Vinur meðlimarins - slitrótt úrkoma - haustfundur sem fer fram

Orðlof

Beyging mannanafna

Algengt er orðið að sleppa því að beygja mannanöfn sem að sjálfsögðu eiga að beygjast eins og önnur nafnorð. Algengast er að sleppa beygingu í tvínefnum, en ekki á sama hátt í karlmanns- og kvenmannsnöfnum.

Ef maður heitir Einar Gunnar eða Björn Þór ætti eignarfallið að vera Einars Gunnars og Björns Þórs, það er báðir liðir eru beygðir. Mjög oft er því sleppt að beygja fyrra nafnið og aðeins sagt Einar Gunnars eða Björn Þórs

Þessu er öfugt farið í kvenmannsnöfnum. Þar er það síðara nafnið sem margir láta óbeygt og segja til dæmis „ég ætla til Unnar Sif“ eða „ég ætla til Elvar Ósk“ í stað Unnar Sifjar og Elvar Óskar. 

Eins er orðið talsvert algengt að heyra einkvæð kvenmannsnöfn notuð án eignarfallsendingar þegar þau eru einnefni, til dæmis til Sif, Þöll, Dögg, Dís í stað til Sifjar, Þallar, Daggar, Dísar.

Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Bát­ar slitnuðu frá og fisk­vinnslukör fuku hérna eins og syk­ur­púðar út um all­an fjörð

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er reglulega fyndið. Þó hafa fæstir séð sykurpúða fjúka en þeir eru ábyggilega léttir. Hvað átti viðmælandinn svo sem að segja? Hann fann sér líkingu og lesandinn sér sykurpúða í feykjast til og frá í vindinum og þykist heppinn að fá ekki nokkra slíka í andlitið.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Fyrir eru til staðar eða í ferli fjöldi kvíabóla annarra fyrirtækja í Djúpinu.

Frétt á blaðsíðu 14, Sviðsljós, í Morgunblaðinu 27.9.22.

Athugasemd: Þetta er óskiljanleg setning og veldur þar mestu feitletruðu orðin. Sé orðunum „til staðar“ sleppt áttar maður sig á merkingunni en hvort hún sé sú sem átt er við er óvíst.

Hins vegar er fréttin áhugaverð og að öðru leyti vel skrifuð.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

Ástæðan er að ummæli sem Waters viðhafði um stríðið í Úkraínu …

Frétt á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 27.9.22.

Athugasemd: Sum orð í ritmáli skipta litlu. Þeim má oft sleppa, enginn skaði verður, merkingin breytist ekki. Þannig er með sagnorðið „viðhafa“ í tilvitnuninni. 

Orðið er ekki mikið notað. Einna helst kemur það fyrir í upphöfnum ræðum og jafnvel prédikunum. Í flestum jafnvel öllum tilvikum má sleppa forskeytinu „við“ og stendur þá efir sögnin hafa sem dugar okkur flestum. Samt er þetta allt smekksatriði og ekki viðhafa allir sömu skoðun.

Tillaga: Ástæðan er ummæli Waters um stríðið í Úkraínu …

4.

„Hún segir það síðan hafa komið sér á óvart þegar aðrir stjórnarmeðlimir, og nefnir sérstaklega vin miðlimarins

Frétt á fréttablaðið.is.

Athugasemd: Illa skrifað. Meðlimur er algengt í málinu þó margir telji það orðskrípi. Hefði reyndur blaðamaður skrifað fréttina hefði ofangreint tilvitnun litið út eins og segir í tillögunni.

Þess má geta að þarna er fjallað um bréf í félagasamtökum. Konan sem skrifaði það talar aldrei um „stjórnarmeðlimi“. Orðið „meðlimur“ verður til í endursögn blaðamannsins. Hann er ekki jafn ritfær og bréfritarinn og sést það greinilega í fréttinni.

Tillaga: Hún segir það síðan hafa komið sér á óvart þegar aðrir stjórnarmenn, og nefnir sérstaklega vin eins þeirra …

5.

„Slitrótt úrkoma …

Sjónvarpið, veðurþáttur á eftir sjöfréttum 27.9.22.

Athugasemd: Gullkornin hrökkva nær stanslaust frá veðurfræðingunum. Góðlegur maður talar um „slitrótta úrkomu“ og hlýtur að eiga við skúrir sem honum er þó tamt því hann er óhræddur að nefna þær. Í sjálfu sér er orðalagið frekar fyndið rétt eins og í skemmtiþættinum Kappsmál þegar þátttakendur eiga að semja ný orð eða hugtök í stað hefðbundinna.

Veðurfræðingar virðast einstaklega ragir að nefna rigningu, tala miklu frekar um „úrkomu“. Engu að síður rignir duglega á blessuðu landinu þrátt fyrir útkomuna.

Sama á við vindinn. Einatt er talað um lítinn vind, talsverða vind eða mikinn vind. Sjaldnast eru gömlu veðurorðið nefnd, til dæmis, andvari, kul, rok, hvassviðri, storm og svo framvegis. Svona smitast til fjölmiðlamanna sem þá veigra sér við að víkja frá „veðurfræðingamálinu“ og gömlu veðurorðin týnast.

Tillaga: Skúrir …

6.

„Þriðjudaginn 4.október næstkomandi fer fram haustfundur Landsvirkjunar.

Færsla á Fésbókinni.

Athugasemd: Betur fer á því að segja að fundurinn verði á þessum degi, jafnvel má bæta við að hann verði haldinn. Alltof margt „fer fram“ og er í flestum tilvikum óþarfa tíundun. Leiðinlegt er að sjá að bil vantar milli dagsetningar og mánaðar. Svona sést mjög víða.

Allir hljóta að átta sig á því að haustfundurinn verði á þessu ári en ekki því næsta. Orðinu næstkomandi er því ofaukið. Hafi forráðamenn fyrirtækisins áhyggjur af því að auglýsingin skiljist ekki er má bæta við ártalinu.

Tillaga: Haustfundur Landsvirkjunar verður 4. október 2022.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband