Verða að ósk - hraun sem ferðast - Sundahnjúgagígar

Orðlof

Sambandlaus máltilfinning

N.8: Litlu sigrarnir eru fleiri því að þeim fréttamönnum hefur fækkað sem taka máltilfinningu sína úr sambandi. Og virðuleg menntastofnun, sem hafði breytt nafngiftinni „starfsmannafundur“ í vandræðaorðið „starfsfólksfund“, sneri ákvörðun sinni við þegar þetta var orðið aðhlátursefni innan skólans. 

N.9: Og starfsmaður við Háskóla Íslands fór allt í einu að kalla sig „forkonu“ í einni nefndinni og brást ókvæða við léttu gríni sem gert var að þessu. Annar starfsmaður bætti svo um betur og vildi verða „forynja“. 

Baldur Hafstað. Tungutak á blaðsíðu 30 í Morgunblaðinu 4.11.23.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þeir vildu ekki verða þeirri ósk.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Þetta er alls ekki nógu gott, ekki bjóðandi.

Tillaga: Þeir vildu ekki verða við óskinni.

2.

„Vefmyndavél RÚV hefur verið komið fyrir á Þorbirni. Vélin snýr i norðvestur með útsýni yfir Þórðarfell.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Ranglega er sagt að það sjáist yfir Þórðarfell, það sést til þess, ekki yfir. 

Tillaga: Vefmyndavél RÚV hefur verið komið fyrir á Þorbirni. Vélin snýr í norðvestur sést meðal annars til Þórðarfells.

3.

„Ég tel þó að viðbragðsliðar og aðrir séu eins langt og slíkt nær þokkalega undirbúnir …

Frétt á blðsíðu 4 í Morgunblaðinu 6.11.23.. 

Athugasemd: Orðið viðbragðsliði er skárra en draslorðið „viðbragðsaðili“. Hins vegar bögglast fyrir lesandanum hverjir þessir „aðrir“ eru. Líklega er átt við Happdrætti Háskólans, kór Öldutúnsskóla og „aðra“.

Hvorugt þessara orða, viðbragðsliði eða „viðbragðsaðili“ eru nauðsynleg. Þeir sem bregðast við eru yfirleitt lögreglan, slökkvilið, sjúkralið, björgunarsveitir og aðrir sem koma þar að sem þörf er á aðstoð.

Hér áður fyrr var engin þörf á að hafa eitthvað sameiginlegt orð yfir ofangreind lið og engum blaðamanni ofraun að nefna þau.

Sumum finnst að Íslendingar verði að eiga eigin „response team“ að hætti útlendra. Í fljótfærni hnoðaði einhver saman orðunum viðbragð og aðili (andstyggilega ljótt orð) og útkoman var draslorðið sem allir blaðamenn virðast þurfa að nota.

Tillaga:Ég tel þó að lögreglan, slökkvilið, sjúkralið, björgunarsveitir séu þokkalega undirbúnir …

4.

„Við getum fengið kvikustróka sem geta framleitt hraun sem ferðast með nokkurra kílómetra hraða á klukkustund …

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 6.11.23. 

Athugasemd: Hraun ferðast ekki, þau renna nema köld séu. Hraun úr gígnum Rauðabotni rann fimmtíu og fimm km. Það væri líklega í dag kallað „hraunferðalag“. 

Fólk ferðast um landið og jafnvel til útlanda. Hraun gera það ekki. Bílar ferðast ekki, þó er talað um bílaferðalög vegna þess að fólk stjórnar bílum. Aldrei er talað um hraunferðalög.

Enskumælandi segja:

We can get magma plumes that can produce lava that travels at several kilometers per hour …

Ekkert er að þessu orðalagi, svona er enskan. Sumir villingar segja að grettistak sem hrynji úr fjallshlíð „ferðist“ að rótum hennar. Þá má sleppa því að tala um skriðu og taka þess í stað upp „grjótferðalög“ eða „efnisferðir“

Tillaga: Myndast geta kvikustrókar með hrauni sem rennur með nokkurra kílómetra hraða á klukkustund …

5.

„Vísbendingar séu um að kvika sé á hreyfingu á svæði sem liggur frá Sundhnjúgagígum í norðri í átt að Grindavík.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Mistök má laga. Í öllum tölvum blaðamanna eru forrit sem leiðrétta stafsetningu. Þar að auki eru til landakort á netinu og í þeim er jafnvel hægt að leita að örnefnum. 

Hnúkurinn er samkvæmt korti Landmælinga efsti hlutinn á Hagafelli norðan við Grindavík, örskammt frá Þorbjarnarfelli. Sundhnúksgígar eru þar fyrir norðan og eru gígaröð sem gengur í norðaustur.

Þarna er líka Sýlingarfell, líka skrifað Sýlingafell. Torkennilegt örnefni. Í Íslenskri orðsifjabók segir að sögnin að sýla merki að gera skarð eða skoru í eitthvað. Sýling, sýldur getur verið fjármark, eyrnamark. Og viti menn efst í Sýlingarfelli er lægð, vera má að nafn fjallsins sé dregið af henni, sýlingunni.

Tillaga: Vísbendingar séu um að kvika sé á hreyfingu á svæði sem liggur frá Sundhnúksgígum í norðri í átt að Grindavík.

6.

„Ef gos kem­ur upp í sjó …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvað breytist ef tengingunni er sleppt? Ekkert. Merkingin breytist ekkert. Þess vegna er hún aldrei notuð í þessu samhengi. 

Tillaga: Ef gos kem­ur upp í sjó …

7.

„Hann tekur fram að hann viti ekki mikið um hvernig voðaskotið hafi átt sér stað.

Frétt á visir.is. 

Athugasemd: Allt virðist „eiga sér stað“. Málsgreinin er illa samin. Hafi viðmælandinn sagt þetta ber blaðamanninum að færa orðalag hans til betri vegar. Það hefði verið báðum til sóma.

Tillaga: Hann tekur fram að hann viti ekki mikið um voðaskotið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband