Bloggfærslur mánaðarins, maí 2022
Reynslulítill hópur - skórnir á hillunni - hverfi 104 í Reykjavík
27.5.2022 | 20:37
Orðlof
Staðafallið
Í ársbyrjun 1994, þegar Magnús Jónsson var nýorðinn veðurstofustjóri, var ákveðið í veðurlýsingum í útvarpi, að lesa upp veðurstöðvarnar í nefnifalli í stað þágufalls (staðarfalls) áður.
Staðarfallið féll í nótt.
Fer hann geyst hann Mangi.
En ætli verði öllum rótt
austur á Dalatangi.
bragi.is. Vísa eftir Baldur Hafstað
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hópurinn er reynslulítill.
Frétt á blaðsíðu 46 í Morgunblaðinu 26.5.22.
Athugasemd: Orðin reynslumikill og reynslulítill sjást oft í fjölmiðlum. Minna fer fyrir betra orðalagi eins og reyndur eða óreyndur.
Jafnvel þrautreyndur blaðamaður segir að hópur sem valinn hafi verið til æfinga fyrir fótboltalandsleik sé reynslulítill. Engu að síður eru allir þátttakendurnir með tugi ára reynslu í sparkinu. Þó má skilja orðalagið þannig að margir hafi ekki leikið mikið með landsliði.
Í fréttinni segir:
Sem fyrr er það fyrirliðinn Birkir Bjarnason sem dregur vagninn hvað varðar reynsluna
Orðtakið að draga vagninn á alls ekki við hérna, er út í hött. Skárra er:
Sem fyrr er það fyrirliðinn Birkir Bjarnason sem er reyndastur
Flækjufóturinn er fyrirferðarmikill í fréttinni. Í henni segir:
Hákon hefur slegið í gegn með FC Köbenhavn og þá átti hann góða innkomu
Hér er átt við að leikmaðurinn hafi staðið sig vel. Hvað er að því að tala einfalt mál? Svona nafnorðaárátta er algeng meðal blaðamanna.
Tillaga: Hópurinn er lítt reyndur.
2.
Alexander Peterson leggur skóna á hilluna.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Enginn hættir lengur sem keppnismaður í íþróttum. Nei, skórnir eru lagðir á hilluna. Er til ofnotaðra orðtak? Varla.
Og hillan sú arna tekur greinilega endalaust við. Ekki aðeins eru þar skór, heldur líka skíði, flauta, skautar og áreiðanlega ýmislegt annað. Varla er á henni seglbátur, rallíbíll, strætó eða steypubíll. Þó er aldrei að vita hvað íþróttablaðamönnum dettur í hug að fullyrða hvað sá sem hættir gerir við græjuna eða fatnað sinn.
Einu sinni þótti það afskaplega frumlegt að segja að einhver hafi lagt skóna á hilluna. Nú er það orðið svo algengt að það er bara ósköp venjulegt.
Leikar hafa snúist við. Óalgengt en svakalega frumlegt er að segja að maður hafi hætt að keppa. Reka þá ólesnir upp stór augu (merkir að vera hissa) og spyrja hvort hann hafi stigið til hliðar. Sumum er vorkunn. Einfalt mál er orðið svo sjaldgæft að fæstir skilja.
Í fréttinni segir:
Íþróttadeild RÚV vill þakka Alexander kærlega fyrir allar þær góðu stundir sem hann hefur veitt þjóðinni
Þykir nú ýmsum skörin vera að færast upp á bekkinn þegar íþróttadeild Ríkisútvarpsins þakkar fyrir hönd þjóðarinnar. Jæja, þetta sparar dálitla vinnu fyrir forsetann og aðra mektarmenn. Hins vegar vil ég fyrir hönd Alexanders þakka fyrir ummælin. Kva ... má ég þá ekki þakka fyrir hönd annars.
Tillaga: Alexander Peterson hættir í handbolta.
3.
Annað slys átti sér stað í hverfi 104 í Reykjavík þar sem maður féll í jörðina
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Löggan er enn söm við sig, heldur að póstnúmer séu hverfi. Blaðamaður Ríkisútvarpsins veit ekki betur og endurtekur bullið úr löggunni. Hvorki löggan né blaðamaðurinn vita að hverfi 104 er í Reykjavík. Já, annars væri talan önnur. Segir sig sjálft.
Hvað hefur gerst þegar maður fellur í jörðina? Jú, hann hefur líklega dottið. Er það frétt að maður hafi dottið?
Allt þarf að eiga sér stað. Betra er að nota sögnina að vera.
Maður dettur í sundlaug og er fluttur á bráðamóttöku. Annar fellur einhvers staðar og þá segir blaðamaðurinn/löggan að hann hafi verið sömuleiðis fluttur á bráðamóttöku. Betur fer á því að sleppa atviksorðinu. Oft er það notað sem eins konar uppfylling í texta án þess að þörf sé á því. Sama er oftast með orðalagið eiga sér stað.
Ekkert af sem birtist í þessari frétt stendur undir nafni sem frétt. Aðeins eru talin upp nokkur óhöpp. Yfirleitt eru löggufréttir ómerkilegur samtíningur sem skiptir ekki nokkru máli og blaðamenn fylgja engu eftir.
Hversu fréttnæmt er að tveir ökumenn hafi verið stöðvaðir því bílar þeirra voru á nagladekkjum? Og svo er skrifað með tilfinningaþrunginn vandlætingu; þar sem þeir höfðu ekki haft fyrir því að skipta nagladekkjunum út.
Fjölmiðlar eiga að vera vandlátari, ekki birta ekkifréttir.
Tillaga: Maður datt í Reykjavík.
4.
137 lönd í heiminum eru opin bólusettum ferðamönnum
Frétt á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu 27.5.22.
Athugasemd: Nýliðar í blaðamennsku byrja málsgrein á tölustöfum, þekkja ekki regluna. Enginn segir þeim til. Líklega vegna þess hversu fáir eru vel að sér.
Tillaga: Óbólusettir ferðamenn mega ferðast til 137 landa
5.
Hann segir hins vegar að slíkt eldgosatímabil þýði ekki að Reykjanesskaginn verði óíbúðarhæf.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Líkingin er skemmtileg og skiljanleg. Hins vegar er meinlegt að blaðamaður gleymir að setja lýsingarorðið í rétt fall og kyn. Hann hefur ekki lesið fréttina yfir fyrir birtingu.
Í henni er talað um ferðamannaiðnað. Slík atvinnugrein er ekki til. Á íslensku notum við orðið ferðaþjónusta sem er miklu hlýlegra og betra orð en að hraðþýða enska orðið turist industry sem blaðamaðurinn eða viðmælandi hans hefur gripið til. Enska orðið industry merkir ekki alltaf iðnaður, hvorki á ensku né íslensku. Það vita þeir sem eru þokkalega að sér í báðum málum.
Blaðamaðurinn ofnotar orðið umræða sem kemur þrisvar fyrir í niðurlagi fréttarinnar. Oft bendir nástaða til að sá sem skrifar sé óvanur.
Tillaga: Hann segir hins vegar að slíkt eldgosatímabil þýði ekki að Reykjanesskaginn verði óíbúðarhæfur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fundur fer fram - barn mætir - laxar mæta
25.5.2022 | 11:46
Orðlof
Undanhald íslenskunnar
Það er til merkis um hækkandi aldur og geðvonsku að mér leiðist undanhald íslenskunnar. RÚV hefur algjörlega gefist upp gagnvart enskuslettum og beygingarvillum.
Óttar Guðmundsson í fréttablaðinu.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
á síðasta fundi borgarstjórnar sem fer fram á morgun, þriðjudaginn 24. maí.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 23.5.22.
Athugasemd: Allt skal fara fram, æ sjaldnar er talað um það sem verður. Skrýtin þróun tungutaks blaðamanna.
Tillaga: á síðasta fundi borgarstjórnar sem verður á morgun, þriðjudaginn 24. maí.
2.
Fjórða barn Jóns og Hafdísar mætt.
Frétt í fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Hér áður fyrr fæddust börn en nú mæta þau. Og til þess að ofursvalir blaðamenn skilji verður að breyta jólasálmum:
Í Betlehem er barn oss fætt mætt
Því fagni gjörvöll Adams ætt
Sko, þetta rímar þó stuðlasetningin sé ekki rétt.
Hér áður fyrr gerðist það stundum að börn fæddust fyrir tímann. Nú er líklega sagt að börn mæti fyrir tímann. Ýmsar hugmyndir eru kæfðar í fæðingunni mætingunni, uppreisnir eru barðar niður í fæðingunni mætingunni. Til er andvana fæðing mæting. Og sumir hafi frá fæðingu mætingu sýnt miklar gáfur.
Tillaga: Fjórða barn Jóns og Hafdísar fætt.
3.
Fyrstu laxarnir mættir í Kjósina.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Er ekki tungutak blaðamanna stundum einhæft og fátæklegt? Hér er átt er við að fyrstu laxarnir séu komnir í Laxá í Kjós.
Þá geta morðin hafist.
Má ekki segja að veiðimenn myrði laxa?
Auðvitað er þetta rangt hjá mér, tóm vitleysa og bull. Fiskar, dýr og fuglar eru drepnir.
Samt segja blaðamenn að börn mæti í heiminn og laxar mæti í árnar. Og öllum finnst þetta ágætt tungutak.
Tillaga: Fyrstu laxarnir komnir í Laxá í Kjós.
4.
Apple horfði til þess að dreifa framleiðslunni frá Kína áður en faraldurinn byrjaði árið 2020.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 24.5.22.
Athugasemd: Málsgreinin skilst en sá sem skrifaði hefði mátt vanda sig betur, hún er ekki góð.
Apple ætlaði, vildi, hafði hug á, stefndi að og svo framvegis. Í fréttinni er talað um áætlanir fyrirtækisins. Þar af leið að nærtækast er að nota sögnina að ætla.
Orðalagið að horfa til þess er afar vinsæl en segir sáralítið. Hún dregur með sér sögn í nafnhætti og ef til vill finnst sumum það öruggara en að beygja sagnir.
Svo er það þetta; dreifa framleiðslunni frá Kína. Þarna er slær saman orðalaginu að dreifa framleiðslunni og draga út henni í Kína. Hugsunin er líklega sú að fyrirtækið taldi að öruggara að vera með framleiðslu sína víðar en í Kína.
Afar brýnt er að höfundur lesi skrifin sín yfir með gagnrýnu hugafari. Líka blaðamenn.
Tillaga: Apple ætlaði að dreifa framleiðslunni og draga úr henni í Kína áður en faraldurinn byrjaði árið 2020.
5.
Skjálftavirkni við Geysi.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Engin skjálftavirkni var við Geysi, hún var um sjö km norðar. Þetta er rétt eins og að fullyrða að segja að eitthvað hafi gerst á Lækjartorgi en ekki í Árbæ. Svona ónákvæmni er mjög algeng í fjölmiðlum. Ágætt regla er að skoða landakort áður en svona frétt er skrifuð og birt.
Tillaga: Skjálftavirkni fyrir norðan Geysi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orðlof
Blönduós
Eðlilegur framburður orðsins er Blöndós, án u ekki Blönduós. Þetta er eðlilegt vegna þess að sérhljóð kemur á eftir u, en leiðir til þess að tengingin við ána Blöndu verður óskýrari en í öðrum samsetningum þar sem u helst, eins og Blöndudalur, Blöndugil, Blönduvirkjun o.s.frv.
Þetta þýðir aftur að það verður óskýrara í huga fólks að orðið er samsett úr Blöndu- og -ós þannig að tengingin við karlkynsorðið ós verður einnig óljósari. Það styður þessa hugmynd að ef verið er að vísa til ósa árinnar en ekki bæjarins verður að segja Blönduós er mjög fallegur sem sé bera u-ið fram.
Stofngerð seinni hlutans ber líka ekki sérstaklega með sér að um karlkynsorð sé að ræða við höfum orð eins og rós og dós sem eru kvenkyns og ljós og hrós sem eru hvorugkyns, en ég man í fljótu bragði ekki eftir öðrum karlkynsorðum en ós með þessa stofngerð.
Framburðurinn gæti líka ýtt undir þá tilfinningu að seinni hlutinn væri kvenkynsorðið -dós.
Samsetning orðsins er auðvitað skýr í huga staðkunnugra en fyrir utanaðkomandi er þetta kannski bara orð sem fólk hugsar ekki út í hvernig er samsett, og sem formsins vegna gæti verið bæði kvenkynsorð og hvorugkynsorð.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Tvö göt fyrir neðan sjólínu.
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 17.5.22.
Athugasemd: Ástæða er til að geta þess sem vel er gert. Blaðamaðurinn sem skrifar fréttina er vel máli farinn og birtir fréttir um áhugaverð mál. Áskrift að Mogganum borgar sig þegar maður les fréttir sem skrifaðar eru af þekkingu. Og þeir eru þar nokkuð margir vel ritfærir.
Tillaga: Engin tillaga
2.
Ráðherrar hræddir um að salan á Chelsea fari ekki í gegn.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Í gegnum hvað á salan á Chelsea að fara? Hér er líklega átt við að ekkert verði af sölunni.
Í fréttinni segir:
Í staðinn átti það fjármagn að renna til góðgerðamála en hann hefur ekki enn skrifað undir neitt sem staðfestir það.
Stirðlega skrifuð málsgrein, hnoð. Söluverðið er kallað það fjármagn. Fjármagn er meira en peningar til dæmis eignir, tæki og aðrir lausafjármunir.
Einnig segir í fréttinni:
Chelsea fær sem stendur að halda úti starfsemi sinni
Einfaldara orðalag er:
Chelsea fær að starfa áfram
Fréttin er eins og áður sagði stirðleg aflestrar, sem bendir til að blaðamaðurinn þurfi á tilsögn að halda og æfa sig í skrifum.
Tillaga: Ráðherrar hræddir um að ekki verði af sölunni á Chelsea.
3.
en hann hefur til þessa ekki viljað taka símann frá Hildi.
Frétt á forsíðu Morgunblaðsins 18. maí 2022.
Athugasemd: Þetta skilst ágætlega en má þó með góðum vilja misskilja (ekki taka símann af henni). Einnig má orða þetta eins og segir í tillögunni og á margvíslegan annan hátt.
Hér má mæla með því að nota sögnina að svara sem er gamalt og gott orð enda svara menn iðulega þeim sem hringja nema að þeir séu haldnir óbeit á ákveðnum stjórnmálaflokki. Skilst þegar skellur í tönnum.
Tillaga: en hann hefur til þessa ekki viljað svara Hildi þegar hún hringir.
4.
Þóttu viðbrögðin mjög sérstök.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 18. maí 2022.
Athugasemd: Sérstakur er lýsingarorð sem í sjálfu sér er ekkert sérstaklega lýsandi, er eiginlega svolítið varfærið, svona þegar fólk veigra sér við því að segja hug sinn: Hann er sérstakur maður, er er ef til vill sagt um eiturlyfjasalann, nauðgarann, þjófinn, því ekki má særa tilfinningar bófa.
Mörg önnur henta hér ágætlega, jafnvel betur, til dæmis eftirtektarverð, sjaldgæf, furðuleg, undarleg, óvenjuleg og ef til vill má nota litríkari lýsingarorð.
Tillaga: Þóttu viðbrögðin mjög furðuleg.
5.
Skítafýlan frá fiskbræðslu hér á árum áður og hávaðamengun af flugi á mærum Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur
Lesendabréf á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 18.5.22.
Athugasemd: Hvað er mæri? Við þekkjum það í samsetningunni landamæri og vitum samstundis að það er línan sem skilur að tvö lönd eða fleiri.
Samkvæmt orðabókinni merkir orðið mæri:
Slétta, flatneskja, mýrlendi eða þá mörk, landamerki.
Í Noregi er fylki sem nefnist Møre og er (ekki staðsett) norðarlega í því langa landi. Í fornritum okkar er talað um Mæri, einnig Sunnmæri og Norðmæri.
Þeir sem voru frá Mæri eru í Egilssögu kallaðir Mærar (4. kafli).
Egill Skallagrímsson háði einvígi við ójafnaðarmanninn Ljót á Mæri og orti fyrir átökin þessa undurfögru vísu sem allir þekkja og söngelskir raula á góðri stundu með öl í horni:
Esat lítillar Ljóti,
leik ek við hal bleikan
við bifteini, bænar,
brynju, rétt at synja;
búumk til vígs, en vægðar
ván lætka ek hánum,
skapa verðum vit skaldi
skæru, drengr, á Mæri.
Fyrir þá sem ekki skilja vísuna er hér efni hennar:
Það er ekki rétt að synja Ljóti lítillar bænar. Ég leik við bleika manninn, feiga Ljót með vopni. Býst til vígs en vægi honum ekki. Drengilegt er að ganga til vopna á Mæri.
Með sverðið Naður í belti og sverðið Dragvandil fest við hægri hönd sér gekk Egill á hólminn. Svo fóru leikar að hann hjó af Ljóti hægri fót fyrir ofan hné og féll þá berserkurinn og var þegar örendur.
Að lokum má benda á að til er sögnin að mæra, nafnorðið mær og nafnorðið mærð. Af þeim er allt önnur saga.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Orðlof
Máltilfinning
Við þetta bætist að börn á máltökuskeiði og unglingar tala jafnmikið og jafnvel meira við jafnaldra sína en fullorðið fólk, efni í fjölmiðlum ungs fólks er gjarnan á ensku.
Færri foreldrar lesa nú fyrir börn sín en venjan var.
Enn má nefna að bóklestur yfirleitt er á undanhaldi og það grefur undan almennri máltilfinningu og orðauðgi talaðs máls; lesskilningi hrakar megi marka PISA-kannanir.
Sölvi Sveinsson. Morgunblaðið 4.5.22, blaðsíða 25; bækur.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hér nægir að rifja upp ófarir stórhýsisins Orkuveituhússins sem nú stendur tómt, hrakfarir Fossvogsskóla og ótal myglandi nýbyggingar kennitöluflakkara.
Aðsend grein í Morgunblaðinu 7.5.22.
Athugasemd: Mikilvægt er að velja orð við hæfi. Ekki er skynsamlegt að tala um ófarir eða hrakfarir húsa þó flestir skilji hvað við er átt.
Miklu betur fer á því að tala um hörmungar, erfiðleika, yfirsjónir, ólán, hneisu, tjón eða skaða í húsum, svo nokkur önnur orð sé nefnd og henta skár í málsgreinina.
Svo má geta þess að ofmælt er að mygla komi aðeins í nýbyggingar kennitöluflakkara.
Tillaga: Hér nægir að rifja upp hörmungar stórhýsi Orkuveitunnar sem nú stendur tómt, skaðann í Fossvogsskóla og ótal myglandi nýbyggingar kennitöluflakkara.
2.
Hvít jörð í Reykjavík.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ofmælt er að hvít jörð sé í Reykjavík þó jörð hafi gránað. Í fréttinni segir:
Ljósmyndari Morgunblaðsins myndaði snjóbreiðuna við Elliðavatn
Á myndinni sést ekki snjóbreiða þó jörð sé grá, snjóföl sé á. Hvað er þá snjóbreiða. Samkvæmt orðinu er það breiða af snjó, mikill snjór sem liggur á landi, fönn en ekki lítilsháttar föl.
Tillaga: Grá jörð í Reykjavík.
3.
Reynslulaus farþegi lenti flugvél.
Frétt á visi.is.
Athugasemd: Oft var sagt að sá sem ekki hefði reynslu væri óreyndur. Orðið er ágætt, miklu betra en reynslulaus, þó hið síðarnefnda geti stundum dugað.
Allir lesendur hljóta að skilja að hafi farþegi lent vélinni eru líkur til þess að hann sé óreyndur, ekki flugmaður.
Tillaga: Farþegi lenti flugvél.
4.
Handviss um að þær verði ofar í kvöld en við höldum.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Órökrétt málsgrein. Handviss um það sem við höldum. Líklega fer betur á því að hafa hana eins og segir í tillögunni.
Í umræðuhópnum Málspjall á Fésbókinni eru áhugaverðar umræðum um málsgreinina. Eiríkur Rögnvaldsson segir þar:
Einhvern tíma var formaður kjörstjórnar spurður: "Heldurðu að það komi eitthvað óvænt upp úr kjörkössunum?" Ef maður heldur það þá er það ekki óvænt - eða hvað?
Jón Sigurgeirssona á hugmyndina að tillögunni enda er hún rökfræðilega rétt.
Tillaga: Handviss um að þær verði ofar í kvöld en flestir halda
5.
Reykjanesbær dró vagninn með lökustu kjörsóknina
Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 16.5.22.
Athugasemd: Orðtök verða að hæfa tilefninu. Sá sem dregur vagninn merkir þann sem hefur forystu, er leiðtoginn, sýnir gott fordæmi, tekur af skarið og svo framvegis. Sá sem er lakastur dregur ekki vagninn, þvert á móti. Þetta minnir á manninn sem hrósaði sér af því að hafa orðið hæstur af þeim sem féllu á prófinu.
Hafi Reykjanesbær verið með lélegri kjörsókn en önnur sveitafélög á einfaldlega að segja það beinum orðum. Tillagan hér fyrir neðan er mjög góð, einföld og segir allt sem segja þarf.
Blaðamenn freistast oft til að nota málshætti og orðtök sem þeir skilja ekki og beita þeim því rangt. Fjölmiðlar ættu að draga vagninn með vönduðu málfari.
Tillaga: Reykjanesbær var með lökustu kjörsóknina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framtíðarvon - ómanngert svæði - koma til með að snúa aftur
3.5.2022 | 17:58
Orðlof
Tvínefni
Í fornum ritum finnast þó örfá dæmi um að maður hafi borið tvö nöfn.
Sagt er frá því í Heimskringlu að Ótta keisari af Saxlandi hafi gefið Sveini, syni Haralds konungs af Danmörku, nafn sitt og var hann svo skírður að hann hét Ótta Sveinn. (Heimskringla 1941 I:262).
Annað dæmi er úr Sturlungu er þar kemur við sögu maður að nafni Magnús Agnar Andrésson. Þessi tvö dæmi gætu bent til þess að tvínefni hefðu þekkst til forna en frekari vitneskju skortir.
Guðrún Kvaran. Nöfn manna, dýra og dauðra hluta. Málsgreinar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Miðað við þá einhliða umfjöllun sem birst hefur í fjölmiðlum fyllist ég framtíðarvon í ljósi þess að
Grein á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 27.4.22.
Athugasemd: Framtíðarvon er dálítið skrýtið orð en alls ekki óþekkt. Hins vegar er hvorki til nútíðarvon né fortíðarvon. Ástæðan hlýtur að vera sú að von er hugtak sem beinist til framtíðar. Vonlaust er til dæmis að vonast til þess að heimsstyrjöldin fyrri hafi ekki byrjað. Vona flestra er að aldrei verði aftur styrjöld í heiminum og friður ríki. Ef til vill er það framtíðavon.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Spurð um vatnsmagnið sem kom frá úðaranum þá segir Vigdís í það minnsta greinilegt að hann gæti tekið vel á eldi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þessi málsgrein er ekki vel samin. Hvað merkir orðalagið að taka vel á eldi?
Í Málfarsbankanum segir:
Orðið magn er oft óþarft. Mikið magn af bensíni merkir það sama og mikið af bensíni.
Í stuttri frétt kemur orðið vatnsmagn þrisvar fyrir. Það kallast nástaða. Blaðamaðurinn hefði átt að leiðrétta orðalag viðmælanda sína og sleppa þessu vatnsmagni.
Í fréttinni er haft eftir viðmælandanum:
Það er mikil vinna frá þeim sem er mögulega glötuð ef tölvurnar eru farnar.
Verkefni blaðamanns er öðrum þræði að birta frétt á þokkalegu máli, ekki gera viðmælandanum þá skráveifu að birta tóma vitleysu sem sögð er í geðshræringu. Skárra er:
Mikil vinna gæti hafa glatast séu tölvunar ónýtar.
Þetta er ekki vel skrifuð frétt.
Tillaga: Vigdís segir að vatnið úr úðaranum gæti að minnsta kosti slökkt eld.
3.
Erlendis þá hefði þetta aldrei tíðkast.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er í fyrirsögn og haft eftir viðmælanda en blaðamaðurinn hefði átt að sleppa atviksorðinu þá. Þarna er orðið algjörlega óþarft. Orðalagið er stirt.
Tillaga: Þetta tíðkast ekki erlendis.
4.
Hvað varðar áhrif á náttúruna segir Steinunn að mjög mikið rask yrði á ómanngerðu svæði.
Frétt á blaðsíðu 4 í Fréttablaðinu 27.4.22.
Athugasemd: Skrýtið þetta með ómanngert svæði. Er ekki betra að nota óbyggt, ósnortið eða óspillt svæði?
Tillaga: Steinunn segir að mjög mikið rask yrði á ósnortnu svæði.
5.
Hvannarrótin bjargaði næturbröltinu.
Fréttablaðið, blaðsíðu 4 í kynningarblaði 27.4.22.
Athugasemd: Höfundurinn hefur áreiðanlega ekki átt við að hvannrót auðveldi næturbröltið. Það þarfnast ekki bjargar. Líklegra er að hvannarótin hafi frekar þau áhrif að viðmælandinn hafi ekki þurft að fara mörgum sinnum á hverri nóttu til að pissa.
Tillaga: Hvannarótin fækkar salernisferðum.
6.
Nú er ljóst að þættirnir muni ekki koma til með að snúa aftur.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Þetta er óþarflega orðmörg málsgrein. Tillagan er líklega skárri.
Í fyrirsögninni stendur þokan er hætt . Hér átt við að hlaðvarp með heitinu Þokan en ekki þoku sem verður til undir beru lofti. Þegar þoka hverfur er sagt að henni hafi létt en það á auðvitað ekki við í þessu sambandi.
Tillaga: Nú er ljóst að þættirnir muni ekki byrja aftur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)