Bloggfærslur mánaðarins, október 2022
Netsamband skorið niður - fundur fer fram - berskjalda sig inn að beini
31.10.2022 | 17:38
Orðlof
Áskoranir
Ég hef tekið eftir því að nú til dags eru ekki lengur til viðfangsefni, vandamál eða erfiðleikar sem þarf að takast á við. Nei, þetta heitir allt áskoranir sem þarf að mæta.
Það er talað um alþjóðlegar áskoranir, pólitískar áskoranir, áskoranir innan knattspyrnu, áskoranir í kynþáttabili, áskoranir smáríkja og áskoranir Íslands svo nokkur dæmi séu tekin af handahófi úr almennri umræðu í fjölmiðlum.
Guðmundur Sv. Hermannsson. Ljósvakinn, Morgunblaðið 25.10.22.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
og síðan hafa mannfjöldatölur í Rússlandi aðeins farið í eina átt, niður á við.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Vinur minn einn, nokkuð glúrinn alþýðumaður, heldur því fram að annað hvort fjölgi fólki eða því fækki. Sem sagt talan getur farið upp eða niður, það er hækkað eða lækkað.
Vera má að eitthvað flóknara kerfi liggi að baki orðum blaðamannsins en það kemur ekki fram í fréttinni.
Tillaga: og síðan hefur fólki fækkað í landinu.
2.
ISNA-fréttastofan í Íran sagði að netsambandið hefði verið skorið niður í Saqez af öryggisástæðum og að nærri 10.000 manns hefðu safnast saman í borginni.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn var látinn þýða enska frétt sem birtist á Reuters og er svona:
The semi-official ISNA news agency said about 10,000 people had gathered at the cemetery, adding that the internet was cut off after clashes between security forces and people there.
Blaðamaðurinn hefur engar vöfflur á sér heldur þýðir beint og þykist góður. The internet was cut off stendur í heimildinni sem hann útleggur; netsambandið hefur verið skorið niður.
Hvað á að segja um svona vinnubrögð?
Tillaga: ISNA fréttastofan í Íran sagði að um 10.000 manns hefðu safnast saman í kirkjugarðinum og bætti því við að netsambandinu þarna hefði verið lokað eftir átök öryggissveita og almennings.
3.
Ónýtur skriðdrekaturn liggur á jörðinni nálægt
Myndatexti á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 27.10.22.
Athugasemd: Athugulir lesendur Morgunblaðsins sáu hugsanlega að skriðdrekaturninn var ekki uppi í nærliggjandi trjám. Blaðamaðurinn treysti því ekki, þó alkunna sé að ein mynd segi meira en þúsund orð. Honum þótti vissara að lýsa myndinni.
Tillaga: Ónýtur skriðdrekaturn nálægt
4.
eða hvað sem er undir önnur mál á fundi félgsins sem fram fer í kvöld.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nú fer allt fram, ekkert verður. Margir blaðamenn virðast ekki hafa góða máltilfinningu og því apa þeir upp eftir öðrum orðalag sem gæti gengið.
Tillaga: eða hvað sem er undir önnur mál á fundi félagsins sem verður í kvöld.
5.
Arsenal-menn mest sannfærandi.
Frétt á blaðsíðu 27 í íþróttablaði Morgunblaðsins 31.10.22.
Athugasemd: Sá sem er sannfærandi getur til dæmis verið öruggur með sig, afgerandi, vel heppnaður, hrífandi, áhrifaríkur og svo framvegis. Má vera að blaðamanni finnist lið Arsenal vera trúverðugt í leik sínum en fleiri lið hafi verið það líka.
Lýsingarorðið sannfærandi á ekki við í frétt Moggans. Mörg lið sem eru sannfærandi í leik sínum hafa í raun staðið sig vel en eitt verið betra en önnur. Þar af leiðir að einfaldast hefði verið að nota lýsingarorðið góður í efsta stigi.
Mest hugsandi blaðamenn eru án efa best skrifandi og lítt skeytandi um sífellt fækkandi lesendur. Við bíðum bara á öndinni standandi hvað verði nýtt fréttandi í fjölmiðlum morgundagsins.
Tillaga: Arsenal-menn bestir.
6.
Þolendur eiga ekki að þurfa að berskjalda sig inn að beini til þess að við trúum þeim.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Berskjaldaður maður er varnarlaus. Orðalagið að berskjalda sig inn að bein er ekki til. Sá sem er stendur berskjaldaður hefur enga vörn, hefur engan skjöld sér til varnar.
Í áhugaverðum pistli segir Eiríkur Rögnvaldsson um þetta orðalag:
Merkingin virðist oftast vera opna sig, bera tilfinningar sínar á torg frekar en beinlínis gera sig varnarlausan þótt þarna sé vissulega stutt á milli og segja megi að opnunin leiði til varnarleysis.
Örfá dæmi eru um sögnina frá tveimur síðustu áratugum 20. aldar og fyrsta áratug þessarar, en allmörg dæmi eru frá síðasta áratug. Það er þó einkum á síðustu tveimur árum sem dæmum fjölgar verulega sögnin er greinilega búin að ná fótfestu meðal málnotenda. Það er engin ástæða til annars en fagna því mér finnst þetta ágæt sögn og gagnast vel.
Eiríkur er nokkuð sannfærandi enda yfirburðamaður íslenskum fræðum. Ég þarf þó að velta þessari skoðun hans aðeins fyrir mér en er þó viss um að hann samþykki ekki orðalagið berskjalda sig inn að beini.
Tillaga: Þolendur eiga ekki að þurfa að vera algjörlega varnarlausir til að við trúum þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Meðlimur í stjórn - plís borgarstjóri - brottvísa vegna afbrota
24.10.2022 | 11:04
Orðlof
Nýja þolmyndin
Ef nefna skal dæmi um setningargerð má segja að hin svokallaða nýja þolmynd sé mjög að ryðja sér til rúms. Þá er til dæmis sagt:
það var barið þig, það var bannað mér, það var ekki leyft okkur í stað þú varst barinn, mér var bannað, okkur var ekki leyft.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík og meðlimur í stjórn Strætó
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er ótrúlega bjánaleg málsgrein. Varla blaðamanninum að kenna heldur hæfi þeirra sem standa að ráðningum í stofnuninni.
Tillaga: Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík og stjórnarmaður Strætó
2.
Viltu laga þetta plís borgarstjóri.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Fimm ára barn skrifar borgarstjóranum. Trúir því einhver? Mynd af bréfinu fylgir fréttinni og á henni sést að rithöndin er ekki barns og orðalagið ekki heldur. Fjarri því.
Setjum samt svo að barnið hafi sagt plís borgarstjóri. Líklega er þá fokið í flest skjól ef fimm ára barna grípur til enskunnar.
Gemmér köku, segja litlu börnin stundum. Foreldrar sem taka hlutverk sitt af alvöru rétta kökuna í áttina að barninu og segja blíðlega: Það á að segja viltu gefa mér köku. Og barnið lærir, biður um kökuna.
Barn sem rekur í vörðurnar fær hjálp. Enginn á að þurfa að sletta. Slettur eru ljótar í máli fullorðinna en framtíðin er í húfi geri börnin það.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Hilmar Þór segir erfitt að segja til hvaða ráða Rússar grípi en sprenging á stíflunni myndi fyrst og fremst bitna á almennum borgurum.
Frétt á Vísi.is.
Athugasemd: Orðalagið sprenging á stíflunni og stíflan sprengd merkir ekki það sama. Þetta er skrifað af hugsunarleysi og líklega er blaðamaðurinn óvanur að tjá sig skriflega. Nástaðan styður þá grunsemd.
Líklega er átt við að stíflan verði sprengd.
Tillaga: Hilmar Þór segir erfitt að ráða í hvað Rússar muni gera en verði stíflan sprengd myndi það fyrst og fremst bitna á almennum borgurum.
4.
Gæti orðið að helvíti á jörðu ef ekki er brugðist við.
Frétt á Fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Setningin er gæti verið betri.
Tillaga: Gæti orðið að helvíti á jörðu verði ekki brugðist við.
5.
Upp úr klukkan hálfeitt í nótt var tilkynnt um tvo 16 ára drengi að skemma bifreiðar í Breiðholti.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þarna vantar sögn til uppfyllingar. Á vísi.is segir um drengina:
grunaðir um að hafa skemmt tólf bíla Breiðholti.
Þetta er mun skýrara, rétt eins og á ruv.is en þar segir:
tilkynnt um að drengir væru að skemma bíla.
Tillaga: Upp úr klukkan hálfeitt í nótt var tilkynnt um tvo 16 ára drengi sem voru að skemma bifreiðar í Breiðholti.
6.
Hægt að brottvísa vegna afbrota.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 24.10.22.
Athugasemd: Þeir sem fréttaskrifa þurfa að málfarsgæta sín. Leiðinlegt er að nafnorðasagnalesa, slíkt augstingur lesendur.
Viðbúið er að löggan og misvitrir lögfræðingar upptaki bjánaorðið afbrotabrottvísun. Þá er kominn tími að niðurleggja sig og rúmsofa fram á næstu öld.
Tillaga: Hægt að vísa úr landi vegna afbrota.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Orðlof
Stóra ógnin
Í bili virðist efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði Íslands ekki ógnað. [ ]Það merkir þó ekki að engar hættur steðji að fullveldi Íslands og mesta hættan felst í því að þrengt er að íslensku af ofurvaldi ensku en Íslendingar hafa verið deigir við að kenna nýjum íbúum íslensku þó að það sé mannekla á landinu eins og bent hefur verið á.
Auðvitað tala nýir íbúar landsins ekki íslensku frá upphafi og ef ekki verður tekið á er hætt við að litlir hvatar verði til að þeir læri málið.
Þar með er sjálfstæði Íslands auðvitað ógnað því að ef íslensk tunga og íslensk menning hverfur fækkar mjög rökunum fyrir því að þessi fámenna þjóð sé sjálfstæð.
Hér fer því ótvírætt mesta ógn sem hefur stafað að sjálfstæði Íslands seinustu áratugi.
Sverrir Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar. Grein á vísi.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hann segir að í bili sé efnahagslegt og stjórnmálalegt sjálfstæði Íslands ekki ógnað, þar sem ólíkt mörgum ríkjum álfunnar ríki hér ekki
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Fréttin er endursögn úr grein eftir formann Íslenskrar málnefndar um ógnir sem steðja að íslenskri tungu. Því er afar meinlegt að blaðamaðurinn fallbeygi ekki feitletruðu orðin, þó hlýtur hann að hafa séð að svo er gert í greininni.
Málsgreinin er of löng, Hann hefði átt að setja punkt aftan við orðið ógnað og byrja þá nýja málgrein. Tillagan er mun skárri.
Tillaga: Hann segir að í bili sé efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði Íslands ekki ógnað. Ólíkt mörgum ríkjum álfunnar ríki hér ekki
2.
en hávær köll höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa.
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 20.10.22.
Athugasemd: Tilvitnunin er ekki skiljanleg. Í heild er hún svona:
Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels, lýsti því hins vegar yfir í gær að Ísraelsmenn myndu ekki hefja vopnasölu til Úkraínu, en hávær köll höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa.
Spurning er sú hvort köllin hafi verið óskir, kröfur, beiðnir eða álíka. Alls ekki er ljóst hvað átt er víð. Af orðalagin má ráða að þessi hluti sé bein þýðing úr ensku en orðið má ekki þýða beint.
Ég hef nokkrum sinnum skrifað um þetta leiðinda orðalag kalla eftir og nafnorðið ákall. Hér er lengri útgáfan:
Enginn veit hvað orðalagið að kalla eftir merkir á íslensku. Allir skilja þó ef smiðurinn kallar eftir hamrinum. Má vera að þetta sé einhvers konar jæja, túlkunin velti á tónfalli þess sem mælir og hugsanlega samhenginu. Munurinn er hins vegar sá að hið fyrrnefnda er tóm vitleysa, komin úr ensku to call for sem gæti þýtt að krefjast.
Samkvæmt enskum orðabókum er orðalagið til í fjölbreytilegum samsetningum:
- Desperate times call for desperate measures
- The report calls for an audit of endangered species
- Ill call for you around seven
- The forecast is calling for more rain
- This calls for a celebration
- The situation calls for prompt action
- The opposition have called for him to resign
Ekkert af ofangreindu er hægt að þýða með því að nota orðalagið að kalla eftir. Hvað er átt við með eftirfarandi tilbrigðum orðalagsins kalla eftir? Hér eru dæmi úr vefnum:
- Kalla eftir afsögn: Krefjast.
- Kalla eftir skýrslu: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
- Kalla eftir úrbótum: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
- Kalla eftir mótmælum: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
- Kalla eftir svörum: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
- Kalla eftir lægra verði: Krefjast.
- Kalla eftir upplýsingum: Óska eftir, krefjast eða biðja um.
- Kalla eftir meira frumkvæði: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
- Kalla eftir umræðu: Hvetja til, biðja um, óska eftir.
- Kalla eftir aðstoð: Biðja um, óska eftir.
Kall/köll er hróp. Ekki samheiti á óskum, kröfum eða beiðnum.
Með pistlinum er ég að biðja um að fólk veiti athygli að orðalagið kalla eftir er allsendis ófullnægjandi á íslensku.
Segi enskumælandi hins vegar: I call you around seven merkir það ekki að hann muni þá hrópa klukkan sjö. Nei, þá hringir hann.
Til að forðast misskilning skal hér tekið fram að greinin í Mogganum er verulega áhugaverð og vel skrifuð.
Tillaga: en háværar kröfur höfðu heyrst um slíkt vegna vopnasölu Írana til Rússa.
3.
Múlakaffi opnar Intro á Höfðatorgi.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 20.10.22.
Athugasemd: Veitingahúsið heitir Intro. Hefur fólk heyrt annað eins? Já því miður. Fullt af dæmum eru til um álíka óvirðingu sem margir eigendur fyrirtækja sýna íslenskri tungu. Og hverjir eru viðskiptavinirnir? Þeir eru langflestir Íslendingar. Ekkert er að því að nota íslenskt heiti.
Hefði ég verið spurður um nafn á veitingahús hefði ég, eftir dálitla umhugsun, stungið upp á Beini. Gott orð, jafn mörg atkvæði og bastarðurinn intro. Veit lesandinn hvað beini merkir?
Tillaga: Múlakaffi opnar Saura á Höfðatorgi.
4.
Þar kemur fram að Veitur séu að horfa til þess að tryggja höfuðborgarsvæðinu nægilegt heitt vatn til framtíðar.
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 21.10.22.
Athugasemd: Í stað ofnotaða orðasambandsins að Veitur séu að horfa til þess er miklu betra að segja að Veitur vilji
Tillaga: Þar kemur fram að Veitur vilji tryggja höfuðborgarsvæðinu nægilegt heitt vatn til framtíðar.
5.
Áður en hann ýtti konunni ofan í holuna segir hún að á hann hafi sagt henni frá því að hann hafi drepið fyrrverandi eiginkonu sína.
Frétt á vísir.is.
Athugasemd: Talsverður munur er á holu og gryfju. Holur eru á veginum um Vatnsnes og víðar. Golfarar leitast við að koma kúlu ofan í holu.
Hola er yfirleitt lítil og grunn. Myndirnar sem fylgja fréttinni er af gryfju, djúpu jarðfalli, stórum brunni. Blaðamaðurinn þýðir sænska orðið gruvhål sem hola.
Einnig er nokkur munur á orðunum að ýta og hrinda.
Tillaga: Konan fullyrðir að áður en að hann hrinti henni í gryfjuna hafi hann sagst hafa drepið fyrrverandi eiginkonu sína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Morð á manni - sjálfseyðandi drónar - hún er ekki á leiðinni út
19.10.2022 | 10:01
Orðlof
Allavega
Samkvæmt Íslenskri orðabók (1983) merkir orðið allavega á allan hátt, t.d. þegar sagt er Þetta getur farið allavega, eða af öllu tagi, eins og í sambandinu allavega bækur.
En í talmáli nota margir orðið í merkingunni hvað sem öðru líður. Þá er t.d. sagt Guðrún hefur oft verið til vandræða í skólanum. Allavega finnst sumum kennaranna það. Þegar orðið er notað á þennan hátt er sá sem talar að draga úr fullyrðingunni sem hann var búinn að setja fram eða setja e.k. fyrirvara.
Orðið allavega getur líka merkt fleira, t.d. að minnsta kosti eins og í setningunni Hann er allavega fimmtugur, ef ekki eldri. Sumir hafa amast við þessari notkun orðsins, t.d. telur Íslensk orðabók hana ekki góða og gilda.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ræddu morð á Guðlaugi Guðlaugi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Eitthvað virðist þetta ankannalegt. Bjánarnir í gæsluvarðhaldinu töluðu um að myrða manninn.
Á vísi.is, fréttablaðinu.is, ruv.is og jafnvel á dv.is er réttilega skrifað:
að myrða Guðlaug Þór.
Nafnorðaáráttan er mun hættulegri íslensku máli en þágufallsýki og margt annað.
Tillaga: Ræddu um að myrða Guðlaug.
2.
þegar Rússar gerðu árásir á borgina með svokölluðum kamikaze eða sjálfseyðandi drónum.
Frétt á blaðasíðu 13 í Morgunblaðinu 18.10.22.
Athugasemd: Sjálfseyðandi merkir að hluturinn tortímir eða eyði sjálfum sér. Slíkir drónar springa á ákvörðunarstað sínum rétt eins og eldflaugar. Þær hafa þó aldrei verið sagðar sjálfseyðandi.
Á ensku eru svona tæki kölluð self destruct drones og eru víða á netinu áhugaverðar greinar um þau.
Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta dálítið skrýtið að kalla drónana sjálfseyðandi hvort heldur er á íslensku eða útlensku. Má vera að það sé vegna tæknilegra skilningsleysis.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Hér birtast allar helstu íþróttafréttir dagsins í dag, þriðjudagsins 18.október, í lifandi uppfærslu.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Svona hefur þetta verið í nokkurn tíma á vef Ríkisútvarpsins. Orðalagið er frekar viðvaningslegt og um leið yfirdrifið og því miður virðist það vera sjálfhverft.
Til hvers að segja hér birtast. Er ekki nóg að nefna skrifa íþróttafréttir dagsins. Raunar er dagsetningin óþörf. Tillagan er mun skárri.
Nástaðan er áberandi, dagsins, dag og dagsins. Viðvaningslegt.
Frasinn lifandi uppfærsla er það sem nefnt var sjálfhverft. Verið er að hreykja sér og nota orðalag sem hjálpar ekkert lesandanum ekkert. Hann tekur ekki andköf af hrifningu í hvert sinn sem hann les þetta.
Þar að auki er frekar óþægilegt að lesa fréttirnar í einum breiðum dálki. Lesandinn þarf að skrolla niður og leita. Það gera fjölmiðlar ekki með fréttir sínar. Lesendur nenna oft ekki að leita. Í góðum fjölmiðlum er reynt að vekja athygli á hverri frétt, ekki fela þær. Formið er margnotað á vef Ríkisútvarpsins; fyrir einstök viðtöl og fréttaskýringar sem er líklega ágætt en hentar ekki fyrir fjölda frétta. Svo virðist sem vefurinn sé ekki nógu vel hannaður, bjóði ekki upp á margar fréttir og því sé þessi kostur notaður.
Tillaga: Allar helstu íþróttafréttir dagsins.
4.
Stúlkubarn væntanlegt um miðjan janúar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ein aðalfréttin á vef Moggans og Fréttablaðsins er að nafngreint par eigi von á barni. Gasalega er þetta nú spennandi fréttaefni - eða þannig.
Svipuð ekkifrétt er á mbl.is. Í henni er greint frá því að einhver náungi sem enginn þekkir hafi keypt sér fimm ára gamlan Range Rover sem þó er rándýr. Og fær í þokkabót hamingjuóskir frá blaðamanninum (skrýtin blaðamennska). Ég á sjö ára gamla Toyotu en Smartland Moggans hefur ekki enn óskað mér til hamingju með hana. Líklega er bíllinn minn of gamall og ódýr og ég ekki einu sinni frægur.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Baðst afsökunar á mistökum en sagðist ekki á leiðinni út.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Sá sem er á leiðinni út er inni í húsi og á leið út úr því. Þó kann að vera að hann sé á leið til útlanda. Jafnvel hvort tveggja.
Á ensku getur orðalagið on the way out merkt að hætta. Þegar við segjum á íslensku að einhver sé á leiðinni út er ekki átt við að hann muni hætta.
Orðréttar þýðingar úr ensku geta skaðað íslenska tungu meira en margt annað.
Tillaga: Baðst afsökunar á mistökum en sagðist ekki að hætta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gera góða hluti - í kjölfar þess - árásir af handahófi -
16.10.2022 | 19:56
Orðlof
Náttúrunöfn
Eins og sjá má í Landnámu virðist hafa verið mjög algengt að örnefni tengdust mannanöfnum.
Upp úr 1965 setti Þórhallur Vilmundarson fram hugmyndir sínar um náttúrunöfn. Hann heldur því fram að nafngiftir hafi mjög oft tengst fyrirbærum í náttúrunni en ekki þeim mönnum sem hér námu land. Þannig eigi t.d. Dýrafjörður ekkert skylt við Dýra landnámsmann, heldur opnist dyr þegar siglt er í átt að firðinum: Dyrafjörður.
Grímsá væri þá hin svarta á, sbr. það að gríma merkti nótt í skáldamáli. Grímsár eru margar á Íslandi, rétt eins og Svartár; þær eru bergvatnsár og því dökkar á lit. Það sést best þegar þær falla í jökulár sem oft virðast hvítar, sbr. nafnið Hvítá.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Adnan er saklaus og hefur misst 23 ár af lífi sínu, að afplána dóm fyrir glæp sem hann framdi ekki.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Málsgreinin er óvönduð. Fyrri hlutinn er ekki tengdur við seinni hlutann. Eitthvað vantar.
Betur fer á því að segja að maðurinn hafi afplánað dóm vegna glæps, ekki fyrir.
Tillaga: Adnan er saklaus, sat í 23 ár í fangelsi vegna glæps sem hann framdi ekki.
2.
Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni, þar sem hann hefur verið að gera góða hluti.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Er þessi Freyr dverhagur og gerir góða hluti, tálgar meðal annars jólasveina sem hann selur á handverksmarkaði í Lyngby? Þjálfar hann í aukavinnu fótboltalið og stendur sig vel? Hver veit?
Þrennt er afar slæmt. Í fyrsta lagi ómerkilegar klisjur sem alltof margir íþróttablaðamenn skemma fréttir sínar með, endurtaka æ ofan í æ. Annað er vanþekkingin sem stafar af rýrum orðaforða. Þriðja er að blaðamenn eru margir afleitir sögumenn, reyna ekki að tileinka sér listina. Þetta síðasta á ekki aðeins við íþróttablaðamenn. Þetta oft skýringin á illa skrifuðum fréttum.
Í fréttinni segir:
Hinn ástsæli íþróttafréttamaður Guðmundur Benediktsson stýrði umfjöllun um EM á Stöð 2 Sport.
Hvernig finnur blaðamaðurinn það út að kollegi hans sé ástsæll. Þekkjast þeir persónulega? Hefur verið gerð skoðanakönnun meðal almennings sem blaðamaðurinn styðst við? Eða er þetta tómt prump í honum?
Ein mikilvægasta reglan í blaðamennsku er að veita upplýsingar. Önnur er að halda eigin skoðunum utan við fréttir.
Tillaga: Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni og stendur sig vel.
3.
Í kjölfar þess að Rússar skutu tugum stýriflauga á úkraínskar borgir á mánudaginn tóku
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Orðlagið er þreytt, orðin klisja. Hér má í staðinn segja eftir að sem er miklu skárra. Takið eftir hvað fornafnið þess stendur hallærislega. Saman ber mikilvægi þess og svo framvegis.
Tillaga: Eftir að Rússar skutu tugum stýriflauga á úkraínskar borgir á mánudaginn tóku
4.
geimflaugin hafnaði í sjónum við Íslandsstrendur.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin er skrýtin, eiginlega slundasamlega skrifuð. Á vísi.is kemur berlega fram að flaugin hafi lenti um 500 metrum frá þeim stað þar sem henni var skotið upp. Vissulega við Íslandsstrendur en ...
Í fréttinni á vef Moggans er haft eftir forstjóra fyrirtækisins sem stóð að geimskotinu að ...
... geimskotið [sé] sigur fyrir samband Bretlands og Íslands og geimrannsóknir í Evrópu.
Ummælin eru skrýtin, eiginlega bull.
Tillaga: geimflaugin lenti í sjónum skammt frá skotstaðnum.
5.
Systrasvipurinn hefur ekki glatast með árunum en hér má sjá þær tvítugar.
Frétt á blaðsíðu 12 í Fréttablaðinu 14.10.22.
Athugasemd: Þetta er algengt orðlag í myndatextum fjölmiðla, hér má sjá. Sjá ekki flestir myndina fyrst og myndatextann á eftir?
Undir mynd af skipi stendur stundum: Hér má sjá skip. Hugsa blaðamenn ekki þegar þeir semja myndatexta eða er ofangreindur frasi ófrávíkjanlegur?
Tillaga: Systrasvipurinn hefur ekki glatast með árunum, hér eru þær tvítugar.
6.
1922-nefndin, sem í sitja þeir þingmenn Íhaldsflokksins sem ekki sitja í ríkisstjórninni
Sviðsljós á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 15.10.22.
Athugasemd: Aldrei á að byrja málsgrein á tölustaf. Engin undantekning er frá þessari reglu, það liggur í augum uppi. Hvað skal þá gera þegar heiti er að hluta eða öllu leyti í tölustöfum? Svarið er einfalt: Umorða. Gæta þess að heitið með tölunni sé inni í málsgreininni.
Málsgreinin er svona í heild sinni:
1922-nefndin, sem í sitja þeir þingmenn Íhaldsflokksins sem ekki sitja í ríkisstjórninni gæti hins vegar breytt þeim reglum, sér í lagi ef nógu margir þingmenn ákveða að lýsa yfir vantrausti á Truss með því að skila inn vantraustsbréfi til nefndarinnar.
Auðvelt er að breyta málsgreininni eins og gert er í tillögunni. Hitt er svo annað mál að blaðamaðurinn skrifar afar fróðlega og góða grein en ekkert að málfari hennar.
Tillaga: Aðeins 1922-nefndin getur breytt reglunum. Í henni eru þingmenn Íhaldsflokksins sem ekki sitja í ríkisstjórn
7.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, en þar segir að þeir hafi verið að ráðast á fólk af handahófi
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Ljótt erða. Menn ráðast á aðra af handahófi. Hingað til hafa bófar valið sér fórnarlömb að vandlega athuguðu ráði. Hvort skyldi nú vera skárra - eða þá verra?
Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir litlu hvers vegna einhverjir verða fyrir líkamsárás. Lögin banna manni að berja annan. Punktur.
Í fréttatíma Ríkisútvarpsins kl. 12:20 þann 16.10.22 var sagt að piltar hefðu ráðist á fólk að tilefnislausu. Miklu betra orðalag. Sérstaklega ber að hrósa blaðamanninum fyrir að apa ekki eftir orðalagi löggunnar. Það er mikill áfangi til sjálfstæðra og betri fréttaskrifa.
Tillaga: Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, en þar segir að þeir hafi ráðist á fólk að tilefnislausu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðili handtekinn - fáklædd mynd - haldlögðu listaverk
12.10.2022 | 10:43
Orðlof
Allir saman nú
Þrátt fyrir leit hef ég hvergi séð setningu sem talin er sú stysta með öllum íslenskum bókstöfum. Í henni þurfa að vera:
aá b d ð eé f g h ií j k l m n oó p r s t uú v x yý þ æ ö = 32 stafir.
Það er ágæt þraut fyrir samkvæmi að láta búa til slíkar setningar og alls ekki auðveld. Oftast verður líklega að nota einhverja stafi oftar en einu sinni. Í samkvæmi nokkru urðu þessar tvær setningar til:
Hyldýpi þjóðfélagsins vex úr kærkomnu böli í ást. (42 stafir)
Þá heyrði Pési djöflasöng óma úr uxakví og bæ Týs. (41 stafur)
Nú er sjálfsagt að reyna sig!
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Aðili var handtekinn
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Á málinu.is sem er nauðsynlegt hjálpargagn fyrir þá sem stunda skriftir, jafnt blaðamenn sem aðra stendur:
Athuga að ofnota ekki orðið aðili.
Aðili er tvímælalaust ofnotað í löggufréttum og frásögnum af dómsmálum. Þar þykir það fínt. Í fjölmiðlum er orðið notað til að þurfa ekki að kyngreina mann, löggurnar tala líka um geranda.
Bæði orðin, aðili og gerandi eru ofnotuð, eru illa lyktandi og fráhrindandi í löggufréttum og jafnvel víðar.
Orðið aðili er sjaldnast notað um þann sem verður fyrir óhappi, slysi, árás eða þaðan af verra. Hvernig skyldi standa á því?
Tillaga: Maður var handtekinn
2.
Tilkynnt var um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi í hverfi 108.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Löggan virðist óskrifandi og fáfróð. Heldur sem fyrr að póstnúmer séu heiti á hverfum. Svo er hún ekki einu sinni samkvæm sjálfri sér. Ýmist segir hún atburði gerast í póstnúmerum, óskilgreindum umdæmum lögreglunnar í hverfum sem hún nefnir eða þá í nafngreindum hverfum, stundum hvort tveggja í einu.
Blaðamanni á fréttablaðið.is finnst fréttnæmast að löggan hafi stoppað bíl dópista með naglamottu. Annað vekur ekki athygli hans og bendir til að hann hafi fréttanef, ólíkt þeim á Mogganum.
Blaðamanni á mbl.is gerir það sem honum er sagt, hugsunarlaust. Í frétt hans segir:
- Tilkynnt var um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi í hverfi 108. Búið var að stela útivistarbúnaði.
- Einnig var tilkynnt um rúðubrot í fjölbýlishúsi
- um innbrot í nýbyggingu þar sem verkfærum var stolið.
- um þjófnað úr verslun í Reykjavík.
Stuttlega frá sagt og lesendur eru engu nær og kæra sig kollótta.
Aðrir fjölmiðlar nefna ekki dagbók löggunnar, annað hvort finna blaðamenn ekkert fréttnæmt í henni eða eftir er að semja frétt byggða á henni. Gjörvallt alþýða manna bíður spennt eftir að fá að lesa um dagbók löggunnar í öllum fjölmiðlum með nánast sama orðalagi.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Segir engar raðir verða í Bláfjöllum eftir að nýjar lyftur koma.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hér er aðeins vísað í útvarpsviðtal, engin er fréttin. Þarna hefði þó átt að nota viðtengingarhátt.
Tillaga: Segir engar raðir verði í Bláfjöllum eftir að nýjar lyftur koma.
4.
Fyrirsætan setur allt á hliðina með fáklæddri mynd.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hefur einhver séð fáklædda mynd? Hins vegar eru tíðum myndir í fjölmiðlum af fáklæddu fólki. Það er allt annað. Er það einhver nýlunda þó fyriræta sé fáklædd á mynd?
Svo er það hitt, sem ekki kemur fram í fréttinni: Hvað sé þetta allt sem fór á hliðina vegna myndarinnar?
Tillaga: Fyrirsætan setur allt á hliðina með mynd af sér fáklæddri.
5.
Stórt safn listaverka varð eftir í París og herma skrár nasista að þeir hafi haldlagt 80 kassa af alls kyns verkum.
Frétt á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 12.10.22.
Athugasemd: Greinin er afar fróðleg og vel skrifuð. Í fjölmiðlum er einatt sagt að löggan hafi haldlagt hitt og þetta. Henni og bjúrókrötum stjórnsýslunnar þykir orðið fínt enda þýðing á enska orðinu confiscate sem tíðum er brúkað í löggumyndum frá enskumælandi löndum. Þess vegna skrifar löggan ekki að þjófstolnir hlutir hafi verið teknir af þjófum. Venjulegt alþýðumál er nokkuð sem er fyrir neðan virðingu hennar.
Smám saman síast svona orðalag inn og við, litlir og óstöðugir smælingjar tökum það ósjálfrátt upp. Þannig breytist málið af völdum gáfumenna í löggunni og stjórnsýslunni, kontóristanna.
Haldlagning og að haldleggja eru ný orð í málinu. Út af fyrir sig ágætlega mynduð en ofnotkunin er hræðilega mikil og nær alltaf í löggumáli.
Enginn haldleggur tíu króna mynt sem hann finnur á gangstétt eða koníakspela sem blasir við göngumanni á milli þúfna á heiðum uppi. Slíkt er tekið, segir alþýðumaðurinn, og allir skilja.
Ekki er heldur sagt að fingralangur hafi haldlagt Prins Póló í verslun og hlaupið út. Ekki frekar en að pörupiltur hafi séð ökutæki í gangi og haldlagt hana. Nei, nei. Bara löggan haldleggur sem er allt annar handleggur.
Þegar misyndismenn haldleggja talar löggan ábúðafull um nytjastuld. Alþýða manna kallar svoleiðis þjófnað og telur tilganginn engu skipta.
Ekki er að undra þó höfundur greinarinnar, sem vitnað er til hér að ofan, skuli hafa sagt að nasistar hafi haldlagt listaverk. Í raun var þetta þjófnaður, þeir stálu þeim.
Tillaga: Stórt safn listaverka varð eftir í París og herma skrár nasista að þeir hafi stolið 80 kössum af alls kyns verkum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gríðarlega verðskuldað - ofankoma með vindi - nýir stílar á hverjum degi
9.10.2022 | 11:37
Orðlof
Alveg
Í Brekkukotsannál segir frá því að þeir séra Snorri Björnsson (1710-1803), prestur á Húsafelli, og séra Jón skáld Þorláksson á Bægisá (1744-1819) hafi hist á Kjalvegi og hafi þá Jón ljóðað á Snorra:
Ljót er bölvuð blekkingin
blindar á lífsins Kjalveg.
Snorri svaraði samstundis:
Þó er verst ef þekkingin
þjónar henni alveg.
Það mun að vísu ekki standast að þeir hafi hist Jón og Snorri og ort þessa vísu í sameiningu. Lokaorð hennar, alveg, er hins vegar ekki gamalt í málinu og elstu heimildir um það eru frá byrjun 19. aldar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Það er nokkuð ljóst að Breiðablik verður Íslandsmeistari, sem er gríðarlega verðskuldað enda tímabil Breiðabliks búið að vera magnað.
Frétt á blaðsíðu 49 í Morgunblaðinu 8.10.22.
Athugasemd: Merkingarlaus hringlandi í málsgreininni. Mun skárra er að orða hana eins og segir í tillögunni.
Það er oft ónauðsynlegt í upphafi setningar og jafnvel víðar, kallast aukafrumlag, stundum leppur, og hefur enga sjálfstæða merkingu. Fer afar illa í rituðu máli en er mikið notað í talmáli og er ekkert að því; það er nú það.
Aukafrumlagið þykir yfirleitt frekar þunnur þrettándi. Hvað skyldi nú gerast sé orðinu sleppt. Ekkert gerist nema það eitt að málsgreinin lítur mun betur út. Merkingin helst óbreytt. Gott er að sleppa að skrifa það sem engu máli skiptir.
Hver er munurinn á því sem er verðskuldað og gríðarlega verðskuldað? Þegar grannt er skoðað er hann varla mikill. Til er sögnin að verðskulda og lýsingarorðið verðskuldaður. Afar sjaldgæft er að sjá stigbreytingu lýsingarorðsins; verðskuldaðri árangur, verðskuldaðasti árangurinn. Enn má ítreka að gott er að sleppa því sem engu skiptir.
Lýsingarorðið magnaður virðist vera notað í tíma og ótíma af fólki sem dettur ekkert annað í hug eða er að flýta sér. Þar af leiðir að orðið er þvælt og merkingin óljós.
Fjölmörg önnur eru jafngóð eða betri: Stórfenglegur, æðislegur, magnþrunginn, stórkostlegur, stórbrotinn, kröftugur, mergjaður, ótrúlegur, tilkomumikill, áhrifamikill, áhrifaríkur og merkilegur svo örfá dæmi séu nefnd.
Í fréttinni stendur:
Þá fá Víkingur og KA verðskulduð Evrópusæti.
Blaðamaðurinn sér ekki nástöðuna. Til að sleppa við hana þarf að umorða, til dæmis á þennan veg:
Víkingur og KA fá Evrópusæti og eiga þau fyllilega skilin.
Mikilvægt er að skrifarar séu gagnrýnir á eigin skrif og óttist ekki að þurfa að umskrifa texta sinn. Oft er það til bóta.
Tillaga: Nokkuð ljóst er að Breiðablik verður Íslandsmeistari, sem er verðskuldað enda hefur Breiðablik staðið sig afar vel.
2.
Seltjarnarneskirkja var vígð á Valhúsahæð 1989
Frétt á baksíðu Morgunblaðsins 8.10.22.
Athugasemd: Þetta er ekki beinlínis rangt enda er blaðamaðurinn vel máli farinn. Betur hefði þó farið á því að skrifa þetta eins og segir í tillögunni. Má vera að þetta sé smekksatriði.
Tillaga: Seltjarnarneskirkja á Valhúsahæð var vígð árið 1989
3.
Ofankoma með vindi
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 8.9.22.
Athugasemd: Þetta segir veðurfræðingur í viðtali. Skrýtið orðalag. Ofankoma er yfirleitt haft um snjókomu. Þegar snjóar í hvassviðri er talað um hríð. Þekkja veðurfræðingar ekki orðið eða er þetta hluti af nýlensku þeirra.
Veðurfræðingurinn sagði að mikil úrkoma falli þegar hiti er um frostmark. Alþýðufólk myndi orða það þannig að þá snjói. Hefur fennt yfir þetta orða í huga veðurfræðinga.
Tillaga: Hríð
4.
Þrátt fyrir margar sóknir fyrri hálfleik var markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Frétt á visi.is.
Athugasemd: Klisjur íþróttablaðamanna eru oft máttlausar og oft bjánalegar. Ekkert er að því að tala einfalt og skýrt mál. Þrátt fyrir margar sóknir ...: Já, liðin skiptast á að sækja en fæstir telja sóknirnar.
Hvað koma búningsherbergi málinu við? Allir þekkja regluna: Þegar fjörtíu og fimm mínútur eru liðnar skipta liðin um vallarhelming. Þá er hálfleikur ekki búningsherbergjagangur.
Margt í fréttinni er skrýtilega orðað. Hér eru nokkur gullkorn:
- Liðin skiptust á að sækja endana á milli. (En ekki hvað?)
- Bæði lið sýndu áfram vilja til að vinna leikinn (En ekki hvað?)
- Valsmenn náðu ekki að nýta yfirburði sína þegar komið var á síðasta þriðjung vallarins. (Er fótboltavelli skipt í þrjá hluta en ekki tvo?)
- Þeir fengu nokkrar flottar stöður í og við vítateig KR-inga. (Hvað eru stöður í fótboltaleik? Eru ekki allir á hlaupum?)
- Heimamenn refsuðu fyrir það í lokin. (Bull, fótboltalið refsa ekki.)
- KR fer í Kópavog laugardaginn 15.október klukkan 17:00 og mætir þar Breiðablik. (Er ekki nóg að segja að KR mæti Breiðabliki á þessum tíma?)
Fréttin er að stórum hluta aðeins innihaldslítið mal sem lesandinn hefur ekkert gagn af. Líklega er ekki við blaðamanninn að sakast heldur þá sem stjórna fjölmiðlinum. Þeir virðast ekki leiðbeina byrjendum, hvorki í uppbyggingu frétta né skrifum. Ef til vill eru þeir engu skárri.
Tillaga: Þrátt fyrir margar sóknir var makalaust í hálfleik.
5.
Rússland hefur gefið út að það hafi verið bílsprengja sem var sökudólgurinn.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Dólgur merkir ofstopamaður. Sökudólgur er sekur maður. Hvorki bíll né sprengja er dólgur, sökudólgur eða maður.
Hér færi betur fer á því að tala um Rússa, ekki Rússland.
Tillaga: Rússar hafa fullyrt að bílsprengja hafi skemmt brúna.
6.
Margir liðsmenn Íslands á mótinu fengu matareitrun í Slóveníu
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Yfirleitt er það orðað þannig að fólk verði fyrir matareitrun sem er rökrétt? Sjá Málfarsbankann.
Tillaga: Margir liðsmenn Íslands á mótinu urðu fyrir matareitrun í Slóveníu
7.
Fékk töskuna til baka í molum.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fatnaður og hlutir úr tauefni fer ekki í mola þó skemmist. Frekar er talað um efni í henglum eða tægjum.
Tillaga: Fékk töskuna til baka í henglum.
8.
Töskur á Boozt.com - Nýir stílar á hverjum degi.
Auglýsing á Google.com.
Athugasemd: Hvað skyldi fyrirtækið vera að auglýsa? Mætti halda að þetta væri auglýsing frá apóteki.
Samkvæmt málið.is getur stíll verið:
- ritæfing
- tímatalsaðferð
- Yfirbragð, svipmót
- stafir, letur
- ritfæri, griffill
Við má bæta að til eru lyf sem kölluð eru stílar. Þeir eru settir inn í líkamann en ekki í gegnum munn. Sjá nánar hjá Lyfju.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orðlof
Brjóstsyk
Þegar ég var barn var stundum keyptur brjóstsykur. Maður fékk einn mola í senn og beiðni um brjóstsyk var svarað með vangaveltum um uppruna orðsins og tilraunum til að telja strásykur og hveiti. Það þótti mér skemmtilegt.
Nú orðið tala fáir um mola heldur biður fólk um einn brjóstsyk eða marga brjóstsyka. Ekki get ég sagt að þessi meðferð á ágætu orði gleðji mig en þegar margir sameinast um vitleysuna málfarsbreytingu verður hún rétt. Við sitjum því uppi með þennan hroða þessa málnotkun, eins og hvert annað náttúrulögmál.
Ég hélt þó lengi að nefnifall eintölu væri brjóstsykur en það er engan veginn á hreinu sbr þennan tengil.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Dregið var úr honum blóðsýni
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er úr alræmdri dagbók löggunnar. Í mörgum tilvikum er dregið blóð úr fólki, oftast til að hægt sé að rannsaka það. Blóð sem þannig er tekið nefnist blóðsýni.
Ekki er hægt að taka draga blóðsýni úr manni vegna þess að blóð verður ekki að sýni fyrr en það hefur verið tekið. Enginn er með blóðsýni í sér.
Blaðamaður Moggans endurtekur það sem segir í dagbók löggunnar og skrifar hverfi 104. Báðir klikka, löggan og blaðamaðurinn. Póstnúmer eru ekki heiti hverfa. Ekkert í fréttinni er tilefni til birtingar.
Á ruv.is bergmálar blaðamaðurinn það sem segir í dagbók löggunnar að dregið hafi verið blóðsýni úr manni.Í fréttinni er talað um hverfi 200. Skelfing er þetta.
Skásta fréttin sem byggð er á dagbók löggunnar er á fréttablaðinu.is. Blaðamaðurinn velur punkta sem honum finnast fréttnæmastir og lætur svo við sitja.
Tillaga: Honum var dregið blóð
2.
Higuain gerði frábæra hluti með stórliðum í evrópskri knattspyrnu
Frétt á fréttablaðið.is.
Athugasemd: Hafi fótboltamaðurinn skorið út, smíðað, stundað leirlist eða eitthvað álíka kann að vera að út úr því hafi komið hlutir, jafnvel frábærir hlutir.
Óskiljanlegt hvaðan íþróttamenn hafa svona talsmáta. Er þeim útilokað að flytja fréttir að hætti vandaðra blaðamanna?
Tillaga: Higuain stóð sig frábærlega vel með stórliðum í evrópskri knattspyrnu
3.
Bifreið var stöðvuð í hverfi 108.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Skelfing er löggan vitlaus. Enn og aftur skrifar hún í svokallaða dagbók sína að póstnúmer séu heiti á hverfum. Ekki er blaðamaður Moggans skárri, heldur að þetta sé heilagur sannleikur.
Í fréttinni er sagt frá ölvuðum manni sem fór húsavillt. Þetta er auðvitað agalegt og því tíundað vel og vandlega. Loks er klykkt út með því að segja að löggan hafi hjálpað manninum að komast til síns heima. Ó, hvað löggan er nú góð (að eigin mati). Og engin skýrsla var gerð og vistfangaklefinn stendur tómur.
Sömu fréttir eru birtar á Vísi og fréttablaðinu.is. Á báðum fjölmiðlum höfðu blaðamennirnir vit á að sleppa póstnúmerstölunni. Þeir mátu það þó sem svo að dagbókin væri fréttaefni en þar skjátlaðist þeim.
Blaðamenn á rúv.is virðast hafa vit á því að sleppa því í þetta skipti að vitna í dæmalausa frásagnir úr dagbók löggunnar. Þeir eiga hrós skilið.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
F1 heimurinn nötrar fyrir uppljóstrun dagsins.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Skrýtið að nota forsetninguna fyrir í stað vegna.
Í fréttinni segir:
Síðasta tímabil í Formúlu 1 fer í sögubækurnar sem eitt mest spennandi, ef ekki mest spennandi tímabil í sögu mótaraðarinnar.
Ekki er mikil reisn yfir þessu. Klisjan um sögubækurnar er orðin afskaplega þreytandi. Hægt er að orða þetta á þennan hátt:
Síðasta tímabil í Formúlu 1 verður minnst sem eitt ef ekki það mest spennandi í sögu mótaraðarinnar.
Hér eru fleiri dæmi um slæm skrif:
- Að sama skapi hlaut tímabilið mjög umdeildan endi sem varð til þess
- tryggði sér heimsmeistaratitil ökumanna á síðasta hringnum í síðustu keppni tímabilsins með framúrakstri á Sir Lewis Hamilton
- segir að Formúla 1 standi nú á krossgötum sem getur haft miklar afleiðingar fyrir langtímaframtíð mótaraðarinnar.
- Aðal rökin fyrir kostnaðarþakinu voru þau að með því að setja þak á eyðslu liðanna stæðu þau á jafnari grunni sem ætti síðan að skila sér í jafnari bílum og keppnum.
Fleira mætti nefna. Nýliðar fá að skrifa að vild, enginn leiðbeinir þeim. Allt er birt og ekkert tillit tekið til lesenda. Svona blaðamennska er ekki bjóðandi og stendur varla undir nafni.
Tillaga: F1 heimurinn nötrar vegna uppljóstrun dagsins.
5.
Öll komið við sögu dómstóla.
Frétt á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu 7.10.22.
Athugasemd: Hafi einhver komið við sögu dómstóla hefur sá verið dæmdur. Kjánalegt að segja þetta ekki beinum orðum.
Tillaga: Öll hafa verið dæmd.
6.
Formaður skýrsluhópsins reif enga þögn.
Aðsend grein á blaðsíðu 13 í Fréttablaðinu 7.10.22.
Athugasemd: Óheppilegt er að rugla saman sögunum að rífa og rjúfa. Enginn rífur þögn. Algengt er að þögnin sé rofin.
Samt er undarlegt hversu lengi ég var að koma fyrir mig hvaða sögn ætti heima í þessa setningu í stað rífa.
Aftur á móti rífa margir kjaft, sumir með hávaða og látum, aðrir hæglátlega.
Tillaga: Formaður skýrsluhópsins rauf enga þögn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stundum lang en stundum stutt - tryggja 50% atkvæða - í fangageymslu fyrir rannsók málsins
2.10.2022 | 11:42
Orðlof
Skælbrosa
Skæl- í skælbrosa er fengið frá sögninni að skæla gráta, gretta sig.
Í Corvinuspostillu frá miðri 16. öld er þetta dæmi samkvæmt Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans:
hæddu at mier / skældu sig oc skoku hofudin.
Þarna er merkingin greinilega grettu sig.
Nafnorðið skæla merkir grátur en í fleirtölu einnig grettur; regnskúrir.
Að skælbrosa er að brosa breitt, oft þannig að sjái í tennurnar, en einnig að viðkomandi glotti með grettu. Orðið getur því stundum haft á sér neikvæðan blæ allt eftir því hverju er verið að lýsa.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
EPDE-hugveitan, sem hefur það hlutverk að ýta undir betri framkvæmd kosninga og kosningaeftirlits, segir hins vegar að eftirlitsmenn eigi aldrei að yfirfæra eigin reynslu sem mælikvarða á það hvort kosningin í heild sinni hafi farið fram með lýðræðislegum hætti, sér í lagi ekki ef þeir hafa ekki tekið þátt í langtíma eftirlitsverkefni.
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 28.9.22.
Athugasemd: Málsgreinin er afar löng og illskiljanleg. Líklega hefði mátt skipta henni í tvær eða þrjár málsgreinar.
Feitletruðu orðin virðast út samhengi sem og það sem á eftir kemur.
Ég treysti mér ekki til að koma með tillögu.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
6. september árið 2013 varð ákveðinn viðsnúningur
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvers vegna byrjar vanur blaðamaður málsgrein á tölustaf? Varla er það vegna vanþekkingar, frekar hugsunarleysi, fljótfærni.
Þetta er aldrei gert, ekki í blaðamennsku né í almennt í skrifum.
Ákaflega auðvelt er að lagfæra villuna. Hægt er að skrifa töluna með bókstöfum, bæta fornafninu þann fyrir framan tölustafinn eða umorða. Hér má mæla er með hinu síðastnefnda.
Tillaga: Ákveðinn viðsnúningur varð 6. september
3.
Stundum langt en stundum stutt en alltaf fór hann einhverja kílómetra.
Frétt á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu 29.9.22.
Athugasemd: Ekki er mikil reisn yfir málsgreininni. Tillagan er skárri.
Tillaga: Ýmist lengra eða skemmra en alltaf hljóp hann nokkra km.
4.
En til að vinna kosninguna í fyrstu umferð og komast hjá seinni umferð þann 30. október þarf hann að tryggja meira en 50 prósent atkvæða.
Frétt á blaðsíðu 10 í Fréttablaðinu 29.9.22.
Athugasemd: Yfirleitt er talað um að sigra eða vinna í kosningum. Sjálf kosningin tekur ekki þátt.
Fái frambjóðandi meira en 50% atkvæða þarf ekki að kjósa aftur milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði. Það hlýtur að liggja í augum uppi. Þar af leiðir að óþarft er að tíunda þetta með að komast hjá seinni umferð.
Frambjóðandi tryggir ekki nein atkvæði, hann tryggir sér þau.
í fréttinni segir:
en hugsanlega nær hann að ná til þeirra 7 prósenta kjósenda sem eru óákveðnir eða hyggjast ekki kjósa.
Nær hann að ná? Þetta er fljótfærnislegt orðalag. Skárra er að segja að hann nái hugsanlega til þeirra sjö prósenta kjósenda.
Tillaga: Til að sigra í fyrstu umferð kosninganna þann 30. október þarf hann að tryggja sér meira en 50 prósent atkvæða.
5.
Ráðist á fjölskylduföður á meðan hann keypti mat.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Eitt er að ráðast á mann sem er að kaupa mat en verra virðist löggunni og blaðamanni Vísis að fórnarlambið sé fjölskyldufaðir. Hér eru nokkrar tilbúnar fyrirsagnir:
- Haltur maður missir franskar kartöflur.
- Trjágrein fellur á einhleypan mann.
- Þriggja barna móðir blótar inni í bensínstöð.
- Vistmaður í fangageymslu segist saklaus.
- Svindlað á konu í annarlegu ástandi.
- Maður verður fyrir rannsókn máls og meiðist
Í fréttinni segir:
Í dagbók lögreglu segir að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Dálítið eru skrifarar málvilltir, þarna ætti að standa vegna rannsóknar málsins.
Alltaf er verið að rannsaka mál. Fullur kall eða kelling er tekinn til yfirheyrslu, sett í fangelsi eða sleppt. Hvað kemur svo út úr þessum rannsóknum? Það hefur hingað til ekki þótt fréttnæmt þó mikilvægt sé að segja frá því í löggudagbókinni. Annað sem vantar er að tíunda klósettferðir og hvað löggur á vakt drekka marga kaffibolla.
Blaðamenn gleyma því til hvers þeir eru þegar þeir líta á dagbókina, missa alla skynsemi og gagnrýna hugsun. Þeir telja dagbókina fjársjóð, allt í henni séu fréttir ritaðar á gullaldarmáli. Samt eru flestar fréttirnar frekar ómerkilegt. Blaðmenn sjá ekki að löggan ber ekkert skynbragð á fréttir, engu að síður afrita þeir dagbókina og líma inn í fréttaforritið og birta. Fyrir vikið eru löggufréttirnar svo til eins á öllum fjölmiðlunum.
Sannleikurinn er hins vegar sá að dagbókin er yfirleitt nauðaómerkilegur samtíningur, oftast algjör smáatriði en það sem kann að vera einhvers virði er ekki gerð nein skil. Tóm yfirborðsmennska.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Ákærður fyrir margendurteknar hótanir og ofbeldi gegn lögreglumönnum.
Frétt á DV.is.
Athugasemd: Lakari blaðamenn hefðu sleppt því að nota þetta ágæta lýsingarorð og sett í staðinn hið ofnotaða og misskilda lýsingarorð ítreka.
Blaðamaðurinn á DV fellur ekki ofan í þá forugu holu og skrifar eins og höfðingja sæmir. Hann á hrós skilið.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)