Kynþáttur svarts unglingsdrengs - hús á ferð - horfa til þess að opna leiðir

Orðlof

Málsgrein

Málsgrein er oft skilgreind á þann hátt að hún sé sá texti sem er á milli punkta. 

Guðrún Kvaran prófessor. Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… rannsakar nú hvort að kynþáttur svarts unglingsdrengs hafi haft eitthvað með það að gera að húsráðandi skaut hann þegar drengurinn fór húsavillt.

Frétt á vísi.is.

Athugasemd: Kynþáttur er haft yfir hóp fólks sem hefur sameiginleg einkenni, til dæmis húðlit, rétt eins og í þessu tilviki. Með öðrum orðum kynstofn.

Orðalagið er stirt, greinilega bein þýðing úr ensku, ekki gerð nein tilraun til að skrifa eðlilega íslensku. Fréttin er fljótfærnislega unnin.

Tillaga: … rannsakar nú hvort húsráðandi hafi skotið unglingsdreng vegna húðlitar hans þegar hann fór húsavillt.

2.

„Sumum finnst það því þá er allt leyfilegt en það sem getur gerst er að það skapast átkastahegðun hjá mörgum.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Orðið „átkastahegðun“ er torkennilegt. Á ensku er til orðið „bulimia“ sem hefur verið þýtt sem lotugræðgi. Á vísindavefnum segir:

Lotugræðgi er átröskun sem einkennist af óhóflegu áti fólks í endurteknum lotum.

Lotugræðgi er skiljanlegt orð en „átkastahegðun“ er það ekki en verið getur að ég sé að rugla saman tveimur hugtökum. Blaðamanni ber að skýra út fræðilegt orð noti hann slíkt í frétt sína.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

Nýi Broncoinn er ólíkur öllu öðru á vegum landsins.“

Fréttatilvísun á forsíðu bílablaðs Morgunblaðsins 18.4.23.

Athugasemd: Ford Bronco ólíkur öllu öðru á vegum landsins enda er hann ekki eins og malbik, vegstikur, umferðamerki, ljósastaura og ótal margt annað.

Þetta var varla það sem höfundur tilvitnunarinnar átti við. Eflaust var hann að líkja bílnum við aðrar tegundir bíla. Af hverju nefndi hann ekki bíla? Hann skildi málsgreinina en gleymdi lesandanum sem er verstu mistök blaðamanns og raunar allra annarra skrifara. Engu að síður er blaðamaðurinn sem skrifar fréttina vel máli farinn.

Tillaga: Nýi Broncoinn er ólíkur öllum öðru bílum á vegum landsins 

4.

„Kon­an sem leitað var að í fjöl­miðlum í gær er fundin heil á húfi.

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Konan týndist ekki í fjölmiðlum og þar var ekki leitað að henni. Auðvitað er þetta útúrsnúningur en afar mikilvægt er að orðum sé raðað eðilega í setningu og málsgrein. Ekki er nóg að efni hennar skiljist.

Tillagan er mun skárri.

Tillaga: Konan sem leitað var að í gær og frá var sagt í fjölmiðlum er fundin, heil á húfi.

5.

„Hér er á ferð huggu­legt 257 fm ein­býli 1967.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvað nefnast hús sem eru á ferð? Hjólhýsi? Enginn dregur einbýlishús, það er ekki hægt.

Í fréttunni er sagt frá fjórum húsum og þrjú þeirra eru „á ferð“.

Í alvöru talað: Blaðamaðurinn er fastur í nástöðu með orðalaginu „hér er á ferð“. Í upphafi fréttarinnar er tekið fram að húsin séu öll einbýlishús. Það er svo endurtekið fjórum sinnum.

Fréttin er fljótfærnislega skrifuð.

Tillaga: Einbýlishúsið er huggu­legt 257 fm ein­býli sem byggt var árið 1967.

6.

„Við horfum líka til þess að opna fleiri leiðir …

Frétt á blaðsíðu 12, Sviðsljós, í Morgunblaðinu 19.4.23.

Athugasemd: Skrýtið þetta orðalag „að horfa til einhvers“. Varla að það skiljist nema ráða í samhengið en fréttin er ekki nógu vel skrifuð. Líklega er átt við að menn ætlilangi til, vilji, óski eftir, hafi hug á og svo framvegs. 

Öll er tilvitnunin svona og er höfð eftir viðmælanda:

Við horfum líka til þess að opna fleiri leiðir, að í framhaldi af þessum útsýnisstað verði gönguleið út fjörðinn og inn dalinn sem er þarna aðeins utar.

Fyrir ókunnuga er útilokað að skilja þetta; út fjörðinn, inn dalinn sem er utar. Þarna hefði blaðamaðurinn átt að fá nánari skýringar nema því aðeins að hann skilji málsgreinina. Ég er með kort fyrir framan mig og átta mig ekki á því hvað viðmælandinn er að segja. Líklega eru fleiri lesendur áttavilltir.

Tillaga: Við ætlum líka að opna fleiri leiðir …

7.

„Ásgerður hlaut þó ekki kjör í stjórn.

Frétt á blaðsíðu 4 í Viðskiptamogganum 19.4.23.

Athugasemd: Orðalagið „hljóta kjör“ er ekki beinlínis rangt en tillagan er skárri. Hvers vegna? Vegna þess að hún var ekki kosin eða kjörin. Nafnorðið kjör á móti sögninni að kjósa.

Tillaga: Ásgerður var samt ekki kosin í stjórn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loncexter

Getur verið að íslenskukennsla sé í einhverju lamasessi ?

Og hverjum er um að kenna ?

Loncexter, 20.4.2023 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband