Orrustuþotur með loftskeytum - leiðandi vandi - tengimúffa - Highland base Kerlingarfjöll

Orðlof

Erlend nöfn fyrirtækja

Ef enginn hugsar sig um tvisvar þegar hann gefur fyrirtæki sínu erlent nafn og yfirvöld bregðast ekki við þá gerist ekkert annað en að við tökum enskuna upp fyrir tungumál ferðþjónustunnar. Mér sýnist allt liggja í þá átt,“ sagði Sigríður Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Hólum, í viðtali, sem birtist í Morgunblaðinu á fimmtudag. 

Forystugrein Morgunblaðsins 28.1.23. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

F-35-orrustuþotunar eru búnar loftskeytum líkt og sjá má.“

Myndatexti á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 28.1.23.

Athugasemd: Myndin er neðri hluta orrustuflugvélar og þar kann að vera flugskeyti. Í textanum segir „má sjá“ en fátt sést. Blaðamaðurinn veit líklega ekki hvað loftskeyti er.

Á Vísindavefnum góða segir:

Fyrsta loftskeytastöðin á Íslandi sem bæði gat tekið á móti og sent loftskeyti hóf starfsemi á Melunum í Reykjavík 17. júní 1918. 

Sé haldið áfram vafri um vefinn kemur í ljós að Loftskeyti er nafn á ljóðabók eftir Sigrúnu Björnsdóttur. Enga ljóðabók „má sjá“ undir þotunni á myndinni.

Sé enn leitað áfram á vefnum finnst undirfurðuleg gömul frétt á fréttablaðinu.is. Í henni er hvort tveggja talað um „loftskeyti“ og flugskeyti.  Í fréttinni segir:

Myndband dreifist nú um internetið sem sýnir flugskeyti sem rússneskir aðskilnaðarsinnar í Luhansk-héraði í Úkraínu skutu upp í loft, nokkrum sekúndu, seinna snýr það hins vegar við og sprengist þegar það lenti á jörðunni.

Svona skrifa litlu sætu börnin og þegar þau vanda sig.

Tillaga: F-35-orrustuþoturnar eru búnar flugskeytum.

2.

„Talsmaður varn­ar­málaráðuneyt­is Bandaríkjanna seg­ir að Kína sé leiðandi vandi fyr­ir ráðuneytið …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er greinilega þýðing á frétt af vef Washington Post en er óskiljanleg á íslensku. Blaðamenn eiga að fullvinna fréttir sínar en ekki skilja lesendur eftir í þoku eins og hér er gert.

Tillaga: Eingin tillaga.

3.

„Þar segir að fyrstu greiningar og skoðanir hafi bent til að bilun væri í tengimúffu í landi …

Frétt á visi.is. 

Athugasemd: Eina múffan sem við ólærðir leikmenn í rafmagnsfræðum þekkjum er kaka sem svo er kölluð. Múffur geta verið af ýmsu tagi með margvíslegu bragði. Væri mér boðin „tengimúffa“ í fjölskylduboði myndi ég ekki snerta á henni fyrr en ég sæi hvernig öðrum gestum reiddi af.

Dreg það í efa að blaðamaðurinn viti hvað „tengimúffa“ er. Engu að síður skrifar hann fréttina og ætlast til að við lesendum vitum það.

Ekki ætti að nota sérhæfð tækniorð í fréttum nema merkingin sé útskýrð á almennu máli.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Kvöldsólin seig með tilþrifum til viðar í gær aftan við fjallgarðinn á Reykjanesi

Frétt á forsíðu Fréttablaðsins 1.2.23.

Athugasemd: Tilþrif hefur fjölmargar merkingar en af þeim má ráða að menn koma við sögu. Á íslensku orðaneti eru þessi skyldheiti nefnd: Stórhugur, andagift, glæsibragur, snilli, tilbirgði, fimi, skörungskapur, ákafi, orðgnótt og fleiri. Varla er hægt að lýsa sólsetri með þessum orðum.

Tillaga: Sólarlagið var fagurt bak við fjöllin á Reykjanesi …

5.

„Telja of seint að fara á eftirlaun 64 ára.

Frétt á blaðsíðu 7 í Fréttablaðinu 1.2.23.

Athugasemd: Þetta er skrýtnasta setningin í Fréttablaðinu þennan daginn og jafnvel þó til lengri tíma sé litið. Í fréttinni kemur ekkert fram sem styður fullyrðinguna.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

Veðurskilyrðin rigning hefur rokið upp á vinsældalistum Íslendinga yfir tegundir úrkomu á undanförnum dögum enda skolar hún göturnar af klakabrynju og snjósköflum og losar um fasta bíla.

Frétt á blaðsíðu 12 í Fréttablaðinu 1.2.23.

Athugasemd: Efnislega er málsgreinin reglulega slæm. Málfræðilega er hún gölluð. Vonlaust er að leiðrétta skrifin, þó má reyna að endurskrifa en þá blasir við að ekkert er varið í þetta, er ekki einu sinni fyndið.

Á klisjukenndan hátt má spyrja: Á hvaða lyfjum var skrifarinn? Svarið skiptir samt engu máli.

TillagaEngin tillaga.

7.

High­land base - Kerl­ing­ar­fjöll.

Frétt á mbl.is. 

0J2B1743_0J2B1744Athugasemd: Ferðaþjónusta á einu fegursta svæði landsins verður kallað þessu ónefni. Misvitrir fésýslumenn þurfa endilega að láta blanda ensku inn í heiti fyrirtækja, þeim finnst íslenskan mál og íslensk örnefni eru ekki nóg.

Dettur einhverjum í hug að til Íslands sæki útlendir ferðamenn vegna þess að heiti fyrirtækja eru að hluta eða öllu leyti á ensku? Eða eru ensk nöfn á íslenskum fyrirtækjum þjónusta við útlenda ferðamenn? Nei. Útlendingar eru steinhissa á ósjálfstæði eyjaskeggja.

810808-3Auðvitað eiga íslensk fyrirtæki að heita íslenskum nöfnum. Undirheitið getur verið á ensku. Upplagt hefði verið að láta fyrirtækið heita Háfjallamiðstöðin í Kerlingafjöllum en það er ekki nógu fínt.

Þá man ég eftir ljóðinu sem Snorri skáld Hjartarson orti:

Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,
þér var ég gefinn barn á móðurkné;
ég lék hjá þér við læk og blóm og stein,
þú leiddir mig í orðs þíns háu vé.

Hræðilegt er að týna uppruna sínum og það í sjálfum Kerlingarfjöllum. Þetta er allt svo óskaplega sorglegt.

Efri myndin var tekin 2019 og er af „Highland base, Kerlingarfjöll“. Neðri myndin var tekin 1981 en þá var þetta Skíðaskólinn í Kerlingarfjöllum og staðurinn hét Ásgarður.

Tillaga: Háfjallamiðstöðin í Kerlingafjöllum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband