Náttúrulegur dauðdagi - sá sem stal þýfi - einhverjir drekktu bílum

Orðlof

Alvarlegra en slettur

Einnig geta ensk áhrif verið þess eðlis að þau breyta málkerfinu sjálfu. Þetta á við um ofnotkun orðasambandsins vera að + nafnháttar (en það hefur orðið fyrir áhrifum frá enska orðasambandinu to be + lýsingarháttur nútíðar): 

    • Þetta [skoðanakönnun] er örugglega að mæla landið eins og það liggur. 
    • Ég er að hvetja fólk til að fara vel með fé sitt.
    • Fólk er að verða fyrir brotum.
    • Þeir [landnámsmenn] eru að deyja um fertugt 
    • Hann [biskupinn] er að andlega leiðtoga þjóðina
    •  … efast um að Íslendingar í Kaupmannahöfn séu mikið að kippa sér upp við þetta mál 

Áhrif af þessum toga þykja umsjónarmanni sýnu alvarlegri en slettur og slangur

Sumum kann að þykja þægindi að því að nota (óbeygjanlegan) nafnhátt í stað þess að þurfa að nota margvíslegar beygingarmyndir sagnorða en slík málbeiting getur naumast talist rismikil.

Jón G. Friðjónsson, Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… en þá greindi Ögmundur frá skoðanaskiptum sínum.

Frétt á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 19.1.23.

Athugasemd: Merkilegt orð, skoðanaskipti. Venjulega er það haft um fólk sem skiptist á skoðunum, ræðir málin. Í frétt Moggans er það haft um manninn sem skipti um skoðun. Ekkert er að því. 

Þekkt eru íbúðaskipti, dekkjaskipti, fataskipti svo ekki sé talað um samskipti. Öll orðin geta haft tvær merkingar rétt eins og skoðanaskipti. 

Í fréttinni er sagt frá stórmerkilegum fundi sem fróðlegt hefði verið að sækja. Frétt Morgunblaðsins er ítarleg og vel skrifuð.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„… segir mat liggja fyrir um náttúru­legan dauð­daga sjúk­linga.

Frétt á vísi.is.  

Athugasemd: Miklu betur fer á því að orða þetta eins og segir í tillögunni.Dauðdagi er dálítið snúið orð. Það merkir einungis andlát eða dauði. Hefur hugsanlega verið haft um daginn sem einhver dó.

Blindur er dauðadagur, segir einhvers staðar, og er átt við að dánardægrið sé öllum hulið.

Tillaga: … segir mat liggja fyrir um eðlilegt andlát sjúk­linga.

3.

„Ég tel engar líkur á að þetta raungerist.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Hver er munurinn á að eitthvað „raungerist“ eða gerist eða verði? Á ensku er til orðið „realize“. 

Tillaga: Ég tel engar líkur á að þetta gerist.

4.

„Braust inn í Gesthús á Selfossi og hafði á brott tveggja milljóna þýfi.

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Vissulega er hægt að stela þýfi, þjófur ræni annan þjóf. Eigur fólks eru ekki þýfi fyrr en einhver hefur tekið þær ófrjálsri hendi. Þar af leiðandi stenst ofangreind málgrein ekki. 

Í fréttinni segir:

… fyrir fjársvik og þjófnaðarbrot sem áttu sér stað í oktíber árið 2020

Hér áður fyrr voru menn sakfelldir fyrir þjófnað og áttuðu lesendur fréttablaða samstundis hvað hafði gerst. Ekki er víst að allir viti hvað „þjófnaðarbrot“ er. Í fréttinni er talað um „þjófstolna“ hluti, nokkuð sem áður fyrr dugði að kalla þýfi. 

Í fréttinni segir:

Munirnir sem um ræðir eru eftirfarandi: 

Hvaða tilgangi þjónar orðalagið „sem um ræðir“. Það er algjörlega óþarft. Eftirfarandi er nóg:

Þessu stal maðurinn: 

Í fréttinni segir:

Maðurinn hlaut einnig dóm fyrir fjársvik, með því að svíkja konu um fimmtán þúsund krónur með því að auglýsa fulldempað fjallahjól af tegundinni TREK á sölusíðunni Reiðhjól til sölu á Facebook.

Þetta er illa skrifað. Í tilvitnuninni eru of mörg smáatriði sem engu skipta. Blaðamaðurinn fellur í nástöðugryfju: „Með því að … með því að“.  

Eftirfarandi er skárra:

Maðurinn hlaut einnig dóm fyrir fjársvik. Hann hafði fengið greiddar fimmtán þúsund krónur fyrir fjallahjól sem hann afhenti aldrei. 

Í fréttinni segir:

Annars vegar fór inn um glugga á hesthúsi …

Þegar ritað er annars vegar er átt við tvennt. Blaðamaðurinn nefnir aldrei hitt. Þegar hið fyrra er nefnt ber líka að nefna það síðara. Hroðvirknisbragur eru á fréttinni. Í tilvitnaðri setningu vantar persónufornafnið hann.

Margir blaðamenn hafa aldrei fengið neina tilsögn í fréttaskrifum. Fyrir vikið skrifa þeir í belg og biðu, hlaða inn í fréttir sínar alls kyns óþarfa sem engu skiptir. Sá sem ekki kann að segja sögu getur varla skrifað frétt. Fréttastjóri og ritstjóri standa sig illa gagnrýni þeir og leiðbeini ekki blaðam0nnum í fréttaskrifum.

Fréttir eiga að vera villulausar og vel skrifaðar. Annað er lesendum ekki bjóðandi.

Tillaga: Stal verðmætum fyrir tvær milljónir króna í gistihúsi á Selfossi.

5.

„Einhverjir hafa drekkt bifreiðum sínum.

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Þegar sagt er að einhver hafi drekkt bíl sínum er átt við að vatn hafi komist inn í loftinntak hans og því drepist á honum. Ekkert er að þessu orðalagi. 

Talsverður munur getur verið á fornöfnunum einhver og nokkur. Hér hefði hið síðarnefnda verið betra. 

Í Málfarsbankanum segir:

Í staðinn fyrir orðið einhver fer oft betur t.d. á orðunum nokkur og fáeinir. Hann var í burtu í fáeina daga. (Síður: „hann var í burtu í einhverja daga“.) Þetta kostar nokkrar milljónir. Kostnaðurinn skipti milljónum. (Síður: „þetta kostaði einhverjar milljónir“.)

Sama á við um þá sem lentu í óhöppum með bíla sína.

Tillaga: Nokkrir hafa drekkt bifreiðum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband