Sérstakt að verða meistari - aukið viðbragð - ég sé okkur ekki ná í sigur

Orðlof

Hérlendis og erlendis

Orðið erlendis merkir ’í útlöndum’ og hefur þannig gagnstæða merkingu við hérlendis. Lengst af hefur það eingöngu verið haft um dvöl í öðrum löndum, t.d. er hægt að segja 

„Þau hafa búið erlendis árum saman“. 

Á síðustu árum hefur borið á því að þetta orð sé notað með hreyfingarsögnum, eins og fara, og þá í merkingunni ‘til útlanda’. 

Þetta brýtur í bága við hefðbundna merkingu og notkun orðsins og særir málkennd margra. 

Þess vegna hefur verið amast við setningum eins og 

„Ætlarðu að fara erlendis í sumar?“ 

í stað þess að segja „til útlanda“.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Sér­stakt að verða heims­meistari í nánast tómri höll.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Sérstakur er lýsingarorð og getur merkt svo óskaplega margt í nútímamáli. Hvað átti handboltamaðurinn við? Var þetta áhugavert, ógleymanlegt, sérkennilegt, minnisstætt, stórkostlegt, skemmtilegt og svo framvegi.

Útlendur íþróttamaður sagði um daginn að Grindavík væri sérstakur staður. Hvað átti hann við? Var þetta sagt í neikvæðum eða jákvæðum tón. Hvort var hann hrifinn af bænum eða þótti hann ljótur?

Vinur minn sagði um daginn að kunningi okkar væri vægast sagt frekar sérstakur.

Unglingsstúlkan sagði að bíómyndin hafi verið æðislega sérstök. Hún var greinilega hrifin.

Allir vita að aðstæður í Grindavík eru nú afar sérstakar.

Sérstök lög um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi voru samþykkt 13. nóvember 2023.

Sérstakur er merkilegt orð eins og hér hefur sérstaklega verið rakið. Skyldi merkingin hafa breyst og hana þurfi að ráða í af því samhengi sem hún er í.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Hraun sem kæmi upp milli Sund­hnúks og Haga­fells gæti sent hraun til vest­urs í átt að Svartsengi, til aust­urs og suðaust­urs og þar með í átt að Grinda­vík, og það sama gerðist ef hraun færi til suðurs meðfram Grinda­vík­ur­vegi.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er illskiljanlegt. Blaðamaðurinn les ekki yfir það sem hann skrifar. Lesandi skilur ekkert.

Í fréttinni segir:

Eins og fjallað hef­ur verið um á mbl.is hef­ur at­hygli jarðvís­inda­manna að und­an­förnu beinst í aukn­um mæli að Sund­hnúki og Haga­felli. Kvika er tal­in streyma upp af miklu dýpi við Sund­hnúk og við Hagafell er jafn­vel talið lík­leg­ast að gjósa muni, komi til þess.

Í sannleika sagt er þetta bölvað hnoð. Eftirfarandi er skárra:

… und­an­förnu beinst sífellt meir að Sund­hnúki og Haga­felli. Þar er talið að kvika streymi upp af miklu dýpi og muni hugsanlega enda með gosi.

Aukinn mælir er leiðinlegt orðalag.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

Aukið við­bragð í kjöl­far grunsamlegra manna­ferða.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Viðbragð merkir samkvæmt orðabókinni snöggur kippur eða svörun af einhverju tagi. 

Í fréttinni er fjallað um meiri gæslu vegna óæskilegra mannaferða. Lögga sem er viðmælandi blaðamannsins segist hana vera með „takmarkað viðbragð“. Líklega er átt við að ekki séu nógu margar löggur til að sinna eftirliti og þá á löggan við að gæsla verði efld. 

Sé ekki nægur mannskapur til gæslustarfa ætti að orða það þannig. Ekki búa til eitthvað sem kann að vera gáfulegt eða flott. Alþýðlegt mál er alltaf best.

Sá sem rekur olnbogann óvart í eitthvað tekur viðbragð og segist hafa meitt sig í „vitlausa beininu“. Komi þetta aftur fyrir og maðurinn félli á gólfið er þá hægt að segja að hann „taki aukið viðbragð“?

Ekki er öll vitleysan eins á degi íslenskrar tungu.

Tillaga: Gæsla efld í kjöl­far grunsamlegra manna­ferða..

4.

„Segir viðbúið að staðan á Reykjanesskaga hafi áhrif á ríkissjóð

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Tillagan er skárri en tilvitnunin.

Tillaga: Býst við að staðan á Reykjanesskaga verði ríkissjóði dýr.

5.

Ég sé okkur ekki ná í sigur.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Líkast til eru allir orðnir skyggnir eða þeir horfi í kristalskúlu eða í kaffibolla eða í spil. 

Íþróttablaðamenn segja að lið geti „náð í sigur“. Þeim er meinilla við að einhver sigri eða tapi.

Tillaga: Ég býst ekki við sigri.

6.

„Sá reynslu­­mesti klárar stúdentinn.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Rýr orðaforði skýrir margt.

Tillaga: reyndasti klárar stúdentinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan daginn.
Mætti ekki segja ; ,,Ég hyggst fara utan til Danmerkur" og ..ég vil fljúga út til Íslands."  
Með kveðju, Guðfinnur

Guðfinnur Pálmar Sigurfinnsson (IP-tala skráð) 20.11.2023 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband