Lík sem rata ekki í kirkjugarð - námskeið, workshop og fokuseraður tími

Orðlof

Fúlasta alvara

Tökuorð úr dönsku þóttu ekki til fyrirmyndar þegar undirritaður var í skóla upp úr miðri síðustu öld. Stundum var svo langt gengið að fordæmd voru alíslensk orð fyrir það eitt að þau áttu sér samsvörun eða hliðstæðu í dönsku. 

Eitt þessara orða var handklæði en eg minnist þess að mér var kennt að betur færi á að nota önnur orð um fyrirbrigðið, t.d. mætti nota þerru. Í Brennu-Njáls sögu segir þó:

Flosi hugði að handklæðinu og var það raufar einar og numið til annars endans (ÍF XII, 290).

Af þessu má sjá að íslensk orð þurfa ekki að vera dönsk þótt þau eigi sér beina samsvörun í dönsku.

En andstæðan er einnig kunn: orð sem gætu virst alíslensk eiga sér danskar rætur ef að er gáð.

Orðasambandið fúl alvara […], einkum e-m er fúlasta alvara […], er kunnugt frá 19. öld og þar liggur að baki d. fuld alvor ’full alvara’.

Af sama toga er orðasambandið fúll fjandskapur […] og lýsingarorðið fúlskeggjaður […], sbr. d. fuldskæg ’alskegg’.

Jón G. Friðjónsson. Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Minnst 10.300 grafir hafi verið grafnar í borginni allri en allar líkur séu á því að þúsundir líka hafi aldrei ratað í kirkjugarð.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Ansi er þetta nú óheppilega sagt. Orðalag þarf að hæfa efninu. Ekki má háalvarleg eða sorgleg frétt verða brosleg. 

Tillaga: Minnst 10.300 grafir hafi verið grafnar í borginni allri en allar líkur séu á því að þúsundir líka hafi aldrei verið grafin í kirkjugarði.

2.

„Í Kans­as lét­ust þrír í þrem­ur umferðarslys­um á miðviku­dags­kvöldið, einu veðurtengdu og tveim­ur lík­lega veðurtengd­um en rann­sókn á eft­ir að leiða það í ljós.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Einfaldara og eðlilegra er að segja vegna veðurs.

Ekki er annað hægt að segja en að blaðamaðurinn þýði samviskusamlega, er líklega mjög góður í ensku en óreyndur í þýðingum. Í heimildinni á vef CNN segir:

… one death was confirmed to be weather-related, and two were believed to be weather-related but need more investigation …

Vanir íslenskumenn vita að ekki dugir alltaf að þýða beint. 

Í fréttinni á ensku segir í niðurlaginu: „… but need more investigation …“ Blaðamaðurinn þýðir þetta ágætlega sem sýnir að honum er ekki alls varnað.

Held að tillagan sé skárri en ofangreind tilvitnun.

Tillaga: Í Kans­as lét­ust þrír í þrem­ur umferðarslys­um á miðvikudags­kvöldið, einu vegna veðurs og lík­lega tvö til viðbótar en rann­sókn á eft­ir að leiða það í ljós.

3.

„… svo við vorum búinundirbúa okkur …

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Þetta er ekkert vitlausara en hvað annað sem skellur á lesendum fjölmiðla. Vond er nástaðan. Aftur á móti hefði mátt orða þetta betur og það er verkefni blaðamannsins. 

Jón G. Friðjónsson segir í Málfarsbankanum um svipað efni:

Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að notkun orðasambandsins vera búinn að + nh. hefur aukist talsvert á kostnað hafa + lh.þt., t.d.: 

Skólinn er búinn að búa [hefur búið við] mörg undanfarin ár við fjárskort. 

við erum búin að bíða [höfum beðið] með 64 milljónir vegna þess að framlag ríkisins kemur ekki.

allt búið að ganga vel [hefur gengið vel] frá fyrsta degi, veðrið búið að haldast [hefur haldist] gott. 

þessi námstími er búinn að styttast [hefur styst] mikið.

Blaðamaðurinn á ekki að skrifa í frétt með misheppnuðum ummælum viðmælandans. Það er engin blaðamennska. Hann á þess í stað að leiðrétta, oft hjálpar að umorða í óbeina ræða.

Tillaga: … svo við höfðum undirbúið okkur …

4.

„Rétt fyr­ir klukk­an sex í morg­un barst út­kall frá Þing­valla­vatni þar sem að er­lend­ir ferðamenn höfðu fest bíl sinn á leið á ION hót­elið.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Mikið má ganga á hafi ferðamenn fest bíl sinn í Þingvallavatni. Það er að vísu frosið og svo sem ekki ólíklegt að þeir hafi ekið út á ísinn og fest sig þar í snjó.

Nei, útkallið kom ekki frá Þingvallavatni heldur frá bíl sem líklega var fastur á veginum yfir Mosfellsheiði eða í Grafningi. 

„Þar sem“ er samtenging, vísar til Þingvallavatns og ruglar þar með allan skilning á málsgreininni. Hins vegar eru lesendur orðnir því vanir að lesa í rétta merkingu að fæstir kippa sér lengur upp við ruglið. Stjórnendum fjölmiðla er eins farið og fyrir vikið tíðkast óskýrt orðalag í fréttum og öllum er sama. Svona aðfinnsla flokkast þess vegna sem tuð eða smáatriði sem engu skiptir.

Tillaga: Rétt fyr­ir klukk­an sex í morg­un barst út­kall frá vegum við Þing­valla­vatni, er­lend­ir ferðamenn höfðu höfðu fest bíl sinn á leið á ION hót­elið.

5.

„Námskeið, workshop eða tími sem er fokuseraður á bætingu hefur gefið góð afköst.

Frétt í íþróttablaði Fréttablaðsins 24.12.22.

Athugasemd: Fólk sem slettir á þátt í að íslenskunni fer hnignandi. Þórarinn Eldjárn orti:

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var …

Undir þetta taka allir á tyllidögum en svo gleymist það.

Íslenskunni hnignar, oft vegna þess sem nefna má „hryðjuverkastarfsemi“ fjölmargra, einstaklinga, stofnana, fyrirtækja og stjórnsýslunar. Dæmi um þetta hafa margsinnis verið talin upp hér; heiti fyrirtækja, ummæli í fjölmiðlum, svokallað „sérfræðingatal“, löggumál, stofnanamállýska og jafnvel orðalag í lögum og reglugerðum og svo framvegis.

Ofangreind tilvitnun er úr skýrslu sem skrifuð var fyrir KSÍ. Hún er illskiljanleg. Hér eru nokkur atriði úr fréttinni sem stinga í augun:

Squad depth og succession plan er stór hluti af skipulagningu …

Til að hafa auga á „what if?“ scenarios er …

High Performance kúltúr fyrir einstaklinga og starfsfólk. 

Skipulagningu í kringum landsliðshópa og kynna succ­ession plan og scouting.

Búa til data fyrir yngri flokka með hjálp Wyscout.

Af hverju var skýrslan ekki bara rituð á ensku? Veit höfundurinn og KSÍ ekki hvað ofangreind hugtök og orð merkja á íslensku?

Líklega er skýrslan ekki fyrir almenning með glöggan skilning á íslensku heldur útvalda sem hafa sama skilning á ensku en lítinn á móðurmálinu sínu. 

Margt hefur verið KSÍ mótdrægt á undanförnum misserum. Skýrsla með enskuskotnu orðalagi er engin greiði fyrir samtökin, eykur aðeins á vandann. Útgáfa hennar er höfundi og stjórn KSÍ til vansa. 

Íslensku máli er hægt að beita af list en á ekki að þurfa að þola leti og kæruleysi.

Fréttablaðið boða fleiri fréttir úr skýrslunni. Held að engum sé greiði gerður með svona hálfkáki í tungumálum. Ótrúlegt er að blaðamaðurinn skuli búa til svona frétt.

Tillaga: Námskeið, verkefnastofa eða tími sem nýttur er til að bæta afköst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband