Færsluflokkur: Bloggar
Rumble - mikil sókn við tendrun - brjótandi tíðindi
30.11.2022 | 17:08
Orðlof
Þing
Ýmsir gagnlegir hlutir eru stundum kallaðir þarfaþing. Merking fyrri hlutans er augljós, hann vísar til einhvers sem þarft er og tengist t.d. lýsingarorðinu þarfur.
Orðið þing merkir oftast samkoma (sbr. alþing) en það getur líka merkt hlutur og það er auðvitað sú merking sem þarna er á ferðinni.
Hún sést vel á líkindum við danska orðið ting, hið þýska Ding og enska orðið thing sem öll hafa þessa merkingu og eru runnin af sömu rót og íslenska orðið.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
Rumble.
Texti í skopmynd á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 28.11.22.
Athugasemd: Skopmyndateiknarinn Ívar er oft góður en við ósigldir og illa talandi útlenskur skiljum ekki hvað orðið rumble merkir. Það finnst ekki á málinu.is eða í íslensku orðabókinni sem ég fékk í fermingargjöf fyrir allnokkru. Þar segir þó að rumbi sé mikill sinuflóki, rumba getur verið hellirigning, demba. Og rumpur merkir rass. Rumur er beljaki. Giska má að að líklega sé fjallið beljaki, ef til vill með sinuflóka. Eþaki?
Þetta minnir á manninn sem sagði við afgreiðslustúlku í verslun: Mæ monní plís og bætti svo við; ef ég má sletta. Svo brosti hann vinsamlega. Hún svaraði samstundis. Nei, þú mátt ekki sletta, broslaust því slettur eru ekkert grín.
Og þannig er nú það. Annað hvort talar fólk íslensku eða útlensku. Engan milliveg, ekkert hálfkák, hálfyrði, óreiðu, hálfverk, fúsk, vettlingatök sem afgreiðslustúlkan átti við.
Tillaga: Rumbi.
2.
Mikil sókn við tendrun Óslóartrésins.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Sókn merkir að sækja fram. Mörg orð enda á sókn. Nefna má framsókn, aðsókn, kirkjusókn, sjósókn, skólasókn, lögsókn, skyndisókn, leiftursókn, tangarsókn svo einhver dæmi séu nefnd.
Stytting aðsókn í sókn er klúður því lesandinn veit ekki við hvað er átt þó hann geti ráðið í samhengið. Blaðamaður í vafa með orð hlýtur að nenna að fletta upp á málinu.is. Sá sem er svo sjálfsöruggur að hann telji sig ekki þurfa þess gerir vitleysur.
Svo er það hitt, orðalagið er tilgerðarlegt, engin hefð fyrir því. Af hverju var ekki hægt að segja að fjöldi hafi fylgst með því þegar ljósin á trénu voru kveikt.
Tillagan er jafnlöng í slögum og tilvitnaða setningin.
Tillaga: Margir sáu ljósin kveikt á Óslóartrénu.
3.
Hvað er verra heldur en að koma inn á heimili einhvers til að skoða húsið þeirra, í heimili ókunnugs fólks?
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Málsgreinin skilst hún ekki. Hún er viðvaningsleg og ruglingsleg. Þarna segir:
Hvað er verra heldur en að koma
Sé atviksorðið heldur ekki tekið með verður afar vond málsgrein örlítið skárri. Einfalt er að álykta sem svo að sé orði sleppt og ekkert breytist til hins verra er því ofaukið.
Að öðru leyti er nástaðan drepleiðinleg eins og alltaf, heimili heimili. Hins vegar er útlokað að reyna að lagfæra málsgrein sem ekki skilst.
Ekki er framhaldið gæfulegra. Strax á eftir ofangreindri tilvitnun segir:
Svo tekur hann það upp um nokkur stig með því að láta fólkið vera jafn vonlaust í lífinu og það gjarnan er hjá honum
Skilur einhver þetta? Það sem á eftir kemur skýrir ekki neitt. Hugsanlega skilst þetta af vörum viðmælandans en ekki í rituðu máli.
Sjaldgæft er að finna svona samhengislaust rugl á vef Ríkisútvarpsins.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Hvað gefur maður manni sem á allt í afmælisgjöf?
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ekki geta allir gert eins og Nóbelsskáldið sem lét söguhetju sína í Íslandsklukkunni segja:
Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?
Eflaust myndi einhver kalla þetta nástöðu en snilldin liggur hins vegar í augum uppi.
Betur hefði farið á því að blaðamaðurinn hefði hugsað sig um í örlitla stund áður en hann reyndi að vera Laxnes. Svo óskaplega auðvelt er að laga þetta.
Tillaga: Hvað gefur maður þeim sem á allt í afmælisgjöf?
5.
Arnar tjáir sig um athæfin á RÚV sem allir eru að ræða
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Nafnorðið athæfi er eintöluorð. Orðið er ekki til í fleirtölu eins og blaðamaður DV virðist halda. Hægt er að nota fjölmörg önnur orð sem hafa svipaða merkingu. Dæmi: Hegðun, breytni, háttalag og hátterni.
Ofangreind málsgrein er fyrirsögn og samin þannig að hún veki forvitni hjá lesendum. Fréttin er hins vegar svo óskaplega ómerkileg, stendur alls ekki undir nafni, að furðu sætir að DV skuli birta hana.
Þannig er nú margt birt í fjölmiðlinum og raunar öðrum sem enginn með snefil af sjálfsvirðingu ætti að snerta á.
Tillaga: Arnar tjáir sig um athæfið á RÚV sem allir eru að ræða
6.
Brjótandi tíðindi
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Ensk orð og orðasambönd er ekki alltaf hægt að þýða beint. Börn halda það og margir fullorðnir sem hafa ekki eru vel að sér í íslensku.
Breaking news er haft um þau tilvik þegar ný og mikilvæg frétt er tekin fram fyrir aðrar. Oft er hefur atburðurinn nýlega gerst eða er enn að gerast.
Margir íslenskir fjölmiðlar tala um nýja frétt þegar enskir segja breaking news. Fer vel á því.
Margir blaðamenn þurfa að hafa það hugfast að vandi þeir sig ekki við fréttaskrif geta þeir ofboðið lesendum og jafnvel fælt þá frá fjölmiðli sínum.
Tillaga: Ný frétt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Aftur í fyrndinni - sýna viðbrögð - flugskeyti sem fóru og drápu
15.11.2022 | 19:49
Orðlof
Nafnorðastíll
Á þessum vettvangi hefur verið vikið nafnorðastílnum svo kallaða, tilhneigingu til að ofnota nafnorð eða búa til ný samsett nafnorð. Dæmi um þetta blasa víða við.
Á forsíðu Morgunblaðsins í morgun gat t.d. að líta þriggja dálka fyrirsögn:
Efla þarf skaðaminnkun (Mbl 5.1.17, 1).
Í meginmáli mátti lesa að um var að ræða það sem kallað var skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, einnig kom fram að brýnt væri að þjónusta þennan hóp út frá skaðaminnkun og enn fremur:
Þarf að efla skaðaminnkunarþjónustu verulega (Mbl 5.1.18, 14).
Ekki er öll vitleysan eins, þá væri ekkert gaman að henni.
Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ekkert er gefið um að repúblikanar hreppi þau í nægilegum mæli og líklegt að demókratar eigi allnokkur þeirra vís.
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 14.11.22.
Athugasemd: Hér er rætt um atkvæði í bandarísku þingkosningunum. Málsgreinin er loðin og illskiljanleg.
Orðalagið að manni sé ekkert gefið um eitthvað merkir til dæmis að honum líki ekki við eða hafi ímugust á.
Við nánari athugun, nenni maður á annað borð að velta þessu fyrir sér, gæti blaðamaðurinn átt við að ekki sé víst að repúblikanar fái nægilega mörg atkvæði.
Oft á lesandi fréttar tvo kosti. Marglesa það sem hann skilur ekki í fyrstu atrennu, hvort sem illa er skrifað eða málefnið flókið, og reyna að skilja. Hinn kosturinn sem lesandinn getur nýtt sér er sleppa því að lesa fréttina, fletta yfir á næstu síðu.
Af þessu má ráða hversu mikilvægt er að blaðamaður vandi skrif sín, lesi yfir, og helst að einhver annar geri það líka. Það er hins vegar sjaldan gert, viðkvæði fjölmiðlamanna er að ekki sé tími til þess, þeir eru að flýta sér og að endingu bitnar allt á lesandanum. Manni dettur í hug hvað gerðist ef sama viðhorfið væri til dæmis í matvælaframleiðslu.
Ekki er öll framleiðslan eins, sagði maðurinn, og lokaði dagblaðinu.
Tillaga: Ekki er víst repúblikanar hreppi nógu mörg og líklegt að demókratar eigi allnokkur þeirra vís.
2.
Deilur um ábyrgð komandi kynslóða á því sem gerðist aftur í fyrndinni er fullkomið fánýti og tímasóun
Leiðari Morgunblaðsins 14.11.22.
Athugasemd: Öllum getur orðið á í skrifum og þess vegna er brýnt að fá aðra til að lesa yfir því sjálfvirk leiðréttingaforrit hefðu ekki gert athugasemd við ofangreint.
Þarna er atviksorðinu aftur ofaukið.
Tillaga: Deilur um ábyrgð komandi kynslóða á því sem gerðist í fyrndinni er fullkomið fánýti og tímasóun
3.
Manchester United hefur nú sýnt viðbrögð við því sem fram hefur komið
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er orðalag er í svokölluðum nafnorðastíl sem einkennir ensku. Íslenskt mál byggir á sagnorðum en margir blaðamenn halda að enskt orðalag eigi að vera ráðandi. Þarna er talað um að sýna viðbrögð í stað þess að bregðast við.
Fullyrða má að nafnorðastíllinn sé ein sú mesta hætta sem stafar að íslenskunni.
Tillaga: Manchester United hefur nú brugðist við því sem fram hefur komið
4.
Dóra Björt kom aftur til Íslands sem trúlofuð kona.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Þetta er broslegt. Blaðamaðurinn sem samdi fyrirsögnina á skilið hrós fyrir að reyna sitt besta en engu að síður er útkoman hallærislega skondin, líkt og barn hafi samið hana.
Lesandinn spyr sig hvort þessi Dóra Björt hafi farið út sem ólofuð stelpa en komið heim sem trúlofuð kona. Auðvitað er þetta enn barnalegri útúrsnúningur.
Einfaldast er að segja að hún og unnustinn hafi trúlofað sig í útlandinu því ekki var hún ein um þetta.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Rússnesk flugskeyti fóru yfir landamæri Póllands og drap tvo í kjölfarið.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Flugskeytin eru í fleirtölu, þau fóru. Svo breytist orðalagið í eintölu og þau drap. Ekki heil brú í þessu. Enginn dó í kjölfari flugskeytanna en þau urðu tveimur að bana þegar þau sprungu og það gerðist auðvitað við lendingu.
Tillaga: Tveimur rússneskum flugskeytum var skotið yfir til Póllands og urðu tveimur að bana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ganga inn í starf - ganga heilt yfir sáttur frá landsleik - jólahlaðborð sem fer fram
12.11.2022 | 13:02
Orðlof
Hælarnir
Skömmu fyrir áramót voru gögn gerð opinber sem sýndu að Eimskip hugðust setja Samskip á hælana eins og það var orðað.
Hér er einkennilega komist að orði og umsjónarmaður kannast ekki við neinar hliðstæður.
Merkingin virðist vera leika grátt, fara illa með eða koma á kné.
Hér er vafalaust um nýmæli að ræða sem orðið er til fyrir áhrif slangurmálsins vera á hælunum standa sig illa og andstæðunnar vera á tánum standa sig vel. Hvort tveggja á rætur sínar í ensku eins og vikið var að í 37. þætti, sbr. e. on oness toes og down at heel.
Málfarsbankinn, Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Logi Einarsson, nýr þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, segist ganga auðmjúkur inn í þetta nýja starf.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvernig er hægt að ganga inn í starf? Er starfið hús eða hellir? Venjan er sú að maður tekur við starfi, gengur að verkefni. Starf eða embætti lykst ekki utan um einstakling. Maðurinn sem er forseti Íslands er ekki inni í starfinu, hann gegnir því.
Alþýða manna vinnur fram á nótt. Gáfumennirnir vinna inn í nóttina (enska: into the night).
Mörgum finnst greindarlegt að tala ekki eins og ótíndur almúginn. Slíkir tala aldrei við neinn heldur eiga samtal við einhvern, telja mikilvægt að upphefja sig með sérviskuorðalagi sem virðist líta svo óskaplega vel út.
Lokar maðurinn sem gengur inn í starfið á eftir sér?
Tillaga: Logi Einarsson, nýr þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, segist taka auðmjúkur við starfinu.
2.
Aðalritarinn kallaði sérstaklega til löndin Kína og Bandaríkin
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 8.11.22.
Athugasemd: Sögnin að kalla merkir að hrópa. Orðalagið að kalla til er þekkt, til dæmis: hún kallaði til mín, félagið kallað til sérfræðing, lögreglan var kölluð til.
Orðalagið að kalla til Kína og Bandaríkin er skrýtið, líklega fundið með google translate.
Í netfjölmiðlinum Al Jazeera segir:
The UN secretary-general said the target should be to provide renewable and affordable energy for all, calling on top polluters China and the United States in particular to lead the way.
Líklega er orðalagið svipað í öðrum fjölmiðlum. Aðalritarinn er ekkert að kalla eitt eða neitt, hann er að hvetja ríkin tvö, mestu mengunarsóða heimsins, til að standa sig betur, vera í fararbroddi.
Líklega er vonlaust að berjast gegn enska orðalaginu to call for í margvíslegum merkingum þess. Blaðamenn halda að þeim sé heimilt að þýða orðin eftir merkingu þeirra en ekki samhengi. Staðreyndin er hins vegar þessi: Allir geta orðið blaðamenn en færri geta skrifað íslensku skammlaust.
Tillaga: Aðalritarinn hvatti sérstaklega Kína og Bandaríkin
3.
Að fara á tónleika er góð skemmtun.
Frétt á blaðsíðu 30 í Morgunblaðinu 11.11.22.
Athugasemd: Æ algengara í fjölmiðlum er að málsgrein byrji á nafnháttarmerki og sögn. Má vera að það sé ekkert að því en skelfing finnst mér það ómerkilegt.
Í þessum pistlum hefur sáralítið verið farið út í málfræðilegar skilgreiningar heldur höfðað til málkenndar lesenda. Oftar en ekki hefst málsgrein á frumlagi og á eftir fylgir sögnin. Á þessu eru undantekningar en nafnháttarmerkið að og sögn er ekki heppilegt í byrjun og hér er einfaldlega máltilfinningin sem ræður enda truflar óbragðið lesturinn.
Tillaga: Gaman er að fara tónleika.
4.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, gekk heilt yfir sáttur frá vináttulandsleiknum gegn Sádi-Arabíu um síðustu helgi.
Frétt á blaðsíðu 18 í Fréttablaðinu 11.11.22.
Athugasemd: Átt er við að þjálfarinn hafi verið nokkuð sáttur með árangurinn. Sé svo, hvers vegna fer byrjar blaðamaður á því að setja hann í göngutúr heilt yfir eitthvað. Hjálpar orðalagið lesandanum, auðveldar það skilning hans, taka allir svona til orða?
Blaðamenn sem eiga að temja sér alþýðlegt mál, flytja fréttir án rembings og varast að ofnota orðasambönd:
Þriðja dæmið um ofnotað orðasamband er heilt yfir þegar alls er gætt; almennt séð, sbr.:
staðreyndin er sú að heilt yfir hafa ríkisútgjöld vaxið gífurlega (24.9.18, 8); [ ]
Dæmi af þessum toga glymja daglega í eyrum útvarpshlustenda. Mér virðist merkingin fremur óljós og einnig uppruninn. Hvaðan kemur þetta? Giska má á danskt ætterni en þó hef ég ekki fundið beina samsvörun þar.
Þetta segir Jón G. Friðjónsson í Málfarsbankanum. Honum má treysta.
Fréttin er um fótbolta og í millifyrirsögn segir:
Reynsluboltarnir mikilvægir.
Hvers konar fótboltar eru reynsluboltar? Auðvitað er þetta útúrsnúningur en samt er orðalagið frekar broslegt.
Tillaga: Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, var nokkuð sáttur eftir vináttulandsleiknum gegn Sádi-Arabíu um síðustu helgi.
5.
Eldur kviknaði í Skíðaskálanum í gærkvöldi þegar þar fór fram fyrsta jólahlaðborð vetrarins.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nei, jólahlaðborð fer ekki fram. Boðið er upp á slíkt. Af hverju eru margir blaðamenn svona áhugalausir um skrif sín. Þeir gleyma því að þúsundir landsmanna eru vel að sér og orðalagið stingur í auga.
Eflaust eru ekki allir sammála því að jólahlaðborð í nóvember sé álíka áhugavert eins og gamlárskvöld í júní.
Tillaga: Eldur kviknaði í Skíðaskálanum í gærkvöldi þegar boðið var upp á fyrsta jólahlaðborð vetrarins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Farinn að fara með fararstjórn - biðfreiðar aka saman - ekki stætt á ráðherrastóli
7.11.2022 | 18:10
Orðlof
Íslensk orð úr gelísku
Sterkar vísbendingar eru um að gelíska hafi verið útbreitt mál á Íslandi við landnám og að málskipti hafi orðið á landinu skömmu síðar. Þetta er mat eins helsta sérfræðings landsins í sögu Kelta sem bendir á gríðarlegan mun á íslensku og hinum norðurlandamálunum.
Belja, ær, ýsa, hurð, spýta og strákur. Allt dæmi um orð sem fræðimaðurinn Þorvaldur Friðriksson hefur tekið sem dæmi yfir orð í íslensku sem finnast ekki í öðrum norðurlandamálum.
Þetta eru allt mjög mikilvæg örnefni. Og ef þetta er rétt, sem ég tel að sé, að þau séu gelísk, þá hlýtur að hafa verið töluð hér gelíska, segir Þorvaldur.
Vísir, viðtal við Þorvald Friðriksson fornleifafræðing um bók hans Keltar sem er nýkomin út.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Lygasaga að Helgi sé farinn að fara með fararstjórn
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Er þetta nú ekki of mikið? Samviskusamir blaðamenn lesa frétt yfir fyrir birtingu og laga orðalag. Góðir blaðamenn forðast nástöðu. Bestu blaðamennirnir hugsa.
Tillaga: Lygasaga að Helgi sé orðinn fararstjóri.
2.
Þau fluttu í íbúðina fyrir tæplega 26 árum ásamt dætrum sínum sem eru fjórar talsins.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Dæturnar eru fjórar og ekkert meira um það að segja. Ekki talsins. Atviksorðið er algjörlega óþarft, skýrir ekkert eða hjálpar lesandanum enda er það hér vita gagnslaust.
Í fréttinni segir:
Vinna Einars fer fram á heimilinu á leyndardómsfullum stað sem hann vill alls ekki sýna í þættinum.
Maðurinn er rithöfundur og vinnur heima. Orðalagið fer fram er ofnotað og oftast þarflaust.
Tillaga: Þau fluttu í íbúðina fyrir tæplega 26 árum ásamt fjórum dætrunum sínum.
3.
Í hverfi 105 í Reykjavík barst lögreglu tilkynning um ógnandi aðila í fyrirtæki.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Sjaldan bregðast blaðamenn sem fá það verkefni að vinna fréttir úr dagbók lögreglunnar. Þeir taka gleyma út á hvað starf þeirra gengur og tíunda allt. Jafnvel þó löggan haldi að póstnúmer séu heiti á hverfum. Blaðamenn afrita vitleysuna.
Löggan talar ýmist um aðila, menn eða fólk, getur ekki gert upp hug sinn eða er svo skyni skroppin að allt þetta hrekkur upp úr henni. Blaðamenn afrita vitleysuna og gera enga tilraun til að fylgja eftir þeim fáu fréttapunktum sem löggan birtir.
Í fréttinni segir um slys:
ekið á gangandi vegfaranda sem kenndi sér þó einskis meins og var ekið heim til sín.
Er þetta frétt?
Í fréttinni segir:
Í Kópavogi höfðu tvær biðfreiðar ekið saman og skemmst lítilega við árekstur, ekkert líkamstjón varð á fólki.
Biðfreiðar óku saman svo skemmdust þær lítilega við árekstur. Spyrja má hvort áreksturinn hafi orðið fyrir eða eftir samaksturinn sem var lítilegur. Ekkert líkamstjón varð á fólki en kannski á bílunum.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
kallar eftir því að kjósendur í Bandaríkjunum styðji frambjóðendur repúblikana í þingkosningunum sem haldnar verða á morgun.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er nú meiri orðaþvælan: kallar eftir því að kjósendur styðji. Af hverju gat blaðamaðurinn ekki notast við fyrirsögnina:
Musk hvetur fólk til að kjósa repúblikana.
Hrákasmíðin kalla eftir er komin úr ensku og tröllríður nú öllum fréttum og þykir óskaplega flott, þó veit enginn hvað hún merkir á íslensku annað en að hrópa eða kalla. Hvorugt á við hér.
Tillaga: hvetur kjósendur í Bandaríkjunum til að styðja frambjóðendur repúblikana í þingkosningunum sem haldnar verða á morgun.
5.
Þar hélt hann því fram að Guðlaugi væri ekki stætt á ráðherrastóli ef hann tapaði kosningunni.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hér er orðtökum klúðrað. Sé skáldað áfram gæti einhver gáfumaðurinn hafa sagt: sitjandi ráðherra er ekki stætt á ráðherrastóli og þarf að stíga til hliðar. Og þá myndi hann líklega detta.
Best er að sleppa málsháttum og orðtökum því það er aldrei að vita nema maður fari rangt með eða klúðri þeim eins og hér er gert.
Tillaga: Þar hélt hann því fram að Guðlaugi geti ekki haldið áfram sem ráðherra tapi hann kosningunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Netsamband skorið niður - fundur fer fram - berskjalda sig inn að beini
31.10.2022 | 17:38
Orðlof
Áskoranir
Ég hef tekið eftir því að nú til dags eru ekki lengur til viðfangsefni, vandamál eða erfiðleikar sem þarf að takast á við. Nei, þetta heitir allt áskoranir sem þarf að mæta.
Það er talað um alþjóðlegar áskoranir, pólitískar áskoranir, áskoranir innan knattspyrnu, áskoranir í kynþáttabili, áskoranir smáríkja og áskoranir Íslands svo nokkur dæmi séu tekin af handahófi úr almennri umræðu í fjölmiðlum.
Guðmundur Sv. Hermannsson. Ljósvakinn, Morgunblaðið 25.10.22.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
og síðan hafa mannfjöldatölur í Rússlandi aðeins farið í eina átt, niður á við.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Vinur minn einn, nokkuð glúrinn alþýðumaður, heldur því fram að annað hvort fjölgi fólki eða því fækki. Sem sagt talan getur farið upp eða niður, það er hækkað eða lækkað.
Vera má að eitthvað flóknara kerfi liggi að baki orðum blaðamannsins en það kemur ekki fram í fréttinni.
Tillaga: og síðan hefur fólki fækkað í landinu.
2.
ISNA-fréttastofan í Íran sagði að netsambandið hefði verið skorið niður í Saqez af öryggisástæðum og að nærri 10.000 manns hefðu safnast saman í borginni.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn var látinn þýða enska frétt sem birtist á Reuters og er svona:
The semi-official ISNA news agency said about 10,000 people had gathered at the cemetery, adding that the internet was cut off after clashes between security forces and people there.
Blaðamaðurinn hefur engar vöfflur á sér heldur þýðir beint og þykist góður. The internet was cut off stendur í heimildinni sem hann útleggur; netsambandið hefur verið skorið niður.
Hvað á að segja um svona vinnubrögð?
Tillaga: ISNA fréttastofan í Íran sagði að um 10.000 manns hefðu safnast saman í kirkjugarðinum og bætti því við að netsambandinu þarna hefði verið lokað eftir átök öryggissveita og almennings.
3.
Ónýtur skriðdrekaturn liggur á jörðinni nálægt
Myndatexti á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 27.10.22.
Athugasemd: Athugulir lesendur Morgunblaðsins sáu hugsanlega að skriðdrekaturninn var ekki uppi í nærliggjandi trjám. Blaðamaðurinn treysti því ekki, þó alkunna sé að ein mynd segi meira en þúsund orð. Honum þótti vissara að lýsa myndinni.
Tillaga: Ónýtur skriðdrekaturn nálægt
4.
eða hvað sem er undir önnur mál á fundi félgsins sem fram fer í kvöld.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nú fer allt fram, ekkert verður. Margir blaðamenn virðast ekki hafa góða máltilfinningu og því apa þeir upp eftir öðrum orðalag sem gæti gengið.
Tillaga: eða hvað sem er undir önnur mál á fundi félagsins sem verður í kvöld.
5.
Arsenal-menn mest sannfærandi.
Frétt á blaðsíðu 27 í íþróttablaði Morgunblaðsins 31.10.22.
Athugasemd: Sá sem er sannfærandi getur til dæmis verið öruggur með sig, afgerandi, vel heppnaður, hrífandi, áhrifaríkur og svo framvegis. Má vera að blaðamanni finnist lið Arsenal vera trúverðugt í leik sínum en fleiri lið hafi verið það líka.
Lýsingarorðið sannfærandi á ekki við í frétt Moggans. Mörg lið sem eru sannfærandi í leik sínum hafa í raun staðið sig vel en eitt verið betra en önnur. Þar af leiðir að einfaldast hefði verið að nota lýsingarorðið góður í efsta stigi.
Mest hugsandi blaðamenn eru án efa best skrifandi og lítt skeytandi um sífellt fækkandi lesendur. Við bíðum bara á öndinni standandi hvað verði nýtt fréttandi í fjölmiðlum morgundagsins.
Tillaga: Arsenal-menn bestir.
6.
Þolendur eiga ekki að þurfa að berskjalda sig inn að beini til þess að við trúum þeim.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Berskjaldaður maður er varnarlaus. Orðalagið að berskjalda sig inn að bein er ekki til. Sá sem er stendur berskjaldaður hefur enga vörn, hefur engan skjöld sér til varnar.
Í áhugaverðum pistli segir Eiríkur Rögnvaldsson um þetta orðalag:
Merkingin virðist oftast vera opna sig, bera tilfinningar sínar á torg frekar en beinlínis gera sig varnarlausan þótt þarna sé vissulega stutt á milli og segja megi að opnunin leiði til varnarleysis.
Örfá dæmi eru um sögnina frá tveimur síðustu áratugum 20. aldar og fyrsta áratug þessarar, en allmörg dæmi eru frá síðasta áratug. Það er þó einkum á síðustu tveimur árum sem dæmum fjölgar verulega sögnin er greinilega búin að ná fótfestu meðal málnotenda. Það er engin ástæða til annars en fagna því mér finnst þetta ágæt sögn og gagnast vel.
Eiríkur er nokkuð sannfærandi enda yfirburðamaður íslenskum fræðum. Ég þarf þó að velta þessari skoðun hans aðeins fyrir mér en er þó viss um að hann samþykki ekki orðalagið berskjalda sig inn að beini.
Tillaga: Þolendur eiga ekki að þurfa að vera algjörlega varnarlausir til að við trúum þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Meðlimur í stjórn - plís borgarstjóri - brottvísa vegna afbrota
24.10.2022 | 11:04
Orðlof
Nýja þolmyndin
Ef nefna skal dæmi um setningargerð má segja að hin svokallaða nýja þolmynd sé mjög að ryðja sér til rúms. Þá er til dæmis sagt:
það var barið þig, það var bannað mér, það var ekki leyft okkur í stað þú varst barinn, mér var bannað, okkur var ekki leyft.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík og meðlimur í stjórn Strætó
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er ótrúlega bjánaleg málsgrein. Varla blaðamanninum að kenna heldur hæfi þeirra sem standa að ráðningum í stofnuninni.
Tillaga: Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík og stjórnarmaður Strætó
2.
Viltu laga þetta plís borgarstjóri.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Fimm ára barn skrifar borgarstjóranum. Trúir því einhver? Mynd af bréfinu fylgir fréttinni og á henni sést að rithöndin er ekki barns og orðalagið ekki heldur. Fjarri því.
Setjum samt svo að barnið hafi sagt plís borgarstjóri. Líklega er þá fokið í flest skjól ef fimm ára barna grípur til enskunnar.
Gemmér köku, segja litlu börnin stundum. Foreldrar sem taka hlutverk sitt af alvöru rétta kökuna í áttina að barninu og segja blíðlega: Það á að segja viltu gefa mér köku. Og barnið lærir, biður um kökuna.
Barn sem rekur í vörðurnar fær hjálp. Enginn á að þurfa að sletta. Slettur eru ljótar í máli fullorðinna en framtíðin er í húfi geri börnin það.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Hilmar Þór segir erfitt að segja til hvaða ráða Rússar grípi en sprenging á stíflunni myndi fyrst og fremst bitna á almennum borgurum.
Frétt á Vísi.is.
Athugasemd: Orðalagið sprenging á stíflunni og stíflan sprengd merkir ekki það sama. Þetta er skrifað af hugsunarleysi og líklega er blaðamaðurinn óvanur að tjá sig skriflega. Nástaðan styður þá grunsemd.
Líklega er átt við að stíflan verði sprengd.
Tillaga: Hilmar Þór segir erfitt að ráða í hvað Rússar muni gera en verði stíflan sprengd myndi það fyrst og fremst bitna á almennum borgurum.
4.
Gæti orðið að helvíti á jörðu ef ekki er brugðist við.
Frétt á Fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Setningin er gæti verið betri.
Tillaga: Gæti orðið að helvíti á jörðu verði ekki brugðist við.
5.
Upp úr klukkan hálfeitt í nótt var tilkynnt um tvo 16 ára drengi að skemma bifreiðar í Breiðholti.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þarna vantar sögn til uppfyllingar. Á vísi.is segir um drengina:
grunaðir um að hafa skemmt tólf bíla Breiðholti.
Þetta er mun skýrara, rétt eins og á ruv.is en þar segir:
tilkynnt um að drengir væru að skemma bíla.
Tillaga: Upp úr klukkan hálfeitt í nótt var tilkynnt um tvo 16 ára drengi sem voru að skemma bifreiðar í Breiðholti.
6.
Hægt að brottvísa vegna afbrota.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 24.10.22.
Athugasemd: Þeir sem fréttaskrifa þurfa að málfarsgæta sín. Leiðinlegt er að nafnorðasagnalesa, slíkt augstingur lesendur.
Viðbúið er að löggan og misvitrir lögfræðingar upptaki bjánaorðið afbrotabrottvísun. Þá er kominn tími að niðurleggja sig og rúmsofa fram á næstu öld.
Tillaga: Hægt að vísa úr landi vegna afbrota.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Orðlof
Stóra ógnin
Í bili virðist efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði Íslands ekki ógnað. [ ]Það merkir þó ekki að engar hættur steðji að fullveldi Íslands og mesta hættan felst í því að þrengt er að íslensku af ofurvaldi ensku en Íslendingar hafa verið deigir við að kenna nýjum íbúum íslensku þó að það sé mannekla á landinu eins og bent hefur verið á.
Auðvitað tala nýir íbúar landsins ekki íslensku frá upphafi og ef ekki verður tekið á er hætt við að litlir hvatar verði til að þeir læri málið.
Þar með er sjálfstæði Íslands auðvitað ógnað því að ef íslensk tunga og íslensk menning hverfur fækkar mjög rökunum fyrir því að þessi fámenna þjóð sé sjálfstæð.
Hér fer því ótvírætt mesta ógn sem hefur stafað að sjálfstæði Íslands seinustu áratugi.
Sverrir Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar. Grein á vísi.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hann segir að í bili sé efnahagslegt og stjórnmálalegt sjálfstæði Íslands ekki ógnað, þar sem ólíkt mörgum ríkjum álfunnar ríki hér ekki
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Fréttin er endursögn úr grein eftir formann Íslenskrar málnefndar um ógnir sem steðja að íslenskri tungu. Því er afar meinlegt að blaðamaðurinn fallbeygi ekki feitletruðu orðin, þó hlýtur hann að hafa séð að svo er gert í greininni.
Málsgreinin er of löng, Hann hefði átt að setja punkt aftan við orðið ógnað og byrja þá nýja málgrein. Tillagan er mun skárri.
Tillaga: Hann segir að í bili sé efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði Íslands ekki ógnað. Ólíkt mörgum ríkjum álfunnar ríki hér ekki
2.
en hávær köll höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa.
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 20.10.22.
Athugasemd: Tilvitnunin er ekki skiljanleg. Í heild er hún svona:
Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels, lýsti því hins vegar yfir í gær að Ísraelsmenn myndu ekki hefja vopnasölu til Úkraínu, en hávær köll höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa.
Spurning er sú hvort köllin hafi verið óskir, kröfur, beiðnir eða álíka. Alls ekki er ljóst hvað átt er víð. Af orðalagin má ráða að þessi hluti sé bein þýðing úr ensku en orðið má ekki þýða beint.
Ég hef nokkrum sinnum skrifað um þetta leiðinda orðalag kalla eftir og nafnorðið ákall. Hér er lengri útgáfan:
Enginn veit hvað orðalagið að kalla eftir merkir á íslensku. Allir skilja þó ef smiðurinn kallar eftir hamrinum. Má vera að þetta sé einhvers konar jæja, túlkunin velti á tónfalli þess sem mælir og hugsanlega samhenginu. Munurinn er hins vegar sá að hið fyrrnefnda er tóm vitleysa, komin úr ensku to call for sem gæti þýtt að krefjast.
Samkvæmt enskum orðabókum er orðalagið til í fjölbreytilegum samsetningum:
- Desperate times call for desperate measures
- The report calls for an audit of endangered species
- Ill call for you around seven
- The forecast is calling for more rain
- This calls for a celebration
- The situation calls for prompt action
- The opposition have called for him to resign
Ekkert af ofangreindu er hægt að þýða með því að nota orðalagið að kalla eftir. Hvað er átt við með eftirfarandi tilbrigðum orðalagsins kalla eftir? Hér eru dæmi úr vefnum:
- Kalla eftir afsögn: Krefjast.
- Kalla eftir skýrslu: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
- Kalla eftir úrbótum: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
- Kalla eftir mótmælum: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
- Kalla eftir svörum: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
- Kalla eftir lægra verði: Krefjast.
- Kalla eftir upplýsingum: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
- Kalla eftir meira frumkvæði: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
- Kalla eftir umræðu: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
- Kalla eftir aðstoð: Biðja um, óska eftir.
Kall/köll er hróp. Ekki samheiti á óskum, kröfum eða beiðnum.
Með pistlinum er ég að biðja um að fólk veiti athygli að orðalagið kalla eftir er allsendis ófullnægjandi á íslensku.
Segi enskumælandi hins vegar: I call you around seven merkir það ekki að hann muni þá hrópa klukkan sjö. Nei, þá hringir hann.
Til að forðast misskilning skal hér tekið fram að greinin í Mogganum er verulega áhugaverð og vel skrifuð.
Tillaga: en háværar kröfur höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa.
3.
Múlakaffi opnar Intro á Höfðatorgi.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 20.10.22.
Athugasemd: Veitingahúsið heitir Intro. Hefur fólk heyrt annað eins? Já því miður. Fullt af dæmum eru til um álíka óvirðingu sem margir eigendur fyrirtækja sýna íslenskri tungu. Og hverjir eru viðskiptavinirnir? Þeir eru langflestir Íslendingar. Ekkert er að því að nota íslenskt heiti.
Hefði ég verið spurður um nafn á veitingahús hefði ég, eftir dálitla umhugsun, stungið upp á Beini. Gott orð, jafn mörg atkvæði og bastarðurinn intro. Veit lesandinn hvað beini merkir?
Tillaga: Múlakaffi opnar Saura á Höfðatorgi.
4.
Þar kemur fram að Veitur séu að horfa til þess að tryggja höfuðborgarsvæðinu nægilegt heitt vatn til framtíðar.
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 21.10.22.
Athugasemd: Í stað ofnotaða orðasambandsins að Veitur séu að horfa til þess er miklu betra að segja að Veitur vilji
Tillaga: Þar kemur fram að Veitur vilji tryggja höfuðborgarsvæðinu nægilegt heitt vatn til framtíðar.
5.
Áður en hann ýtti konunni ofan í holuna segir hún að á hann hafi sagt henni frá því að hann hafi drepið fyrrverandi eiginkonu sína.
Frétt á vísir.is.
Athugasemd: Talsverður munur er á holu og gryfju. Holur eru á veginum um Vatnsnes og víðar. Golfarar leitast við að koma kúlu ofan í holu.
Hola er yfirleitt lítil og grunn. Myndirnar sem fylgja fréttinni er af gryfju, djúpu jarðfalli, stórum brunni. Blaðamaðurinn þýðir sænska orðið gruvhål sem hola.
Einnig er nokkur munur á orðunum að ýta og hrinda.
Tillaga: Konan fullyrðir að áður en að hann hrinti henni í gryfjuna hafi hann sagst hafa drepið fyrrverandi eiginkonu sína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Morð á manni - sjálfseyðandi drónar - hún er ekki á leiðinni út
19.10.2022 | 10:01
Orðlof
Allavega
Samkvæmt Íslenskri orðabók (1983) merkir orðið allavega á allan hátt, t.d. þegar sagt er Þetta getur farið allavega, eða af öllu tagi, eins og í sambandinu allavega bækur.
En í talmáli nota margir orðið í merkingunni hvað sem öðru líður. Þá er t.d. sagt Guðrún hefur oft verið til vandræða í skólanum. Allavega finnst sumum kennaranna það. Þegar orðið er notað á þennan hátt er sá sem talar að draga úr fullyrðingunni sem hann var búinn að setja fram eða setja e.k. fyrirvara.
Orðið allavega getur líka merkt fleira, t.d. að minnsta kosti eins og í setningunni Hann er allavega fimmtugur, ef ekki eldri. Sumir hafa amast við þessari notkun orðsins, t.d. telur Íslensk orðabók hana ekki góða og gilda.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ræddu morð á Guðlaugi Guðlaugi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Eitthvað virðist þetta ankannalegt. Bjánarnir í gæsluvarðhaldinu töluðu um að myrða manninn.
Á vísi.is, fréttablaðinu.is, ruv.is og jafnvel á dv.is er réttilega skrifað:
að myrða Guðlaug Þór.
Nafnorðaáráttan er mun hættulegri íslensku máli en þágufallsýki og margt annað.
Tillaga: Ræddu um að myrða Guðlaug.
2.
þegar Rússar gerðu árásir á borgina með svokölluðum kamikaze eða sjálfseyðandi drónum.
Frétt á blaðasíðu 13 í Morgunblaðinu 18.10.22.
Athugasemd: Sjálfseyðandi merkir að hluturinn tortímir eða eyði sjálfum sér. Slíkir drónar springa á ákvörðunarstað sínum rétt eins og eldflaugar. Þær hafa þó aldrei verið sagðar sjálfseyðandi.
Á ensku eru svona tæki kölluð self destruct drones og eru víða á netinu áhugaverðar greinar um þau.
Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta dálítið skrýtið að kalla drónana sjálfseyðandi hvort heldur er á íslensku eða útlensku. Má vera að það sé vegna tæknilegra skilningsleysis.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Hér birtast allar helstu íþróttafréttir dagsins í dag, þriðjudagsins 18.október, í lifandi uppfærslu.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Svona hefur þetta verið í nokkurn tíma á vef Ríkisútvarpsins. Orðalagið er frekar viðvaningslegt og um leið yfirdrifið og því miður virðist það vera sjálfhverft.
Til hvers að segja hér birtast. Er ekki nóg að nefna skrifa íþróttafréttir dagsins. Raunar er dagsetningin óþörf. Tillagan er mun skárri.
Nástaðan er áberandi, dagsins, dag og dagsins. Viðvaningslegt.
Frasinn lifandi uppfærsla er það sem nefnt var sjálfhverft. Verið er að hreykja sér og nota orðalag sem hjálpar ekkert lesandanum ekkert. Hann tekur ekki andköf af hrifningu í hvert sinn sem hann les þetta.
Þar að auki er frekar óþægilegt að lesa fréttirnar í einum breiðum dálki. Lesandinn þarf að skrolla niður og leita. Það gera fjölmiðlar ekki með fréttir sínar. Lesendur nenna oft ekki að leita. Í góðum fjölmiðlum er reynt að vekja athygli á hverri frétt, ekki fela þær. Formið er margnotað á vef Ríkisútvarpsins; fyrir einstök viðtöl og fréttaskýringar sem er líklega ágætt en hentar ekki fyrir fjölda frétta. Svo virðist sem vefurinn sé ekki nógu vel hannaður, bjóði ekki upp á margar fréttir og því sé þessi kostur notaður.
Tillaga: Allar helstu íþróttafréttir dagsins.
4.
Stúlkubarn væntanlegt um miðjan janúar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ein aðalfréttin á vef Moggans og Fréttablaðsins er að nafngreint par eigi von á barni. Gasalega er þetta nú spennandi fréttaefni - eða þannig.
Svipuð ekkifrétt er á mbl.is. Í henni er greint frá því að einhver náungi sem enginn þekkir hafi keypt sér fimm ára gamlan Range Rover sem þó er rándýr. Og fær í þokkabót hamingjuóskir frá blaðamanninum (skrýtin blaðamennska). Ég á sjö ára gamla Toyotu en Smartland Moggans hefur ekki enn óskað mér til hamingju með hana. Líklega er bíllinn minn of gamall og ódýr og ég ekki einu sinni frægur.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Baðst afsökunar á mistökum en sagðist ekki á leiðinni út.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Sá sem er á leiðinni út er inni í húsi og á leið út úr því. Þó kann að vera að hann sé á leið til útlanda. Jafnvel hvort tveggja.
Á ensku getur orðalagið on the way out merkt að hætta. Þegar við segjum á íslensku að einhver sé á leiðinni út er ekki átt við að hann muni hætta.
Orðréttar þýðingar úr ensku geta skaðað íslenska tungu meira en margt annað.
Tillaga: Baðst afsökunar á mistökum en sagðist ekki að hætta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gera góða hluti - í kjölfar þess - árásir af handahófi -
16.10.2022 | 19:56
Orðlof
Náttúrunöfn
Eins og sjá má í Landnámu virðist hafa verið mjög algengt að örnefni tengdust mannanöfnum.
Upp úr 1965 setti Þórhallur Vilmundarson fram hugmyndir sínar um náttúrunöfn. Hann heldur því fram að nafngiftir hafi mjög oft tengst fyrirbærum í náttúrunni en ekki þeim mönnum sem hér námu land. Þannig eigi t.d. Dýrafjörður ekkert skylt við Dýra landnámsmann, heldur opnist dyr þegar siglt er í átt að firðinum: Dyrafjörður.
Grímsá væri þá hin svarta á, sbr. það að gríma merkti nótt í skáldamáli. Grímsár eru margar á Íslandi, rétt eins og Svartár; þær eru bergvatnsár og því dökkar á lit. Það sést best þegar þær falla í jökulár sem oft virðast hvítar, sbr. nafnið Hvítá.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Adnan er saklaus og hefur misst 23 ár af lífi sínu, að afplána dóm fyrir glæp sem hann framdi ekki.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Málsgreinin er óvönduð. Fyrri hlutinn er ekki tengdur við seinni hlutann. Eitthvað vantar.
Betur fer á því að segja að maðurinn hafi afplánað dóm vegna glæps, ekki fyrir.
Tillaga: Adnan er saklaus, sat í 23 ár í fangelsi vegna glæps sem hann framdi ekki.
2.
Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni, þar sem hann hefur verið að gera góða hluti.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Er þessi Freyr dverhagur og gerir góða hluti, tálgar meðal annars jólasveina sem hann selur á handverksmarkaði í Lyngby? Þjálfar hann í aukavinnu fótboltalið og stendur sig vel? Hver veit?
Þrennt er afar slæmt. Í fyrsta lagi ómerkilegar klisjur sem alltof margir íþróttablaðamenn skemma fréttir sínar með, endurtaka æ ofan í æ. Annað er vanþekkingin sem stafar af rýrum orðaforða. Þriðja er að blaðamenn eru margir afleitir sögumenn, reyna ekki að tileinka sér listina. Þetta síðasta á ekki aðeins við íþróttablaðamenn. Þetta oft skýringin á illa skrifuðum fréttum.
Í fréttinni segir:
Hinn ástsæli íþróttafréttamaður Guðmundur Benediktsson stýrði umfjöllun um EM á Stöð 2 Sport.
Hvernig finnur blaðamaðurinn það út að kollegi hans sé ástsæll. Þekkjast þeir persónulega? Hefur verið gerð skoðanakönnun meðal almennings sem blaðamaðurinn styðst við? Eða er þetta tómt prump í honum?
Ein mikilvægasta reglan í blaðamennsku er að veita upplýsingar. Önnur er að halda eigin skoðunum utan við fréttir.
Tillaga: Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni og stendur sig vel.
3.
Í kjölfar þess að Rússar skutu tugum stýriflauga á úkraínskar borgir á mánudaginn tóku
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Orðlagið er þreytt, orðin klisja. Hér má í staðinn segja eftir að sem er miklu skárra. Takið eftir hvað fornafnið þess stendur hallærislega. Saman ber mikilvægi þess og svo framvegis.
Tillaga: Eftir að Rússar skutu tugum stýriflauga á úkraínskar borgir á mánudaginn tóku
4.
geimflaugin hafnaði í sjónum við Íslandsstrendur.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin er skrýtin, eiginlega slundasamlega skrifuð. Á vísi.is kemur berlega fram að flaugin hafi lenti um 500 metrum frá þeim stað þar sem henni var skotið upp. Vissulega við Íslandsstrendur en ...
Í fréttinni á vef Moggans er haft eftir forstjóra fyrirtækisins sem stóð að geimskotinu að ...
... geimskotið [sé] sigur fyrir samband Bretlands og Íslands og geimrannsóknir í Evrópu.
Ummælin eru skrýtin, eiginlega bull.
Tillaga: geimflaugin lenti í sjónum skammt frá skotstaðnum.
5.
Systrasvipurinn hefur ekki glatast með árunum en hér má sjá þær tvítugar.
Frétt á blaðsíðu 12 í Fréttablaðinu 14.10.22.
Athugasemd: Þetta er algengt orðlag í myndatextum fjölmiðla, hér má sjá. Sjá ekki flestir myndina fyrst og myndatextann á eftir?
Undir mynd af skipi stendur stundum: Hér má sjá skip. Hugsa blaðamenn ekki þegar þeir semja myndatexta eða er ofangreindur frasi ófrávíkjanlegur?
Tillaga: Systrasvipurinn hefur ekki glatast með árunum, hér eru þær tvítugar.
6.
1922-nefndin, sem í sitja þeir þingmenn Íhaldsflokksins sem ekki sitja í ríkisstjórninni
Sviðsljós á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 15.10.22.
Athugasemd: Aldrei á að byrja málsgrein á tölustaf. Engin undantekning er frá þessari reglu, það liggur í augum uppi. Hvað skal þá gera þegar heiti er að hluta eða öllu leyti í tölustöfum? Svarið er einfalt: Umorða. Gæta þess að heitið með tölunni sé inni í málsgreininni.
Málsgreinin er svona í heild sinni:
1922-nefndin, sem í sitja þeir þingmenn Íhaldsflokksins sem ekki sitja í ríkisstjórninni gæti hins vegar breytt þeim reglum, sér í lagi ef nógu margir þingmenn ákveða að lýsa yfir vantrausti á Truss með því að skila inn vantraustsbréfi til nefndarinnar.
Auðvelt er að breyta málsgreininni eins og gert er í tillögunni. Hitt er svo annað mál að blaðamaðurinn skrifar afar fróðlega og góða grein en ekkert að málfari hennar.
Tillaga: Aðeins 1922-nefndin getur breytt reglunum. Í henni eru þingmenn Íhaldsflokksins sem ekki sitja í ríkisstjórn
7.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, en þar segir að þeir hafi verið að ráðast á fólk af handahófi
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Ljótt erða. Menn ráðast á aðra af handahófi. Hingað til hafa bófar valið sér fórnarlömb að vandlega athuguðu ráði. Hvort skyldi nú vera skárra - eða þá verra?
Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir litlu hvers vegna einhverjir verða fyrir líkamsárás. Lögin banna manni að berja annan. Punktur.
Í fréttatíma Ríkisútvarpsins kl. 12:20 þann 16.10.22 var sagt að piltar hefðu ráðist á fólk að tilefnislausu. Miklu betra orðalag. Sérstaklega ber að hrósa blaðamanninum fyrir að apa ekki eftir orðalagi löggunnar. Það er mikill áfangi til sjálfstæðra og betri fréttaskrifa.
Tillaga: Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, en þar segir að þeir hafi ráðist á fólk að tilefnislausu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðili handtekinn - fáklædd mynd - haldlögðu listaverk
12.10.2022 | 10:43
Orðlof
Allir saman nú
Þrátt fyrir leit hef ég hvergi séð setningu sem talin er sú stysta með öllum íslenskum bókstöfum. Í henni þurfa að vera:
aá b d ð eé f g h ií j k l m n oó p r s t uú v x yý þ æ ö = 32 stafir.
Það er ágæt þraut fyrir samkvæmi að láta búa til slíkar setningar og alls ekki auðveld. Oftast verður líklega að nota einhverja stafi oftar en einu sinni. Í samkvæmi nokkru urðu þessar tvær setningar til:
Hyldýpi þjóðfélagsins vex úr kærkomnu böli í ást. (42 stafir)
Þá heyrði Pési djöflasöng óma úr uxakví og bæ Týs. (41 stafur)
Nú er sjálfsagt að reyna sig!
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Aðili var handtekinn
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Á málinu.is sem er nauðsynlegt hjálpargagn fyrir þá sem stunda skriftir, jafnt blaðamenn sem aðra stendur:
Athuga að ofnota ekki orðið aðili.
Aðili er tvímælalaust ofnotað í löggufréttum og frásögnum af dómsmálum. Þar þykir það fínt. Í fjölmiðlum er orðið notað til að þurfa ekki að kyngreina mann, löggurnar tala líka um geranda.
Bæði orðin, aðili og gerandi eru ofnotuð, eru illa lyktandi og fráhrindandi í löggufréttum og jafnvel víðar.
Orðið aðili er sjaldnast notað um þann sem verður fyrir óhappi, slysi, árás eða þaðan af verra. Hvernig skyldi standa á því?
Tillaga: Maður var handtekinn
2.
Tilkynnt var um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi í hverfi 108.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Löggan virðist óskrifandi og fáfróð. Heldur sem fyrr að póstnúmer séu heiti á hverfum. Svo er hún ekki einu sinni samkvæm sjálfri sér. Ýmist segir hún atburði gerast í póstnúmerum, óskilgreindum umdæmum lögreglunnar í hverfum sem hún nefnir eða þá í nafngreindum hverfum, stundum hvort tveggja í einu.
Blaðamanni á fréttablaðið.is finnst fréttnæmast að löggan hafi stoppað bíl dópista með naglamottu. Annað vekur ekki athygli hans og bendir til að hann hafi fréttanef, ólíkt þeim á Mogganum.
Blaðamanni á mbl.is gerir það sem honum er sagt, hugsunarlaust. Í frétt hans segir:
- Tilkynnt var um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi í hverfi 108. Búið var að stela útivistarbúnaði.
- Einnig var tilkynnt um rúðubrot í fjölbýlishúsi
- um innbrot í nýbyggingu þar sem verkfærum var stolið.
- um þjófnað úr verslun í Reykjavík.
Stuttlega frá sagt og lesendur eru engu nær og kæra sig kollótta.
Aðrir fjölmiðlar nefna ekki dagbók löggunnar, annað hvort finna blaðamenn ekkert fréttnæmt í henni eða eftir er að semja frétt byggða á henni. Gjörvallt alþýða manna bíður spennt eftir að fá að lesa um dagbók löggunnar í öllum fjölmiðlum með nánast sama orðalagi.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Segir engar raðir verða í Bláfjöllum eftir að nýjar lyftur koma.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hér er aðeins vísað í útvarpsviðtal, engin er fréttin. Þarna hefði þó átt að nota viðtengingarhátt.
Tillaga: Segir engar raðir verði í Bláfjöllum eftir að nýjar lyftur koma.
4.
Fyrirsætan setur allt á hliðina með fáklæddri mynd.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hefur einhver séð fáklædda mynd? Hins vegar eru tíðum myndir í fjölmiðlum af fáklæddu fólki. Það er allt annað. Er það einhver nýlunda þó fyriræta sé fáklædd á mynd?
Svo er það hitt, sem ekki kemur fram í fréttinni: Hvað sé þetta allt sem fór á hliðina vegna myndarinnar?
Tillaga: Fyrirsætan setur allt á hliðina með mynd af sér fáklæddri.
5.
Stórt safn listaverka varð eftir í París og herma skrár nasista að þeir hafi haldlagt 80 kassa af alls kyns verkum.
Frétt á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 12.10.22.
Athugasemd: Greinin er afar fróðleg og vel skrifuð. Í fjölmiðlum er einatt sagt að löggan hafi haldlagt hitt og þetta. Henni og bjúrókrötum stjórnsýslunnar þykir orðið fínt enda þýðing á enska orðinu confiscate sem tíðum er brúkað í löggumyndum frá enskumælandi löndum. Þess vegna skrifar löggan ekki að þjófstolnir hlutir hafi verið teknir af þjófum. Venjulegt alþýðumál er nokkuð sem er fyrir neðan virðingu hennar.
Smám saman síast svona orðalag inn og við, litlir og óstöðugir smælingjar tökum það ósjálfrátt upp. Þannig breytist málið af völdum gáfumenna í löggunni og stjórnsýslunni, kontóristanna.
Haldlagning og að haldleggja eru ný orð í málinu. Út af fyrir sig ágætlega mynduð en ofnotkunin er hræðilega mikil og nær alltaf í löggumáli.
Enginn haldleggur tíu króna mynt sem hann finnur á gangstétt eða koníakspela sem blasir við göngumanni á milli þúfna á heiðum uppi. Slíkt er tekið, segir alþýðumaðurinn, og allir skilja.
Ekki er heldur sagt að fingralangur hafi haldlagt Prins Póló í verslun og hlaupið út. Ekki frekar en að pörupiltur hafi séð ökutæki í gangi og haldlagt hana. Nei, nei. Bara löggan haldleggur sem er allt annar handleggur.
Þegar misyndismenn haldleggja talar löggan ábúðafull um nytjastuld. Alþýða manna kallar svoleiðis þjófnað og telur tilganginn engu skipta.
Ekki er að undra þó höfundur greinarinnar, sem vitnað er til hér að ofan, skuli hafa sagt að nasistar hafi haldlagt listaverk. Í raun var þetta þjófnaður, þeir stálu þeim.
Tillaga: Stórt safn listaverka varð eftir í París og herma skrár nasista að þeir hafi stolið 80 kössum af alls kyns verkum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)