Umsvif sem telja - skildi eftir stóra kórónu til að fylla - 153. setning Alþingis

Orðlof

Viðvörun

Nafnorðin aðvörun og viðvörun eru talsvert algeng í íslensku. Þau merkja bæði það sama, ’það að vara við (t.d. hættu)’, og eru sennilega einkum notuð um boð um aðsteðjandi hættu. 

Orð af þessu tagi, kvenkynsorð sem enda á ’-un’, eru yfirleitt mynduð af sagnorðum. 

Þar sem sambandið ’*vara að’ er ekki til hafa margir lagst gegn notkun orðsins aðvörun og mælt með því að nota heldur viðvörun með tilvísun til sambandsins vara (einhvern) við sem allir þekkja. 

Það kann líka að mæla gegn orðinu aðvörun að það minnir mjög á danska orðið advarsel.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Umsvif sem telja níu milljarða króna.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Fjárhæð „telur“ ekki neitt. Hún er.

Á blaðsíðu 22 í Morgunblaðinu 10.9.22 segir:

vinna nú við að mynda skjalasafn Landsnefndarinnar síðari, sem telur um 5.000 síður. 

Þetta orðalag er algengt. Hvað starfa margir blaðamenn á Mogganum. Tja, þeir „telja“ þrjátíu fyrir utan ritstjóra og hinar silkihúfurnar sem nenna ekki að leiðbeina samstarfsmönnum sínum. 

Tillaga: Umsvif upp á níu milljarða króna.

2.

„… og fór til Sviss. 1938 var hann sviptur þýskum ríkisborgararétti.

Frétt á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 11.9.22.

Athugasemd: Svo bregðast krosstré … varð mér að orði þegar einn reyndasti blaðamaður Morgunblaðsins og afskaplega vel máli farinn byrjar málsgrein á tölustaf. Vonbrigði. 

Ætli það sé ekki kominn tími til að segja upp áskriftinni. Ég get þó ekki sagt upp áskriftinni að Ríkisútvarpinu. Las á vefsíðu þess ágæta frásögn um stríðið í Úkraínu eftir snjallan íslenskan sögumann:

73. sveitin er með stærstu fallbyssur Úkraínu …

Smáatriði? Nei, síður en svo. Allir eiga að kunna regluna; ekki skrifa tölustaf í upphafi málsgreinar. Vonbrigði.

Tillaga: … og fór til Sviss. Árið 1938 var hann sviptur þýskum ríkisborgararétti.

3.

„Móðir hans skildi eftir stóra kórónu til að fylla

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Skrýtið orðalag. Með hverju eru kóróna fyllt? Höfði? Þó má vera að nýi kóngurinn sé höfuðstærri en móðir hans og geti ekki „fyllt kórónuna“ og því þurfi að stækka hana. Kjánalegt bull.

Mikið andskoti er þetta nú samt illa orðað sem og öll fréttin. Blaðamaðurinn kann líklega hrafl í ensku en á bágt með að þýða það yfir á íslensku.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Þeir köstuðu bara rifflunum sínum í jörðina

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Misjafnt hafast rússneskir hermenn að samkvæmt frétt Vísis. Sumir „lögðu frá sér byssur sínar“, aðrir „köstuðu bara rifflunum á jörðina“. Það er aldeilis, köstuðu þeim í jörðina. Svona hamagangur endar með því að einhver verður fyrir voðaskoti. 

Í fréttinni segir:

Þegar blaðamenn ræddu við Matvienko voru Úkraínumenn að mæta í þorpið …

Líklegra voru þeir að koma í þorpið. Talsverður munur er á því að koma á staðinn eða mæta þangað.

Einnig segir í fréttinni:

Lík þessa fólks hefur í einhverjum tilfellum legið á götum …

Þarna hefði verið betra að tala um nokkur tilfelli.

Í fréttinni segir:

Úkraínumenn geta þannig einbeitt sér að því að ráðast á Rússa þar sem þeir eru veikir fyrir og halda Rússum á hælunum.

Hvað merkir orðalagið „að halda einhverjum á hælunum“. Fjölmörg orðatiltæki eru til um hæl og hæla en ekkert þessu líkt. Giska má á að blaðamaðurinn eigi við að Úkraínumenn haldi Rússum á tánum. Það skilja allir. Nástaða er í málsgreininni, orðið Rússar kemur fyrir tvisvar sem er of mikið.

Í fréttinni segir:

Það að hafa frumkvæðið í átökum felur í stuttu máli sagt í sér að stjórna framvindu mála. Andstæðingurinn þarf þá að bregðast við aðgerðum þínum og sækir síður fram.

Líklega er þetta þýðingarvilla. Ástæðulaust er að nota enskt orðalag þegar þýtt er á íslensku. 

Enska persónufornafnið „you“ merkir þú á íslensku og orðin eru náskyld. Hins vegar er ekki alltaf hægt að þýða „you“ sem þú. Í persónuleg ávarpi í sendibréfi og tölvupósti fer ekki á milli mála hver „þú“ er. Þannig er það á ensku og íslensku og líklega flestum öðrum tungumálum. Í ensku er „you“ oft notað um almenning, til dæmis: „this is something you have never seen“.

Í fréttinni er þessi myndatexti:

Úkraínskur hermaður virðir fyrir sér rústir rússnesks skriðdreka …

Réttara er að tala um flak farartækja, aldrei rústir.

Tillaga: Þeir köstuðu bara rifflunum frá sér

5.

„Hannesína er flutt til Reykjavíkur fyrir nokkru síðan og hefur ekkert verið að mæta á fundi.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Svona talsmáti breiðir úr sér í stað þess að segja að konan hafi ekki mætt á fundi. Skárra er að segja fyrir nokkru en ekki „fyrir nokkru síðan“. Sé atviksorðinu síðan sleppt breytist ekkert og þar af leiðandi er orðið óþarft.

Annað dæmi úr fréttinni:

Hann sagðist lítið vera farinn að frétta af því sem væri í gangi.

Skárra væri að orða þetta svona: 

Hann sagðist lítið hafa frétt af því sem væri í gangi.

Tillaga: Hannesína er flutt til Reykjavíkur fyrir nokkru og hefur ekki mætt á fundi.

6.

153. setning Alþingis fór fram með hefðbundnum hætti í gær …

Frétt á forsíðu Morgunblaðsins 14.9.22. 

Athugasemd: Þetta er illa skrifað. Í upphafi málsgreinar er raðtala, þrír tölustafir og punktur. Verra gerist það varla. Ætla mætti að þetta væri atriði númer 153 og blaðamanninum hafi láðst að setja stóran upphafsstaf í fyrsta orðinu þar á eftir. Svo er hins vegar ekki. 

Fyrirsögnin fyrir ofan tilvitnuðu málsgreinina er svona:

Alþingi sett í 153. sinn í gær.

Hvers vegna þarf að tvítaka þetta og búa um leið til nástöðu? Hún er aldrei er til bóta. 

Tillaga: Setningin fór fram með hefðbundnum hætti í gær …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband