Aðili fluttur á bráðamóttöku - heimsækja lóð - úðuðu piparúða

Orðlof

Glæsilegt lið kvenna

Það er stundum talað um Íslendingasögurnar sem „strákasögur“. Þegar ein af íslenskum stjórnmálaskörungum hefur orð á því að það sé mikilvægt fyrir konur og stúlkur að vera ekki stilltar og prúðar, þá raða þær sér upp fyrir framan mig: Auður djúpúðga, Guðrún Ósvífursdóttir, Auður Vésteinsdóttir, Hallgerður Höskuldsdóttir, mæðgurnar á Borg og leikþátturinn sem þær þurfa ekki einu sinni að æfa þegar þær ætla að hjálpa stórskáldinu Agli Skallagrímssyni út úr kreppu sem hann hefur smíðað sér sjálfur! 

Getur einhver bent mér á glæsilegra lið kvenna sem ekki eru stilltar og prúðar en í Íslendingasögum? 

Heimir Pálsson. Blaðsíðu 40 í Morgunblaðinu 15.4.23. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Aðil­inn var flutt­ur á bráðamót­töku.

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Löggufréttirnar eru oft illa skrifaðar. Blaðamenn sem sækja fréttir í dagbók löggunnar  gera margir hverjir ekki neina tilraun til að laga skrifin. Þar að auki virðast þeir telja allt vera frétt.

Löggan heldur að ekki megi nota orðið maður um konur eru þær þó menn rétt eins og karlar. Orðið er nú um stundir sé pólitískt útlægt hjá góða fólkinu. Svona kallast nýlenska.

Í stað maður notar löggan „aðili“ og er þá komin úr öskunni í eldinn. 

Í stuttri frétt er tekið svona til orða:

  1. Meðvitundarlaus aðili
  2. Aðilinn kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás
  3. Aðilinn var fluttur á bráðamóttöku
  4. Aðili féll nokkra metra
  5. Aðilinn var fluttur á bráðamóttöku
  6. Aðili lá í annarlegu ástandi „í holu“

Sex sinnum tönglast löggan á orðinu, nærri því í hverri línu. Af fréttinni má ráða að ofangreint kom ekki fyrir sama „aðilann“, það er manninn.

Í skrifum löggunnar er þó eitt jákvætt, sjá lið númer fjögur. Ungir og óreyndir blaðamenn hefðu skrifað „féll einhverja metra“. 

Margir blaðamenn bera ótakmarkaða virðingu fyrir löggunni og telja hana óskeikula. Þegar þeir lesa dagbók löggunnar virðast þeir missa alla getu til sjálfstæðrar hugsunar sérstaklega standi í henni orð eins og gerandi, þolandi, vettvangur, árásaraðili, eignaspjöll og álíka. Þetta eru svo flott orð, sem almenningur notar aldrei, enda alþýðuhyski.

Tillaga: Maðurinn var flutt­ur á bráðamót­töku.

2.

Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku …

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Hrósið fær blaðamaður Vísis sem fékk það verkefni að sækja „frétt“ úr dagbók löggunnar. Hann breytir orðalagi löggunnar, ólíkt kollega hans á Mogganum sem frá segir hér að ofan.

Hvergi notar hann orðið „aðili“ heldur fann hann gamalt og gott orð sem á bæði við karla og konur en það er maður. Ekki þurfti að breyta miklu til að bragðdauf „frétt“ skánaði að miklum mun. Góð er hún samt ekki en það er ekki blaðamanninum að kenna. Miklu frekar yfirmönnum hans.

Blaðamaðurinn hefði þó átt að vera vandfýsnari og sleppa nokkrum atriðum sem engu skipta og eru „ekkifréttir“. Nefna má fulla kallinn „í holu“, slagsmál í miðbænum, náungann sem féll nokkra metra, matvælin sem brunnu á helluborðinu og fleira ómerkilegt. Ekki eru allt fréttir og ekki er allt merkilegt sem löggan tekur sér fyrir hendur.

Skemmtilegasta orðalagið er af umferðadeild löggunnar sem í nótt reyndi „að nappa“ fulla ökumenn.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„… og ætlar að heimsækja lóðina á Snæfellsnesi.

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 8.4.23.

Athugasemd: Enginn „heimsækir“ lóð því hún á hvergi heima, hún er þar sem hún er. Enginn heimsækir fjall eða mýri þó í henni sitji köttur og úti sé ævintýri.

Í fréttinni segir:

… muni byrja að teikna upp hótelið um leið og staðsetningin er komin

Orðalagið er þvingað enda er nafnorðið „staðsetning“ slæmt. Hér dregur orðalagið keim af ensku: 

„… „ soon að the location is found …“. 

Betur hefði farið á því að segja:

… muni byrja að teikna upp hótelið um leið og lóð hafi fundist

Með þvinguðu orðalagi er átt við ofnotkun á nafnorðum svo úr verður einhvers konar íslensk enska. 

Tillaga: … og ætlar að skoða lóðina á Snæfellsnesi.

4.

„Jóhann Berg Guðmundsson átti frábæra innkomu hjá Burnley …

Frétt á mbl.is

Athugasemd: Orðalag íþróttablaðamanna vekur oft furðu. Þeir þýða oft illa upp úr erlendu fjölmiðlum en það sem verra er, snöggsjóða enska frasa svo útkoman verður lélegt íslenskt mál. 

Fréttin bendir til að Jóhann hafi staðið sig frábærlega vel í leiknum. Af hverju er ekki hægt að segja það beinum orðum? 

Tillaga: Jóhann Berg Guðmundsson átti frábæra leik hjá Burnley …

5.

„Úðuðu piparúða yfir saklausa gesti.

Frétt á visi.is. 

Athugasemd: Svona orðalag er merkingarlítið því ekki er getið um seka gesti. Eða hver var glæpurinn sem gestirnir höfðu ekki drýgt eða drýgt? Hafi þurft að taka það fram að einhverjir hafi verið saklausir hljóta aðrir að hafa verið sekir.

Eftirtektarvert er að einhverjir úðuðu úða. Svona eins og að hlaupa hlaupandi, stökkva hástökk, skrifa skrift og álíka.

Hins vegar er þetta ekki svo óalgengt orðalag og finna má mörg svipuð dæmi. Sagt er að það rigni bæði á seka og saklausa og er þá enginn glæpur nefndur.

Þar að auki var fólkið ekki gestir, ekki enn. Það stóð í röð fyrir utan skemmtistað. Hvenær er maður gestur og hvenær er maður ekki gestur? Spurningin jaðrar við að vera heimspekileg.

Tillagan er skárri vegna þess að vopnið var piparúði og telst því líkamsárás, misþyrming, rétt eins og fólk hafi verið grýtt eða lamið með kylfu. 

Tillaga: Misþyrmdu fólki með piparúða.

6.

12. mars sagðist lögreglan í Moldóvu hafa handtekið hóp …

Fréttir á ruv.is.

Athugasemd: Málsgrein má ekki byrja á tölustaf. Þetta er mikilvæg regla sem nýliðar á Ríkisútvarpinu þekkja ekki og enginn leiðbeinir þeim. Hver er reglan? Stór stafur er í upphafi málgreinar en tölustafir hafa hvorki lítinn né stóran staf. 

Þegar gluggað er í yfirlit frétta á vef útvarpsins 16.apríl stingur þetta í augu:

12. mars sagðist lögreglan í Moldóvu hafa handtekið hóp … 

653 ný lög voru innleidd í Rússlandi árið 2022. 

118 voru handtekin vegna mótmæla við Grand National … 

Afar einfalt er að komast hjá þessu.

Tillaga: Þann 12. mars sagðist lögreglan í Moldóvu hafa handtekið hóp …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alfreð K

Í síðasta dæminu hér að ofan,

118 voru handtekin vegna mótmæla ...

er auk þess notað hvorugkyn, handtekin, en ekki karlkyn.  Er þetta ekki líka frávik frá hefðbundinni málvenju?

Ætti það ekki frekar að vera:  Hundraðogátján (manns) voru handteknir vegna mótmæla ... ?

Alfreð K, 17.4.2023 kl. 03:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband