Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021

Basic kúbein, ennþá og tímapunktur

Orðlof

Málfar RÚV

Allt starfsfólk RÚV skal vanda mál sitt og vera til fyrirmyndar um málnotkun. Því ber að kynna sér málstefnu RÚV og haga störfum sínum í samræmi við hana. Það hefur aðgang að málfarsráðgjöf og yfirlestri handrita og annarra skjala, því ber að leita til málfarsráðgjafa þegar ástæða þykir til og jafnframt taka við ábendingum málfarsráðgjafa.

Málstefna RÚV, 4 liður.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Camilla ekki í af­mæli Sól­rún­ar Diego.“

Fyrirsögn í mbl.is.                                         

Athugasemd: Fréttamat Moggans er stundum skrýtið. En í trúnaði sagt fór ég fór ekki heldur í afmælið og enginn birti frétt um það. 

Tillaga: Engin tillaga.

2.

LUX KÚBEIN 500MM BASIC“

Fyrirsögn á vef byko.is.                                          

Athugasemd: Ég rakst á auglýsingu um kúbein sem kallað er „basic“ á ensku sem þýðir líklega grunnútgáfan. Velti því fyrir mér hvernig hinar útgáfurnar af kúbeini séu. Hljóta að vera kallaðar á ensku „advanced“.

Nú kann einhver að spyrja hvers vegna ég er að masa um þetta. Ástæðan er einföld. Ég er alltaf hissa á ensku í auglýsingum sem ætlaðar eru fyrir Íslendinga. 

Tillaga: Engin tillaga.

3.

Mér finnst ég enn þá ör­ugg hérna.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                           

Athugasemd: „Þetta er vitlaust í Mogganum,“ sagði konan sem hringi í mig. Ég var ekki alveg viss af því að ég er óþægilega oft sammála síðasta ræðumanni.

Eldsnöggt fletti ég upp í málið.is. og þar stendur:

Rita skal enn þá í tveimur orðum. Sjá § 2.6.1 í Ritreglum.

Og sekúndubrotum síðar gat svarað konunni með kennimannslegum rómi að þetta væri rétt á moggavefnum. Hún kvaddi með þökkum og ég andaði léttar.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Söluhæsti Íslendingurinn.

Frétt á blaðsíðu 52 í Morgunblaðinu 27.1.21                                         

Athugasemd: Held að Toyota sé söluhæsti bíllinn á Íslandi á árinu 2020. Vera má að einhver kornflextegund sé söluhæst, söluhæsta sinnepið, söluhæsta ilmvatnið og svo framvegis. Þó er ég dálítið efins um að maður geti verið söluhæstur, jafnvel þó bækur hans seljist í fleiri eintökum en annarra. Varla er verið að selja menn.

Bannað er að selja fólk. Nema auðvitað í handbolta, fótbolta og öðrum boltaíþróttum. Held að hann heiti Gylfi Sigurðsson í fótboltafélaginu Everton á Englandi hafi verið seldur fyrir hærri fjárhæð en nokkur annar íslensku sparkari. Líklega er hann söluhæsti Íslendingurinn.

Hins vegar held ég að flestir átti sig á fyrirsögninni vegna þess að mynd af þjóðþekktum rithöfundi er birt með fréttinni. Ég viðurkenni að tillagan hér fyrir neðan er ekkert sérstaklega góð því halda mætti að fréttin væri þá um bóksölumann, jafnvel bókabúð.

Líklegast er þetta bara ansi gott. Söluhæstur er sá sem selur mest. Og nú er ég líklega kominn í hring.

Tillaga: Hefur selt flestar bækur.

5.

segir að þó langt sé til kosninga sé þetta góður tímapunktur til að opinbera áform sín.

Frétt á ruv.is.                                       

Athugasemd: „Tímapunktur“ er óþarft orð, eiginlega gagnslaust. Hingað til hefur nafnorðið tími dugað ágætlega. Vilji skrifarar vera nákvæmari er tilvalið að geta dags, klukkustundar, mínútu eða sekúndu.

Fréttin fjallar um bæjarstjórann á Seltjarnarnesi sem ætlar að hætta að loknu kjörtímabilinu. Vitnað er í blaðið Nesfréttir. En í frétt blaðsins er ekki talað um „tímapunkt“ og því er það tilbúningur blaðamanns Ríkisútvarpsins. 

Í Nesfréttum er hins vegar talað um bæjarstjórinn ætli að “setja endapunkt“. Þetta orð er eiginlega ekkert skárra en „tímapunktur“. Og þó. 

Vera kann að það sé tilbreyting að nota „endapunkt“ í stað þess að tala um það sem gerist síðast, í lok atburðarásar, samstarfs eða álíka. Annars er yfirleitt punktur við enda málsgreina. Vera má að orðið „endapunktur“ hafi verið fundið upp til að gera greinarmun á punkti sem segir til um raðtölu og lok setningar. Að öðru leyti má deila um gagnsemi orðsins.

Orðið „tímapunktur“ er ekki eins liðugt. Það er bara rassbaga. Runninn upp úr ensku þar sem segir „point of time“.

Tillaga: … segir að þó langt sé til kosninga sé þetta góður tími til að opinbera áform sín.


Komst í skiptimynt, Biden vígður og Harris brýtur blað um allan heim

Orðlof

Málfar RÚV

Allt starfsfólk RÚV skal vanda mál sitt og vera til fyrirmyndar um málnotkun. Því ber að kynna sér málstefnu RÚV og haga störfum sínum í samræmi við hana. Það hefur aðgang að málfarsráðgjöf og yfirlestri handrita og annarra skjala, því ber að leita til málfarsráðgjafa þegar ástæða þykir til og jafnframt taka við ábendingum málfarsráðgjafa.

Málstefna RÚV, 4 liður.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Inn­brotsþjóf­ur­inn komst í skipti­mynt í sjóðsvél.“

Frétt í mbl.is.                                         

Athugasemd: Hvað gerir það til þó þjófurinn hafi komist í skiptimynt hafi hann ekki stolið henni. Hafi hann komist yfir myntina er ljóst hvað hann gerði.

Í fréttinni er sagt frá innbroti í „hverfi 108“. Ekki er vitað hvar það hverfi er nema ef löggan og blaðamaðurinn haldi að póstnúmer skipti Reykjavík í hverfi. Svo er ekki.

Tillaga: Inn­brotsþjóf­ur­inn komst yfir skipti­mynt í sjóðsvél.

2.

Hlédís Sveinsdóttir, eitt af tilraunadýrum Lóu Pind í Kjötætur óskast! …“

Frétt á vísir.is.                                         

Athugasemd: Er ekki hræðilegt að vera mennskt tilraunadýr í sjónvarpsþætti sem nefnist „Kjötætur óskast“? Líklega á að éta mann.

Blaðamenn þurfa að velja orð sem hæfa umfjöllunarefninu. Orðið tilraunadýr á ekki við í þessu samhengi.

Fleira má nefna úr fréttinni: Hvað er til dæmis átt við með orðalaginu „jarðber sem voru farin að eldast“? Eru jarðberin ofþroskuð, komin fram yfir síðasta söludag, skemmd …? Illt er ef lesandinn þarf að giska á hvað blaðamaðurinn á við.

Tillaga: Hlédís Sveinsdóttir, eitt af þátttakendum Lóu Pind í Kjötætur óskast! …

3.

73 ný kór­ónu­veiru­smit voru skráð í héraðinu Jil­in …“

Frétt á mbl.is.                                         

Athugasemd: Sumir blaðamenn á Mogganum virðast nota öll tækifæri til að byrja setningu á tölustaf. Í fyrstu grein ritreglna mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir:

Stór stafur er alltaf ritaður í upphafi máls og í nýrri málsgrein á eftir punkti. 

Líklega hafa þeir sem sömdu reglurnar ekki vitað að til eru örfáir atvinnuskrifarar á Íslandi sem ekki fylgdust með í íslenskutímum í skóla og skrifa tölustaf í upphafi setningar. Annar hefði verið sett þessi regla:

Ekki skal rita tölustaf í upphafi setningar nema í bókstöfum.

Á Mogganum lesa blaðamenn líklega ekki yfir fréttir kollega sinna. Ella myndu þeir segja: 

Svona gera menn ekki. 

Orðalagið minnir á það sem mikilhæfur stjórnmálamaður sagði á Alþingi árið 1994 þegar rætt var um að skattleggja þyrfti blaðburðarbörn. En það er nú allt annað og óskylt mál.

Tillaga: Í héraðinu Jilin voru skráð 73 ný kórónuveirusmit …

4.

Joe Biden vígður í embætti forseta.“

Fyrirsögn á ruv.is.                                          

Athugasemd: Óskaplega er þetta nú aumt. Nei, Biden verður ekki „vígður“ í embætti forseta Bandaríkjanna. Þvílík della og heimska að láta svona frá sér fara. Þrátt fyrir þessa vitleysu segir í megintexta fréttarinnar:

Joe Biden verður svarinn í embætti forseta Bandaríkjanna í dag.

Og þarna er þetta rétt, forsetaefnið er látið sverja eið og því er hann svarinn.

Vígja merkir allt annað. Á málið.is segir:

vígja sagnorð; lýsa trúarlega helgi yfir (e-ð) með vígsluathöfn

biskupinn vígði prestinn til starfa

Á sama vef segir:

sverja sagnorð; vinna eið (að e-u), strengja (e-s) heit

hann sór þess eið að koma fram hefndum

[…] sverja; vinna eið; lýsa hátíðlega (eða strengilega) yfir …

Þetta bendir til þess að sá sem skrifaði fyrirsögnina sé ekki hinn sami og skrifaði fréttina. 

Svo má auðveldlega orða það þannig að Joe Biden verði settur í embætti forseta Bandaríkjanna. Hvernig það er gert er svo allt annað má; hann þurfi að sverja eið, sverja við drengskap sinn eða mannorð.

Svo má þess geta að líklega er 20. janúar 2021 svardagi Joe Biden. Orðið merkir „eiðfestur sáttmáli, eiður“. Og því gæti fyrirsögnin verið:

Nú er svardagi Joe Bidens verðandi forseta.

Nefna má einnig lýsingarorðið svarinn sem þekkist núorðið aðeins í orðalaginu „svarinn óvinur“ og merkir mikill óvinur, einbeittur.

Tillaga: Joe Biden settur í embætti forseta.

5.

Harris brýtur blað um allan heim“

Millifyrirsögn á ruv.is.                                          

Athugasemd:  Þetta er skýrt dæmi um orðalag er alls ekki í samræmi við fréttina, er ónothæft. Orðalagið að brjóta blað merkir að valda þáttaskilumstraumhvörfum. Hér er átt við að kjör Harris sem varaforseta Bandaríkjanna marki tímamót. Engin rök koma fyrir í fréttinni sem réttlætir fyrirsögnina.

Flestir sem eru vanir bóklestri hafa brotið blað, það er beyglað efra horn blaðsíðunnar sem merki um hvert er komið í lestrinum. Þetta þótti nú ósiður á mínu æskuheimili og mér var sagt að skemma ekki bækur á þennan hátt, nota frekar bókamiða. Ég lét mér nú ekki segjast og geri þetta enn. Og segja má að ég hafi brotið blað víða um heim.

Vont er þegar blaðamenn nota ekki orðatiltæki og málshætti rétt. Slíkt er eins og blaut tuska úr heiðskírum himni og er því betra að stökkva varlega yfir lækinn til að sækja vatn í brennandi hús. Eða þannig.

Tillaga: Embættistaka Harris markar tímamót.


Til fjögurra mánaða og viðbragðsaðilar

Orðlof

Rannsókn

Rannsóknir eru margs konar nú á dögum og menn rannsaka allt milli himins og jarðar. 

Upphaflega var merking orðsins rannsókn þó mun þrengri. Fyrri hluti orðsins er dregin af gömlu orði sem nú er tæpast notað, rann (hvorugkyn) eða rannur (karlkyn) sem merkti hús eða heimili. 

Síðari hlutinn, ‘-sókn’, merkir ‘leit’ þannig að upprunaleg merking samsetta orðsins er eiginlega ‘húsleit’. 

Norræna sögnin rannsaka var tekin upp í ensku fyrir margt löngu og þar er hún ennþá notuð í merkingu sem er nær þeirri upprunalegu en sú sem hún hefur í nútíma íslensku. Enska sögnin ransack merkir nefnilega ‘að gera (hús)leit, leita vandlega’ en hún getur reyndar líka merkt ‘að ræna og rupla’.

Orðabelgur.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Var hann svipt­ur skip­stjórn­ar­rétt­ind­um til fjög­urra mánaða og …“

Frétt á mbl.is.                                         

Athugasemd: Var maðurinn ekki sviptur réttindum í fjóra mánuði? Sá sem ekur fullur á það á hættu að missa ökuréttindin í ár, ekki „til árs“.

Tillaga: Hann var svipt­ur skip­stjórn­ar­rétt­ind­um í fjóra mánuði og …

2.

Sam­tökin greindu þó frá því í yfirlýsingu að þau væru ekki í efnahags­legum vand­ræðum og að fjárhagur þeirra væri sterkari en áður fyrr en breytingin myndi hag­ræða rekstur sam­takanna.“

Frétt á frettabladid.is.                                         

Athugasemd: Málsgreinin er óskiljanleg. Í fréttinni er sagt frá NRS sem er samtök byssueigenda í Bandaríkjunum en þau hafa óskað eftir gjaldþrotaskiptum. 

Af því leiðir að ofangreind tilvitnun skilst enn síður en ella. Þar að auki skilst ekki hvernig gjaldþrota samtök séu „ekki í efnahagslegum vandræðum“, „fjárhagur þeirra væri sterkari en áður“ og „breytingin myndi hagræða rekstur samtakanna“.

Held að blaðamaðurinn hafi ruglast í þýðingunni, hann hefur skrifað það sem orðin merkja en skilur ekki hvað átt er við. 

Líklega hafa prófarkalesarar Fréttablaðsins verið í fríi þegar blaðamaðurinn fékk að leika lausum hala og birta þessa frétt.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var fjölskylda í bílnum; maður, barn og kona.

Frétt á visir.is og ruv.is og frettabladid.is.                                       

Athugasemd: Orðalagið kemur frá löggunni. Hún er varla skrifandi. Athygli vekur að skýrir blaðamenn á Vísi, Ríkisútvarpinu og Fréttablaðinu skuli ekki breyta þessu og færa til betri vegar. Mogginn hefur þetta hins vegar rétt. Og dv.is af öllum miðlum segir:

var um að ræða fólksbíl með þriggja manna fjölskyldu innanborðs.

Þetta er nokkuð góð málsgrein en hefði mátt vera svona:

… var í fólksbílnum þriggja manna fjölskylda.

Óþarfi þessi orð; „um að ræða“ og „innanborðs“. Að öðru leyti bara gott hjá DV; ekki falleinkunn eins og þeir fá hjá Vísi, Ríkisútvarpinu og Fréttablaðinu.

Til að forðast allan misskilning tilkynnist hér með að konur eru menn, rétt eins og karlar. Annað væri ómannlegt. Margt bendir til að börn séu líka menn, en vissara er að spyrja lögguna áður en það er fullyrt. 

Og „manneskja“ er maður og oftast er betra til notkunar en fyrrnefnda heitið.

Tillaga: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru hjón með eitt barn í bílnum.

4.

Klukkutíma eftir útkallið komu viðbragðsaðilar á vettvang.“

Frétt á visir.is.                                         

Athugasemd: Áður en lögregla koma að bílslysi höfðu vegfarendur unnið að því að bjarga fjölskyldunni. Með réttu eiga þeir því að kallast „viðbragðsaðilar“.

Orðið „viðbragðsaðili“ er eitt af þessum furðulegu orðum sem fjölmiðlar hafa búið til í tengslum fréttir af óhöppum, slysum og náttúruhamförum. 

Við vitum að lögreglan bregst við mörgu, sama er með slökkvilið, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitir, Landhelgisgæsluna, húsverði, gangbrautarverði, meindýraeyði og jafnvel þá sem ryðja snjó af þjóðvegum. Þar að auki má nefna vegfarendur eða þá sem eru nærstaddir. Allir geta í raun verið „viðbragðsaðilar“. 

Hvaðan kemur þetta orð, „viðbragðsaðili“. Má vera að blaðamenn þekki enska orðalagið „response team“ og þýði það sem „viðbragðsaðili“ sem er lélegur kostur.

Á vef Wikipediu segir:

An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident …

Algjör óþarfi að kalla björgunarsveit annað sínu rétta nafni. Sama er með lögreglu, slökkvilið, landhelgisgæslu og sjúkraflutningamenn.

Á malid.is segir:

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.

T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en „ábyrgðaraðili“, „dreifingaraðili“, „eignaraðili“, „hönnunaraðili“, „innheimtuaðili“, „söluaðili“, „útgáfuaðili“.

Í upptalninguna vantar letiorðið „viðbragðsaðili“ sem má alveg hverfa úr málinu vegna þess að auðvelt er að nefna þá sem koma að óhöppum, slysum eða náttúruhamförum sínum réttu nöfnum. Íslenskan þarf ekki svona orð.

En það er lítil von til að „fjölmiðlaaðilar“ láti af ósið sínum.

Tillaga: Engin tillaga.


Hún varð hvelft við og gefa sig fram til lögreglu

Orðlof

Kredda

Kreddufesta þykir ekki skemmtilegur eiginleiki hjá fólki þó að uppruni orðsins kredda sé ekki endilega neikvæður. 

Credo á latínu merkir ‘ég trúi’ og trúarjátning kristinna manna kallast credo enda hefst hún á orðunum „Credo in unum deum ...“ á latínu. Kredda merkir því upphaflega ’trúarjátning, trúarsetning’ eða eitthvað í þá veruna en hefur síðar fengið neikvæða aukamerkingu. 

Nú er orðið haft um skoðun sem einhver hefur bitið í sig og trúir í blindni og þeir sem eru kreddufastir halda því fastar í skoðanir sínar en ef til vill væri rétt.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

… að fólkið hefði dottið nálægt toppnum Svínafellsmegin.“

Frétt á ruv.is.                                        

Athugasemd: Tveir menn duttu í hlíðum Móskarðshnúka, líklega austasta tindinum sem nefnist Móskarðshnúkur. Hvergi er í nánd fjall sem ber nafnið Svínafell. Aftur á móti er Svínaskarðið á milli Móskarðshnúks og Skálfells. 

Blaðamaðurinn kann að hafa tekið rangt eftir. Alltaf er best að skoða landakort áður en álíka fréttir eru birtar. Fjöldi örnefna er á korti Landmælinga og sáraeinfalt að kalla það fram á tölvuskjá. Loftmyndir bjóða upp á afskaplega vandaðar loftmyndir, svo skýrar og nálægt jörðu að undrum sætir. Þessi kort eru öllum handhæg sem nenna að nota tölvu sína í heimildavinnu.

Svo er það hitt að afar ótrúlegt er að fólk hafi verið á ferð „Svínaskarðsmegin“. Þar er ekki gönguleið, afar bratt og stórhættulegt að vera í ís og skara.

Grundvallarartriði í fjallaferðum að vetrarlagi er að vera með ísöxi og jöklabrodda og kunna að nota græurnar. Svokallaðir mannbroddar eru stórhættulegir í fjallaferðum, nokkuð auðvelt að komast upp á þeim en erfitt að beita þeim á niðurleið.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Hálfs metra snjó­koma í Madrid.

Fyirsögn á mbl.is.                                         

Athugasemd: Er þetta ekki vitlaust í Mogganum? var ég spurður. Það held ég ekki, hrökk upp úr mér. En ég var ekki vissari en svo að ég þurfti að fletta orðinu metri upp. Þá fékk ég fullvissu mína og orðið er hárrétt skrifað í fyrirsögninni. Það beygist svona:

Metri, um metra frá metra til metra.

Eins í öllum föllum nema nefnifalli. Aftur á móti þekkist orðið meter sem er mörgum tamt að nota. Flestir gáfumenn mælast til þess að nota frekar metra og hef ég reynt að hlýða því.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Ó­hætt er að segja að borgar­full­trúi Sam­fylkingarinnar, Sabine Leskopf, hafi orðið hvelft við …

Fyirsögn á hringbraut/frettabladid.is.                                         

Athugasemd: Sögnin að hvelfa merkir að setja á hvolf. Hvelfdur er lýsingarorð og merkir kúptur. 

Líklega hefur blaðamaðurinn ætlað að nota orðið atviksorðið hverft sem merkir að bregða. Nafnorðið borgarfulltrúi ætti þarna að vera þarna í þágufalli; borgarfulltrúanum hafi orðið …

Tillaga: Ó­hætt er að segja að borgar­full­trúa Sam­fylkingarinnar, Sabine Leskopf, hafi orðið hverft við …

4.

„Gaf sig fram til lögreglu eftir árásina í Borgarholtsskóla.

Fyirsögn á visir.is.                                       

Athugasemd: Fyrirsögnin vekur undrun. Frekar er þetta órökrétt að gefa sig fram „til lögreglu“. Í fréttinni segir:

Eins þeirra var leitað í allan gærdag en hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu seint í gærkvöld …

Hér er orðalagið með hefðbundnum hætti, maðurinn gaf sig fram „við lögreglu“. Þetta getur bent til að blaðamaðurinn hafi ekki skrifað fyrirsögnina. Þess ber að geta að síðar var fyrirsögninni breytt og og er hún núna eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Í fréttinni er sagt að ungmennin hafi verið „vistuð“ í fangaklefa eða á „viðeigandi stofnun“. Orðalagið er örugglega komið frá löggunni. Enginn tala svona. Alþýða manna segir að fólk sé sett í fangelsi eða komið fyrir á „viðeigandi stofnun“. Líklega er það ekki nógu fínt mál.

Í Málfarsbankanum segir: „Bæði er hægt að segja í gærkvöld og í gærkvöldi“. Fyrrnefnda orðmyndin er nær eingöngu notuð af fréttamönnum Ríkisútvarpsins og hefur smitast til annarra fjölmiðlamanna. Alþýða manna nota hina.

Tillaga: Gaf sig fram við lögreglu eftir árásina í Borgarholtsskóla.


Er horfin og missa vinnur

Orðlof

Spænskt fyrir sjónir

Þegar fólki þykir eitthvað undarlegt er stundum sagt að það komi spánskt fyrir sjónir. 

Orðatiltækið kemur upphaflega úr þýsku. Árið 1519 fengu Þjóðverjar spænskættaðan keisara, Karl V. Sá hafði vanist spænskum siðum og háttum og innleiddi þá við hirð sína í Þýskalandi. 

Hirðmönnum hans þóttu margir þessara siða ansi undarlegir, hristu gjarnan hausinn og muldruðu í barm sér: 

„Das kommt mir spanisch vor!“.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Hvernig væri lífið ef það væri dregið fyrir himininn.“

Frétt á ruv.is.                                       

Athugasemd: Þetta er ekki rangt orðalag. „Það“ er svokallað aukafrumlag, stundum kallað leppur og hefur enga sjálfstæða merkingu en er mjög algengt í talmáli: Það er nú það. Það er blessuð blíðan. Það var fjör á ballinu. Það er líf eftir dauðann. 

Ég er svo sem ekkert sérstaklega á móti leppnum en reyni að sleppa honum ef ég mögulega get. Þá þarf oft að ummorða og um leið verður oft mikill galdur, setningin eða málsgreinin verður skýrari. Vísa til fyrri skrifa um aukafrumlagið, sjá hér.

Tillaga: Hvernig væri lífið ef dregið væri fyrir himininn.

2.

„Farþega­flug­vél er horf­in af rat­sjám í Indó­nes­íu, skömmu eft­ir að hún tók á loft frá höfuðborg­inni Jakarta.

Frétt á mbl.is.                                        

Athugasemd: Skrýtið orðalag. Af hverju notar blaðamaðurinn ekki þátíð sagnarinnar að hverfa eins og eðlilegt er? Flugvélin hvarf og því er óþarfi að nota lýsingarhátt þátíðar; er horfin.

Í fréttinni segir:

Um er að ræða 27 ára gamla Boeing …

Mun skárra er að sleppa klisjunni og segja:

Flugvélin er tuttugu og sjö ára gömu Boeing …

Ungir og óreyndir blaðamenn þurfa tilsögn. Hún virðist ekki í boði á Mogganum frekar en öðrum fjölmiðlum. Verst er hversu margir blaðamenn byrja á fjölmiðlum án þess að hafa reynslu í skrifum.

Tillaga: Farþega­flug­vél hvarf af rat­sjám í Indó­nes­íu, skömmu eft­ir að hún flaug frá höfuðborg­inni Jakarta.

3.

„Mikið áfall að missa föður sinn allt of snemma.

Frétt á mbl.is.                                        

Athugasemd: Er það ekki hámark letinnar þegar einn fjölmiðill býr til frétt um viðtal sem birt er í allt öðrum og óskyldum? Mogginn birtir hér frétt um viðtal sem er á forsíðu Fréttablaðsins, sjá hér.

Dv birtir ósjaldan vafasaman úrdrátt um forystugreinum og Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem hugsanlega getur veitt óvandað fólk til að skrifa í athugasemdadálkinn. Í dag vekur dv.is athygli á leiðara Fréttablaðsins og er passlega mikið vitnað í hann. Og viti menn, fjölmargir bíta á. Þetta þykir ekki merkileg blaðamennska.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Nicky og William misstu vinnur sínar vegna COVID-19 en …

Frétt á dv.is.                                        

Athugasemd: Vinna er eintöluorð sem þýðir að það er ekki til í fleirtölu.

Skyldi ekki vera aumt að vinna á fjölmiðli og þurfa að skrifa heimskulegar „fréttir“. Þessi er eins sú vitlausasta sem um getur og jafnframt illa fram reidd.

Tillaga: Nicky og William misstu vinnuna vegna COVID-19 en …


Athugasemdir um málfar flutt um set

Pistlar um málfar í fjölmiðlum verða framvegis hér, á bloggsíðunni malfar.blog.is. Ástæðan er einfaldlega sú að ég vil gera greinarmun á umfjöllun um íslenskt mál og pistla um önnur efni, til dæmis pólitík og ýmis konar dægurmál.

Ég hef skrifað málfarspistla í tæp þrjú ár. Upphafið var að ég sendi stundum Eiði Guðnasyni línu um málfar. Hann hafði lengi skrifað um málfar í fjölmiðlum, var með bloggsíðuna eidur.is sem er enn opin. Við Eiður vorum málkunnugir og við deildum stundum um stjórnmál en áttum margt sameiginlegt. Eiður lést 30. janúar 2017. Ég minntist hans á bloggsíðu minni, sjá nánar hér.

Þetta ár byrjaði ég að skrifa um málfar í fjölmiðlum en það var ekki fyrr en 16. júlí 2019 að ég byrjaði að skrifa á þann veg sem ég hef gert síðan. Um leið lagfærði ég uppsetninguna og  í lok september það ár tókst mér að finna mér formið sem bloggið sem ég hef notað síðan. Þó er ég alls ekki ánægður með það, en Moggabloggið er afar takmarkað, gefur ekki neina góða möguleika á góðri uppsetningu.

Síðan ég byrjaði umfjöllunina ef ég lært mikið um málfræði, stíl og ekki síst um blaðamennsku. Fyrir utan vefsíðu Eiðs Guðnasonar hef ég haft gríðarlega mikið gagn af því að fletta upp í vefsíðu Jónasar Kristjánssonar, sem hafði glöggan skilning á blaðmennsku og íslensku máli. Verst að hafa ekki kynnst honum. Síðan hans er líka opin, jonas.is

Tilgangurinn með skrifum mínum er að benda á dæmi um slæmt málfar í fjölmiðlum. Það er alltof algengt og til mikils skaða fyrir íslenskuna. Margt slæmt á uppruna sinn í skrifum blaðamanna. Til dæmis orðalagið „sitjandi forseti“, „kalla eftir“, „ákall“ svo ekki sé minnst á bullið sem á uppruna sinn hjá löggunni og lekur inn í löggufréttir fjölmiðla. Gallinn er sá að alltof margir skrifa fréttir en hafi ekki neina reynslu í skrifum og frekar lítinn orðaforða. Einhvers staðar verða menn að byrja, er oft sagt. Það er rétt en um leið mikill ábyrgðarhluti hjá stjórnendum fjölmiðla að lesa ekki fréttir yfir fyrir birtingu. Varla er til nokkur maður sem er sáttur við það yfirlit sem ég birti síðasta gamlársdag, sjá hér.

Sem betur fer eru mjög margir afburðagóðir blaðamenn starfandi á íslenskum fjölmiðlum og mjög vel skrifandi. Þeir eru ekki vandamálið heldur hinir.

Ég mun halda áfram að gera athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. Veit ekki hversu lengi ég endist, það verður bara að koma í ljós.

 

Orðlof

Hirðir

Orðið féhirðir merkir venjulega: gjaldkeri, en orðið fjárhirðir merkir: smali.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

The Guardian greinir frá þessu og segir að alls ellefu öldungadeildarþingmenn, sitjandi eða nýkjörnir, hafi heitið því …

Frétt á visir.is.                                      

Athugasemd: Sá sem er kosinn til þings er ekki þingmaður fyrr en kjörtímabil hans hefst. Sá sem er þingmaður verður það þangað til kjörtímabili hans lýkur.

Þar af leiðir að á íslensku er enginn „sitjandi þingmaður“ og enginn er „nýkjörinn þingmaður“ fyrr en hann kjörtímabil hans er hafið. Aðeins eru til þingmenn, fyrrverandi þingmenn og verðandi þingmenn.

Í ensku máli er annar háttur hafður á. Í Bandaríkjunum hefur verið kosið til fulltrúardeildar og öldungadeildar. Þar er hefð að tala um „sitting reprensentatives“ og „sitting senators“. Algjör óþarf er að taka upp þessa ensku málhefð í íslensku. Það hjálpar ekkert, er ekkert betra til skilnings. Á visir.is og ruv.is kveður hins vegar rammt að þessu orðalagi.

Í fréttinni segir

Ekki er talið líklegt að athæfi þingmannanna muni hafa nokkur áhrif á hver …

Hér er fjallað um yfirlýsingu ellefu þingmanna sem telja að svindlað hafi verið á Trump í forsetakosningunum í nóvember. Athæfi merkir verknaður eða framferði. Hvorugt á við í þessum tilviki. Skárra hefði verið að orða þetta svona:

Ekki er talið líklegt að yfirlýsing þingmannanna muni hafa nokkur áhrif á hver …

Sama orðalag er í frétt á ruv.is. Þar er talað um sitjandi og nýkjörna þingmenn.

Í frétt mbl.is er þetta rétt gert. Þar segir:

Alls hafa 11 nú­ver­andi og verðandi öld­unga­deild­arþing­menn sagst ætla að mót­mæla niður­stöðum kjör­mannaráðs …

Greinilegt er að ekki eru allir blaðamenn undir oki enskunnar.

Tillaga: The Guardian greinir frá þessu og segir að alls ellefu núverandi öldungadeildarþingmenn eða verðandi hafi heitið því …

2.

„Jarðskjálfti af stærðinni 3,3 varð 47 kíló­metra norðaust­ur af Gríms­ey laust fyr­ir klukk­an níu í morg­un, sam­kvæmt vef Veður­stof­unn­ar.“

Frétt á mbl.is.                                       

Athugasemd: Frá Reykjavík eru 47 km í beinni loftlínu til Selfoss, Borgarness og Reykjanesvita. Dreg í efa að jörð hafi skolfið í Grímsey, en get auðvitað ekkert fullyrt um það. Hins vegar hafa oft verið þriggja stiga jarðskjálftar á Reykjanesi án þess að höfuðborgarbúar hafi fundið fyrir þeim. 

Fyrirsögn fréttarinnar er engu að síður svona:

Áfram skelf­ur jörð við Gríms­ey.

Fréttin er birt klukkan 14:33 og klukkutíma síðar var blaðamaðurinn ekki búinn að hafa samband við Grímseyinga og spurt þá að því hvort þar hafi jörð skolfið. Hvernig veit blaðamaðurinn að jörð hafi skolfið? Ekki var hann þar frekar en ég. Skárra hefði verið ef blaðamaðurinn hefði notað þátíð.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Hvað gerðist fyrir einn besta leikmann Liverpool?“

Frétt á mbl.is.                                       

Athugasemd: Eitthvað hlýtur að hafa komið fyrir þennan leikmann. Sögnin að gera merkir að búa til, framkvæma. Sögnin að gerast merkið það sem gerðist, getur gerst.

Tillaga: Hvað kom fyrir einn besta leikmann Liverpool?

4.

„Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu í handbolta unnu í dag öruggan sigur á Austurríki í undankeppni EM 2022.“

Frétt á ruv.is.                                       

Athugasemd: Leikmenn handboltalandsliðs eru fullorðnir menn, hafa að baki tíu eða tuttugu ára reynslu í boltanum og þiggja há laun fyrir störf sín í félagsliði og landsliði. Síst af öllu eru þessir karlar lærisveinar. Og fjarri lagi er að segja að þjálfarinn sé lærifaðir. Miklu nær er að kalla þá verktaka og þjálfarann verkstjóra. Leikmenn og þjálfari dugar.

Lærisveinn merkir nemandi eða lærlingur. Alls ekki fullorðinn leikmaður sem þiggur laun fyrir vinnuframlag sitt.

Tillaga: Alfreð Gíslason og leikmenn hans í þýska landsliðinu í handbolta unnu í dag öruggan sigur á Austurríki í undankeppni EM 2022.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband