nauðga stúlku. Orðalagið „tilraun til nauðgunar gegn stúlku“ er afspyrnu vont.
Tillaga: … en hann var ákærður fyrir að reyna að nauðga 14 ára stúlku og ….
4.
„Kvikan sem spúst hefur upp á yfirborðið í eldgosinu við Sundhnúkagíga …“
Frétt á á blaðsíðu 1 í Morgunblaðinu 21.12.23.
Athugasemd: Máltilfinningin segir manni að sögnin að spúa eigi þarna að vera spúist.
Hvert ætti kvikan að spúast annað en upp? Hvaða „yfirborð“ er verið að tala um? Kvikan spýst upp úr gígnum. Yfirleitt er sagt að kvika komi upp úr gíg. Þar með er hún komin upp úr jörðinni og óþarft að nefna yfirborð jarðar.
Einfalt orðalag er alltaf best. Óþarfi að vera með leikrænar lýsingar, stundum ráða blaðamenn ekki við þær í flýtinum sem sagt er að einkenni starf þeirra.
Tillaga: Kvika sem komið hefur upp í eldgosinu við Sundhnúkagíga …
5.
„Maður fær óbragð í munninn hvað manns forréttindi eru mikil.“
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Umsjónarmaður minnist þess ekki að hafa séð svona orðalag áður. Hins vegar má segja að forréttindi hans séu mikil, forréttindi okkar og svo framvegis.
Líklega á viðmælandinn við að forréttindi hennar, samstarfsfólks hennar eða þeirra sem búa við betri aðstæður en þeir sem hún segir frá.
Tillaga: Maður fær óbragð í munninn hvað forréttindi okkar eru mikil.
6.
„… og ég er ansi hrædd um að við séum að horfa upp á svona ítrekað ferli þar sem safnast fyrir kvika í Svartsengi og svo verða kvikuhlaup.“
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaður á að færa orðalag til betri vegar, sé þörf á því, jafnvel þó það sé í beinni ræðu. Tillagan er hnitmiðaðri og betri.
Til lengdar er orðalagið „að sjá“ eða „horfa upp á“ frekar leiðinlegt til lengdar. Það er þó afar mikið notað af sérfræðingum af ýmsu tagi, jarðfræðingum, veðurfræðingum og fleirum. Þó er gott að vita að þeir hafi fulla sjón.
Tillaga: … og ég er ansi hrædd um að ferlið sé að byrja aftur, kvika safnast fyrir í Svartsengi og svo verða kvikuhlaup.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.